29.10.1937
Efri deild: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

3. mál, kosningar til Alþingis

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Þessi till. er að mínu áliti athugaverð. Ég hefi sagt hv. n. það álit mitt, að hin aðferðin, sem stungið er upp á í l., sé betri, og það eina, sem séð verður, að sé rökrétt f þessu máli. Áður en ég vík nánar að því, vil ég minnast á það, sem hv. 9. landsk. lét í veðri vaka, að út í þetta atriði hafi verið hugsað af þeim, sem sömdu kosningal. Ég held, að vafasamt sé, að það hafi verið gert. Í l. er hvergi minnzt á þetta tilbrigði, sem fram kom í sumar og gaf tilefni til bráðabirgðal. En þegar bráðabirgðal. voru sett, kom til athugunar þessi aðferð, sem brtt. fjallar um. Ég átti þá tal um þetta við tvo færa lögfræðinga utan ráðuneytisins, og töldu þeir ekki hægt að hafa þá aðferð, af því að hin leiðin væri sú eina, sem tryggt gæti, að kosinn þm. væri í raun og veru kosinn að vilja kjósendanna. Eftir till. n. eiga kjósendur þeir, sem greitt hafa hinum látna atkv., rétt á að kalla atkv. til baka. En það getur oft verið, að þeir hafi ekki aðstöðu til að kjósa á ný. Hugsum okkur til dæmis skipshöfn, sem fer í langa sjóferð. Þannig geta legið fyrir atkv., greidd hinum látna, sem kjósendur hefðu ekki viljað greiða hinum nýja frambjóðanda, en hafa ekki tök á að leiðrétta.

En ef tekin er upp hin reglan, að láta öll atkvæði greidd utan kjörstaðar vera ógild, þá standa allir frambjóðendur jafnt að vígi um að framkalla á ný vilja kjósenda, og er þá útilokað, að fram komi atkv. annara manna en þeirra, er vilja kjósa. Með aðferð n. geta nokkur atkvæði fallið á hinn nýja frambjóðanda, sem hann á ekki, og þar sem atkvæðamunur er lítill, geta þau ráðið úrslitum; hann getur beinlínis komizt inn á þessum atkvæðum.

Þó að margir hafi fundið þessum bráðabirgðal. ýmislegt til foráttu, ætti það ekki að verða til þess, að við gengjum nú frá fyrirkomulagi, sem væri ennþá lakara. Hinsvegar verður hv. d. að ráða úrslitum um það, og eins hv. Nd. Getur og verið, að þetta skipti ekki mjög miklu máli. En ég vildi benda á það, að þegar bráðabirgðal. voru sett, var tekin til athugunar þessi leið hv. n., en hún var þá ekki talin fær.