29.10.1937
Efri deild: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

3. mál, kosningar til Alþingis

*Frsm. (Magnús Guðmundsson) :

Þetta frv. er ætlað til staðfestingar bráðabirgðal., sem gefin voru út undir síðustu kosningar út af láti eins frambjóðandans. Er ráð fyrir því gert í frv., að þegar svo stendur á, skuli atkvæði þau, er greidd hafa verið fyrir viðkomandi kjördæmi utan kjörstaðar, vera ógild, en þeim mönnum, er greitt höfðu þessi atkvæði, heimilt að kjósa á ný við utankjörstaðakosningu, eftir því sem tími vinnst til.

N. fannst þessi regla óheppileg. Í 32. gr. kosningal. er ákveðið, að þegar frambjóðandi fellur frá 7 dögum eða fleiri fyrir kosningar, þá sé heimilt, að annar bjóði sig fram í hans stað. Af því leiðir, að ef hann deyr t. d. 8 dögum fyrir kosningar, þá er vikufrestur til að bjóða fram nýjan mann, og getur þá farið svo, að aðeins sé eins dags frestur fyrir kjósendur til að greiða atkv., en það er sama og að taka atkvæðisréttinn af þeim. Það er ekki heldur vist, að allir, sem greitt höfðu atkv., geti gert það aftur, þó að frambjóðandi hafi látizt meira en viku fyrir kosningar.

Því datt n. í hug að fara aðra leið, sem skýrð er í nál. á þskj. 61, þá leið, að láta þan atkv., sem greidd hafa verið utan kjörstaðar hinum látna, falla á hinn nýja frambjóðanda. Á þessu er aðeins einn galli. Það er sem sé ekki alveg víst, að allir, sem greitt hafa atkv. hinum látna, vilji jafnframt kjósa hinn nýja frambjóðanda. Þó mun oftast svo vera, því að yfirleitt er kosið eftir flokkum. En til þess að rétta hlut þeirra, sem greitt hafa hinum látna atkv. sitt, en vilja ekki kjósa hinn nýja frambjóðanda, er þeim heimilað að fá afhentan atkvæðaseðil sinn og kjósa á ný, ef þeir tilkynna fyrir kjördag, að þeir óski þess. Með þessu er hlutaðeigandi flokki bjargað frá því að missa atkv., er greidd hafa verið hinum látna, en hinum óánægða hinsvegar gefinn kostur á að greiða atkv. á ný.

Ég get tekið það fram, að það var ekki svo, að höfundar kosningal. — en ég var einn þeirra — hafi ekki athugað þetta mál, heldur töldu þeir, að ekki væri hægt að bæta úr að fullu, ef frambjóðandi létist; það yrði þá að vera skaði þess flokks, sem fyrir því yrði., því að enn verra þótti að ganga á rétt kjósenda. En með þessari brtt. n. ætla ég, að vel sé skipt sól og vindi. Með þessari aðferð verður ekki röskun á utankjörstaðaratkvgr., og þeir einir verða að hugsa sér til hreyfings, sem óánægðir eru með frambjóðanda þann, er kemur í stað hins látna.