08.11.1937
Neðri deild: 22. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (1955)

75. mál, fasteignaskattur

*Flm. (Einar Olgeirsson) :

Þetta frv., sem við höfum hér lagt fram, er ekki sérstaklega róttækt, en það stefnir þó í þá átt, sem við álítum, að stefna eigi viðvíkjandi tekjuöflun. Ég býst við, að við munum síðar á þessu þingi koma fram með fleiri frv., sem stefna í líka átt, og þess vegna ætla ég nú að fylgja þessu frv. úr garði með nokkrum orðum um þá stefnu, sem við álitum réttast að hafa á þessum málum.

Allir munu vera sammála um það, að brýn þörf sé á að útvega ríkissjóði meira fé til þeirra framkvæmda, sem ríkið þarf að hafa með höndum. En spursmálið er, hvar eigi að taka það. — Eftir því, sem fram hefir komið í þessum málum enn sem komið er á þessu þingi, þá virðist sú skoðun vera ríkjandi, að ekki sé um aðra leið að gera til þess að afla ríkissjóði tekna en að leggja á nýja tolla í einni eða annari mynd. Nú er það vitanlegt, að nýir tollar þýða það fyrst og fremst, að lagðar eru þyngri byrðar á herðar alþýðu landsins, einmitt á herðar þeirra, sem mestar byrðarnar bera fyrirfram og þess vegna mega sízt við, að þar sé nokkru við bætt. Ennfremur er það vitanlegt, að allir þeir tollar, sem lagðir eru á nauðsynjar manna, leggjast í raun og veru beinlínis á atvinnulífið sjálft, auka dýrtíðina í landinu og gera þannig sjálfan atvinnureksturinn erfiðari, því að það liggur í augum uppi, að að sama skapi sem dýrtíðin vex, hljóta allir verkamenn að krefjast hærri launa. Við álítum þess vegna, að það, sem verður að finna út. sé tekjuöflunarleið, sem ekki hvílir þyngst á alþýðu manna, og sem um leið ekki verður til þess að íþyngja atvinnulífinu, heldur jafnvel frekar til þess að létta undir með því. Við álitum, eins og við höfum svo oft sagt, að réttlátustu skattarnir séu þeir, sem lagðir eru á þá ríku, enda er það sú í orði kveðnu viðurkennda stefna, sem viðhafa eigi í skattálagningu.

Þetta frv., sem við hér leggjum fram til breyt. á l. um fasteignaskatt, miðar sérstaklega í þá átt að hækka skattinn á lóðum, og ég held, að af öllum þeim sköttum, sem lagðir eru á þá ríku, sé skatturinn á dýrum lóðum sá réttlátasti og eðlilegasti til þess að íþyngja ekki atvinnulífinu. Ef við athugum, hvernig verðið, sem nú er á lóðunum yfirleitt, er skapað, þá sjáum við, að það er fyrst og fremst braskverð, það verð, sem ekki er skapað fyrir vinnu þeirra, sem lóðirnar eiga, heldur fyrir vinnu annara og aðgerðir þjóðfélagsins. Þessar lóðir hafa vaxið í verði án þess að nokkur skapaður hlutur hafi verið við þær gerður af hálfu eigendanna. Þetta er beint braskverð, sem er tekið frá þeim mönnum í þjóðfélaginu, sem ýmist stunda atvinnurekstur eða vinna að honum. — Það mun líka vera almennt viðurkennt, að hið háa lóðarverð og landleigan verði beinlínis til þess að íþyngja atvinnulífi þjóðfélagsins. Við þekkjum þetta sérstaklega hér í Reykjavik. Hér eru eftir síðasta fasteignamati lóðirnar metnar á 21 millj. kr., og það samsvarar því, ef maður tekur hið raunverulega verð, sem venjulega er um 50% hærra en fasteignamatsverðið, að Reykjavíkurtorfan sé 33 millj. kr. virði. Þetta verð hefir skapazt á nokkrum áratugum fyrir þróun þjóðfélagsins, án þess að þeir, sem þessar lóðir eiga, hafi í raun og veru sjálfir lagt nokkuð verulegt fram til þess. Hinsvegar er öllum vitanlegt, að þetta háa lóðarverð og landleigan eftir það íþyngja öllum atvinnurekstri hérna. Hún gerir húsbyggingar og húsnæði sérstaklega dýrt, og eins allan atvinnurekstur og sérstaklega verzlunina. Enda sér maður, ef þetta er reiknað út í huganum, að hin árlega landleiga hér í Reykjavík af þessum 33 millj. kr., sem Reykjavíkur-jarðeignirnar eiga að reiknast á að minnsta kosti, er 2 millj. kr., og er það ekki lítill skattur á atvinnulífinu og íbúunum hér. Það er þess vegna vitanlegt, að allt þetta verðmæti, sem í þessum lóðum og löndum liggur, hefir þjóðfélagið sjálft skapað, og á það þess vegna fullan rétt og kröfu til þess. Það verður þess vegna ekki séð, að annar skattur sé réttlátari en sá, sem að einhverju leyti reynir að taka þennan rétt til þjóðfélagsins aftur. Það væri þess vegna mjög rétt og eðlileg leið að smáhækka skattinn á þessum lóðum, þannig að það væri að lokum sem samsvaraði landleigu. Það yrði náttúrlega að gerast á nokkuð löngum tíma, t. d. á einum mannsaldri, til þess að það komi ekki hart niður á einstaklingunum. Nú eru komin 16 ár síðan fasteignaskattinum var breytt, og ætti þess vegna að vera kominn tími til þess. Og við álítum, að á þessum tímum, þegar ríkið er í vandræðum með fé og þegar alþýðunni er íþyngt með tollum og sköttum, þá sé sjálfsagt að fara þá leið að leggja skattana fyrst og fremst á þá ríku, sem sízt hafa til þess unnið að hafa ágóða af því verðmæti, sem þeir hafa með höndum, og það eru jarða- og lóðabraskarar hér í Reykjavík og annarsstaðar á landinn.

