17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (1978)

80. mál, jarðræktarlög

*Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Þetta frv. er þannig til komið, að tekin hafa verið út úr 3 atriði úr öðru frv., er liggur fyrir þessari hv. d. Ég sakna þess, að þeim tveim lögfræðingum, sem standa að frv., hefir láðst að gera á l. vissar breytingar. Viðvíkjandi hámarksákvæðinu um styrk til jarðabóta hefði í niðurlagi 23. gr. þurft að gera breytingar, og einnig á 1. málsgr. í niðurlagi 51. gr. l., þar sem rætt er um það, að ef hið opinbera tekur land eignarnámi, þá skuli allur opinber styrkur, er veittur hefir verið, dreginn frá endurgjaldinu. Í frv. á þskj. 78 hefir þetta verið atbugað, og hefði ég vænzt þess, að það yrði einnig gert í þessu frv. Þegar frv. á þskj. 78 var til 1. umr., var létt tekið á ýmsum ákvæðum hér að lútandi, svo sem ákvæðinu um 17. gr., af því að okkur var kunnugt um það, sem gerzt hafði á flokksþingi Framsfl. Þeir, sem stóðu að löggjöfinni, áttu þar í vök að verjast og urðu að gefa hálfgildings loforð um, að þessari gr. skyldi breytt. Fengu þeir því aðeins meðmæli með l., að því væri lofað að breyta þessu. Ég veit t. d. um einn bónda, sem sagðist eiga það eitt erindi á flokksþing Framsóknar að segja sig úr flokknum, og hann gerði það ekki vegna þess eins, að loforð var gefið um að breyta 17. gr.

Ég átti því von á bót og betrun, og ég vildi gera flokknum auðvelt að gera þá yfirbót. Í framsögu fyrir frv. á þskj. 78 vildi ég ekki egna illt skap, og fór ég því ekki við l. umr. mörgum orðum um 17. gr., því að það er eins og að koma við viðkvæmt sár að minnast á þessa 17. gr. við suma framsóknarmenn. Ég vildi ekki efa sárin, en lofa þeim að iðrast í einrúmi.

En nú hafa umr. snúizt á annan veg. Það er komið í ljós, sem ég vissi, að framsóknarmönnum myndi reynast erfitt að stilla skap sitt, ef komið væri við þetta sár. Það er ef til vill illa farið, að þetta sár var ýft, fyrr en séð var, hvort efndir yrðu. Má vera, að réttara hefði verið að taka mýkri höndum á því, meðan ekki var víst um afstöðu flokksins, því að ekki er rétt að taka hart á mönnum, meðan þeir eru að sjá að sér, ella geta þeir fallið til baka. En það hefir komið í ljós, að iðrun þeirra var ekki eins mikil og við hefði mátt búast. A. m. k. virðist sem hv. 2. þm. Skagf. hafi nú fallið til baka og yfirgefið málið, og var hann þó einn þeirra fyrstu, er sáu að sér í málinu, því að hann játaði á aukabúnaðarþingi 1936, að 17. gr. næði ekki tilgangi sínum eins og hún er nú. En það var ekki að heyra á hv. þm., þegar hann talaði hér síðast.

Það vill verða svo stundum, þegar menn fá slík „tilbakaföll“, að menn verða hálfu verri en fyrr. Og þetta er einmitt það, sem hefir skeð hér, því þessi sami þm., sem játaði það á aukabúnaðarþinginu, að 17. gr. næði ekkí tilgangi sínum, kvað svo fast að orði í sinni síðustu ræðu, að 17. gr. væri hvorki meira né minna en sett til þess að rétta við sveitirnar. Það á að rétta við sveitirnar með 17. gr. Dettur mér í því sambandi í hug jörð, sem ég kom á síðastl. sumar, frekar afskekkt jörð, þar sem erfitt er um aðdrátt. Bóndinn og faðir hans höfðu lagt á 4. þús. kr. í ræktun jarðarinnar. Bóndinn sagði mér, að þyrfti hann að selja jörðina, myndi hún seljast um 600 kr. meira vegna þessara jarðabóta. Nú þótti honum hart, að það skyldi vera lögð kvöð á þennan 1/5 hluta, sem hann fengi úr ríkissjóði. Mér heyrðist hann ekki telja það hvatningu, að lögð væri kvöð á þennan 1/5 hluta, sem hann fengi fyrir framlagt fé og unnið verk á jörð sinni. En með þessari hvatningu ætlar Framsfl. að rétta við sveitirnar.

Það sýnir kannske ekki mikið, að koma með fordæmi af þessum eina bónda. En ég get tekið bændur í heild. Bændur landsins leggja fram árlega um ½ millj. dagsverka í umbætur á jörðum sínum. Ef meta á hvert dagsverk á 5 kr. fyrir utan styrkinn, þá verða þetta um 2½–3 millj. árlega, eða 25–30 millj. á hverjum 10 árum, eða á þeim tíma, sem liður milli fasteignamats.

