08.11.1937
Neðri deild: 22. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (1958)

76. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

*Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Ég skal ekki þreyta hv. d. á löngu máli, því að brtt. mínar, sem hér liggja fyrir á þskj. 94, munu segja til um það, hvert stefnt er.

Þegar mjólkursölulögin komu til framkvæmda á Akureyri síðastl. sumar, komu ýmsir agnúar á þeim í ljós, sem olíu mikilli óánægju meðal mjólkurframleiðenda í bænum, og eru það þessir agnúar, eða tveir þeirra, sem ég hefi tekið hér upp til breytinga.

Það er þá fyrst og fremst þetta, að menn kunna því illa að mega ekki neyta þeirrar mjólkur, sem þeir sjálfir framleiða, án þess að greiða verðjöfnunargjald fyrir.

Í 2. gr. l. er skýrt kveðið á um það, að þetta verðjöfnunargjald sé gjald, sem lagt er á alla neyzlumjólk og rjóma, sem seld er. Menn héngu fast við þennan lagabókstaf og héldu, að þeir mættu drekka sína eigin mjólk, án þess að lagður væri skattur á. En þegar til framkvæmdanna kom, urðu menn að greiða verðjöfnunargjald af allri mjólk, hvort sem hún var seld eða hennar var neytt í heimahúsum, og var þar skotið sér undir ákvæði 5. gr. l., sem í rauninni tekur aftur það, sem gefið er með 2. gr. Það hefir verið leitað álits lögfróðra manna, og hafa skoðanir þeirra verið nokkuð á reiki með það, hvernig bæri að skilja þetta atriði, en ofan á varð sú skoðun, að þessar tvær greinar stönguðust á. Auðvitað væri hægt að heimta dóm í málinu, en það hefir hingað til ekki verið gert. Þess vegna datt mér í hug, hvort ekki mundi vera hægt að fá samkomulag um þetta atriði hér á Alþ., þannig að mjólkurframleiðendur gætu fengið að neyta sinnar eigin framleiddu mjólkur til síns heimilis, án þess að greiða af henni verðjöfnunargjald.

Hitt var ákvæðið um meðalársnyt kúa, sem verðjöfnunatgjaldið ætti að miðast við. Var hún ákveðin 3000 lítrar, sem vitanlega er langt fyrir ofan meðallag. Það eru ekki ýkja mörg ár síðan opinberar skýrslur Búnaðarfélagsins sýndu, að meðalársnyt kúa væri 2500 lítrar.

Ég hefi í frv. mínu sett fram tvær brtt. við mjólkurl. Sú fyrri fer fram á, að orðin í 5. gr. l.: „Tekur þetta einnig til þeirrar mjólkur, sem undanþegin er verðjöfnunargjaldi samkv. 2. gr. 2. málsgr.“ falli niður. Hin er um það, að í stað þess að miða verðjöfnunargjaldið við 3000 lítra ársnyt úr hverri kú, skuli það miðast við meðalársnyt kúa á verðjöfnunarsvæðinu, þó aldrei meira en 2500 lítra ársnyt úr hverri kú. Ég hefi orðið þess var, að menn hafa hnotið um þetta. Gæti verið, að heppilegra væri að miða við lögsagnarumdæmi, og er mér þetta atriði ekki sérstakt kappsmál. Ég hefi með brtt. mínum reynt að raska l. sem minnst, til þess að fremur væri hægt að fá fram þessar litlu breytingar.

Ég stefni hér að því að fá kippt í lag ágalla á l., þannig að smærri mjólkurframleiðendur, sem ekki hafa nema eina eða tvær kýr, fái að njóta sjálfir mjólkurinnar úr þeim, án þess að þurfa að greiða verðjöfnunargjald af henni, og í öðru lagi að verðjöfnunargjaldið miðist við meðalársnyt kúa á ákveðnu verðjöfnunarsvæði, en ekki tölu, sem sé fyrirfram ákveðin í eitt skipti fyrir öll. Meðalársnyt er mjög ójöfn, eftir staðháttum. Þess er t. d. að gæta, að í kaupstöðum, þar sem lítið er um kálfauppeldi, verða oft ör skipti á kúm, og ég hefi reynslu fyrir því, að ársnyt kúa, sem keyptar voru af góðum sveitaheimilum, þar sem þær höfðu alizt á góðri töðu, féll stundum mjög, er þær voru fluttar í kaupstaði, þar sem þær fengu lélegra fóður. Af þessu er ljóst, að þessi tala, sem l. miða verðjöfnunargjaldið við, er of há, þegar litið er á heildina.

Mér hefir verið bent á, að fara mætti skemmra en í brtt. mínum er farið. Gæti verið, að hægt væri að ná markinn á einfaldari hátt, t. d. með því að gefa heimild til undanþágu á verðjöfnunargjaldi fyrir þá mjólk, er menn neyta sjálfir. Þetta mætti athuga.

Að lokum leyfi ég mér að óska þess, að málinu verði vísað til landbn. og 2. umr.