Þetta hefi ég viljað taka fram til þess að réttlæta þetta frv., án þess þó að ég vilji gefa í skyn, að í því felist nokkurt fullkomið réttlæti í þessum efnum, né að með því sé virkilega verið að taka ríflegan part landleigunnar til þjóðfélagsins. Þessi mín rökfærsla er því í rauninni að því leyti miklu róttækari heldur en frv. sjálft, því að það er í rauninni miðað við það, sem hugsanlegt væri, að Alþ. mundi fáanlegt til að samþ., en ekki hitt, hvað nauðsynlegt eða réttlátt væri, enda er ég hræddur um, að slíkt hefði ekki byr innan þessara veggja.

Það, sem þetta frv. fer fram á í einstökum atriðum, er í fyrsta lagi, að fasteignaskatturinn verði stighækkandi miðað við dýrleik lóðanna. Fasteignaskatturinn til ríkissjóðs er í raun og veru tiltölulega lágur, en við útsvarsálagningu er tekið þó nokkurt tillit til fasteigna og lagt nokkuð hátt á þær, en ekki miðað sérstaklega við lóðaverð. Í 1. gr. er því farið fram á það að taka aukreitis skatt af þeim lóðum, sem eru sérstaklega dýrar, sem hæst hafa verið sprengdar með lóðabraski. Þetta aukagjald skal verða 1% af þeim lóðum, þar sem fermetrinn er að fasteignamati 10 kr., og hækka um1% við hverjar 10 kr., sem við fasteignamatsverðið bætist. Þetta þýðir, að af öllum dýrari lóðum í Reykjavík mundi þessi viðbót komast upp í 1,6%, og þar, sem grunnskatturinn er 3 0/00, 1,9%, eða tæp 2% af allra dýrustu lóðunum. En það er rétt að geta þess, að meginhlutinn af öllum lóðum, bæði í Reykjavík og annarsstaðar, sleppur við þessa hækkun, því að meginhluti þeirra er að fasteignamati undir 10 kr. fermetrinn. Það eru því aðeins hinar dýrari lóðir. sem braskið hefir náð til, sem þetta fyrst og fremst leggst á, og það verður líka að teljast réttmælt.

Þá er lagt til í 2. gr., að fasteignaskattinum, sem leggst á hús, sé að nokkru leyti breytt. Að vísu er hann látinn haldast eins og hann er, 1½0/00, á húsum, sem notuð eru til íbúðar og atvinnurekstrar, en hækkaður á þeim húsum, sem notuð eru til verzlunar- eða skrifstofuhalds. Það er öllum vitanlegt, að tiltölulega er of mikið húsnæði, bæði hér í Reykjavík og stærri kaupstöðum landsins, notað til verzlunar- og skrifstofuhalds, og væri það því mjög heilbrigt, et hægt væri að knýja það fram, að það minnkaði nokkuð, en væri aukið til íbúðar og atvinnurekstrar, því að á sama tíma, sem mikið húsnæði er notað til verzlunarhalds, er skortur á húsnæði til að búa í.

Þá er í 3. gr. gert ráð fyrir sérstökum skatti á óbyggðum lóðum í kaupstöðum landsins. Það er þó nokkuð títt fyrirbrigði, að einstakir menn kaupi upp eða eignist einhvern veginn byggingarlóðir og liggi með þær í braskskyni jafnvel árum saman, haldi þeim í háu verði og geri þannig illmögulegt að byggja á þeim. Og er þessi skattur sérstaklega miðaður við það að koma í veg fyrir slíkt. Við álitum, að þetta sé það réttasta og heppilegasta til þess að auka húsbyggingar og örva yfirleitt atvinnulífið og til þess að fyrirbyggja brask með byggingarlóðir, svo að hver, sem vill byggja, eigi aðgang að lóðum með hæfilegu verði. Þess vegna förum við fram á það í þessu frv., að leggja háan skatt á þessar dýru lóðir.

Ég þori ekki að gizka á, hvað mikið þetta frv., ef að l. yrði, drægi ríkissjóð. Það er ekki sérstaklega mikið, svo hóflega sem í sakirnar er farið. Það mætti nefna 150–200 þús. kr., varla meira. En hinsvegar, ef mönnum litist á þetta „princip“, mætti ganga lengra í þessu, og þá mætti slá tvær flugur í einu höggi: tryggja ríkissjóði meiri tekjur, án þess að íþyngja atvinnulífinu, heldur bókstaflega hjálpa til að örva það.