Ég geri ekki ráð fyrir, að jarðirnar hækki í verði um meira en 1/5–1/3 af þessari upphæð.

Og er ekki nóg, að bændurnir verði að afskrifa hluta, eða um 20 millj. á hverjum 10 árum, af því fé og þeirri vinnu, sem þeir hafa lagt fram til umbóta á jörðum sinum, þótt ríkið taki ekki, eins og kúaráðunauturinn vildi vera láta, 1/3 af því? Eg spyr. Það er réttasti skilningurinn á jarðræktarstyrknum, að hann sé einmitt þátttaka af hálfu ríkisins í þeirri nauðsynlegu afskrift, sem þarf að gera á jarðabótum á hverjum tíma.

Það er venja hjá hverju fyrirtæki, sem ber sig, að bókfæra þær umbætur, sem gerðar eru, með kostnaðarverði fyrst og verja síðan hluta af ágóða hvers árs til að afskrifa. En það er augljósara en um það þurfi að ræða, að þetta geta íslenzkir bændur ekki gert. Og eftir því, sem fram hefir komið af opinberum reikningum, hafa jafnvel ekki þeir, sem stærst hafa búin og bezta afstöðu á allan hátt, getað afskrifað sínar jarðabætur. Þetta sýnir, að ræktunarstyrkurinn hefir fullan rétt á sér einmitt sem þátttaka hins opinbera í afskrift á þeim jarðabótum, sem gerðar eru.

Svo er á eitt að líta. Hver, sem ætlar að gera jarðabætur, á samkv. l. ræktunarstyrk vísan upp að vissu marki. Allir hafa jafna aðstöðu til að notfæra sér þennan jarðræktarstyrk. Og hvaða ástæða er þá fyrir kaupanda jarðar að borga þann styrk, sem hann sjálfur á vísan, ef hann gerir jarðabætur? Ég get tekið hliðstætt dæmi. Ríkið styrkir bændur til áburðarkaupa, og það allríflega, allt að 3 kr. á sekk fyrir nokkru síðan. Varð þess vart, að menn bröskuðu með þann styrk? Nei, allir áttu jafnan rétt á honum, og því var ekki braskað með hann, þegar áburðurinn gekk kaupum og sölum. Þessu er alveg eins háttað með jarðræktarstyrkinn. Menn selja ekki þau verðmæti, sem allir eiga jafnan rétt á. Það er því alger hugsunarvilla og blekkingarrök að komast svo að orði eins og hv. 2. þm. Skagf., að menn gætu braskað með jarðræktarstyrkinn. En viðvíkjandi ákvæðum 17. gr. er og á það að líta, að eigi að setja slíkar kvaðir á framlag ríkisins til umbóta og aukningar á þjóðarauðnum, eins og ræktunin er, yrði vitanlega samræmis vegna að elta uppi öll framlög, sem það opinbera veitir og kynnu að hafa aukningu verðmæta í för með sér. Ég get nefnt jörðina, sem ég dró dæmi af áðan. Bóndinn taldi, að jörðin myndi hækka um 600 kr. fyrir þá ræktun, sem þar hafði farið fram. En það er ekki ólíklegt, að kæmist sú jörð í gott vegasamband, þá mundi hún hækka um aðrar 600 kr. í söluverði, og það án þess að bóndinn hefði lagt fram einn eyri til að skapa þá verðhækkun. Þá kemur það allhlálega við, að bóndinn sleppur kvaðalaus og fær kvaðalaust í hendurnar verðmætisaukningu, sem hann hefir ekki lagt eyri til, en hinsvegar fær hann allháa kvöð á verðmætisaukningu, sem hann hefir skapað með fimmföldu framlagi við það, sem hann fær.

Þess hefir verið getið til, að ákvæði 17. gr. séu upphaflega komin frá samstarfsflokki Framsfl. um stjórnaraðstöðu. Og sé svo, þá er tilgangur þessara l. nokkurn veginn auðsær og ekki sá, sem uppi er látinn, heldur sá, að fá bændurna til að láta af hendi einn fingur til þess opinbera, til þess síðan að ná allri höndinni. Það er augljóst, að eins og frv. var fyrst lagt fram af n., þá var beint stefnt að því, að hið opinbera eignaðist allt að 5 þús. kr. í hverri jörð á landinu.

