09.11.1937
Neðri deild: 23. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (1952)

71. mál, aðför

*Flm. (Einar Olgeirsson):

Viðvíkjandi þessu síðasta spursmáli hv. þm. Barð. verð ég að segja, að ég held, að ráðin til þess að ná í skattskylda peninga, þar sem þeir eru faldir standi ekki í neinu sambandi við þessa innheimtuaðferð, sem frv. ræðir um. Ég held, að eftirlit með skattsvikum verði ekkert léttara, þó að núv. ákvæði um innheimtur fái að standa. Það eru allt aðrar aðferðir, sem menn nota til þess að sleppa við að borga, þótt þeir eigi peninga, og ef við eigum að ræða möguleikana til að ná þeim eignum, þarf að vita fyrst, hvar þeir peningar eru aðallega fólgnir, þegar menn ætla sér að sleppa við að gefa þá upp. Hv. þm. Barð. talaði um fólk, sem ætti kannske mikla peninga í sparisjóði, en lítil og léleg húsgögn heima fyrir, svo að þeim væri sama, þó að það drasl væri tekið. Alveg rétt. Það geta verið ríkir menn, sem látast ekki eiga neitt. En ég hygg, að það standi í býsna litlu sambandi við lögin um aðför. Fólgnir peningar nást ekki með aðför. Það verður bara að ná þeim þar, sem þeir eru geymdir, mest undir launnöfnum í sparisjóðsbókum og í bankavaxtabréfum. Eftir því, sem ég bezt veit, hafa skattanefndir, eða a. m. k. skattstjóri í Reykjavík, rétt til að fá að vita um innstæður og raunverulega eigendur þeirra. En vel má vera, að ekki séu þær upplýsingar allar fúslega gefnar. Kunnugir menn gizka á, að það séu ekki minna en 10–20 millj. króna, sem þannig eru árlega sviknar undan skatti hérna á Íslandi. Við þingmenn Kommfl. munum koma inn á aðferðir til þess að ná til þeirra eigna í frv., sem við munum leggja fram á þessu þingi. — Ég mótmæli því, að þarna sé með frv. verið að glata möguleikum ríkisins til að ná inn sköttum. Þar er aðeins farið fram á að afnema ómannúðlega aðferð við það að ná sköttunum af þeim fátæku.