Hv. þm. vitnaði í það, að atkvgr. hefði farið fram um þetta. Ég hygg, að atkvgr., sem fór fram um 17. gr., hafi verið alveg vafalaus. Ég veit ekki betur en að þar hafi atkv. fallið á þessa lund, að með 17. gr. voru greidd 898 atkv., en á móti 1558 atkv., m. ö. o., nálega 2/3 af þeim bændum, sem greiddu atkv. um þessa gr., greiddu atkv. á móti ákvæðinu. Þar að auki má geta þess, að þó að ýms búnaðarfélög gæfu einskonar loðin meðmæli með þessum l., þá má taka tillit til þess, að það komu fram allmiklar hótanir um það, jafnvel af hálfu hins opinbera aðilja, að bændar skyldu hafa verra af, ef þeir gengju ekki að jarðræktarl. eins og þau voru. Og það var tekið eftir því, þegar atkvgr. fór fram, að víða, þar sem stjórnarsinnar voru í meiri hl., var ekki leyfð leynileg atkvgr., en þar, sem hinsvegar leynileg atkvgr. var höfð, munu atkv. yfirleitt hafa fallið á móti l. Þar, sem atkvgr. aftur á móti féll á þá lund, að fundurinn t. d. teldi sig í höfuðatriðum meðmæltan l., þá mun ekki hafa verið fyrst og fremst átt við 17. gr., heldur þær raunverulegu endurbætur, sem gerðar voru með l. Á ég þar við þau atriði, sem eru að nokkru leyti tekin upp úr frv., sem Bændafl. hefir flutt á undanförnum þingum, t. d. um áburðarkaup, framræslu o. fl. Þessi ákvæði töldu bændurnir stefna í rétta átt og vildu veita þeim viðurkenningu.

Hv. þm. sneiddi að Bændafl. í sinni ræðu og sagði, að hann hefði komið fram með, í sínu nýbýlafrv. 1934, hliðstæð ákvæði og eru í 17. gr. Ég vil algerlega mótmæla þessu, og hv. þm. veit vel, að það er mikill munur á ákvæðum þessa frv. og ákvæðum jarðræktarl. Samkv. frv. Bændafl. átti ríkið að leggja fram hálfa jörðina og hálfa ræktun og hús á þeim helmingi, og þar sem ríkið átti þennan helming og hafði lagt hann fram að öllu leyti, þá var allt öðru máli að gegna með þetta en þann litla styrk, sem veittur er til ræktunar. Ríkið á víða hálfar jarðir, og kostar þó ekki hálfa ræktun á þeim, eins og gert er ráð fyrir í nýbýlafrv., heldur veitir styrk til hennar, og ríkið afhendir þar ekki land það, sem þessi styrkur er veittur til ræktunar á. Það á landið áfram og hefir sínar stóru kvaðir á því, við að greiða árlegt afgjald. En samkv. nýbýlafrv. átti það land að lánast endurgreiðslulaust, en vitanlega ekki að vera heimilt að selja það. Og það getur ekki talizt athugavert, þó að ríkið afhendi ekki það land, sem það hefir sjálft keypt og kostað ræktun á, frekar en hægt er að ætlast til þess, að ríkið afhendi þær jarðir, sem það á að öllu leyti. Ef ríkið keypti hálfar jarðirnar af bændum, þá horfði málið öðruvísi við, og væri ekkert við því að segja, þótt einhverjar kvaðir fylgdu. En nú er þetta ekki í jarðræktarl. og þau því á engan hátt sambærileg við nýbýlafrv. Jarðræktarl. taka til allra í landinu, sem rækta, en nýbýlafrv. aðeins til fárra manna, sem verða að uppfylla viss skilyrði. Nýbýlafrv. veitir fáum einstaklingum hlunnindi, sem aðrir eiga ekki kost á, og því er ástæða til að hafa sérákvæði um slíkt. Ef því væri svo varið með jarðræktarstyrkinn, að ætlazt væri til, að örfáir menn fengju notið hans, þá væri öðru máli að gegna, þótt menn yrðu að taka á sig einhverjar kvaðir. En nú taka jarðræktarl. til allra ræktenda í landinu, og styrkurinn er ekki veittur fáum útvöldum eins og í nýbýlafrv., og þess vegna er ekki ástæða til að leggja kvaðir á þann styrk. Og eins og ég tók fram áðan, þá kaupir enginn maður jarðræktarstyrk, sem hann á kost á að fá ókeypis.

Þetta gæti að vísu horft öðruvísi við, ef það væri meiningin að afnema ræktunarl. og ræktunarstyrkinn. Þá mætti líta á 17. gr. sem undirbúning til þess að jafna fyrirfram aðstöðu þeirra jarða, sem hafa notið styrksins, og hinna, sem hafa ekki notið hans. Þær raddir hafa heyrzt frá einum flokki hér innan þingsins, að jarðræktarl. mætti afnema. En þó að Framsfl. hafi stundum gengið erinda þeirra manna, sem hafa borið landbúnaðinn litt fyrir brjósti, þá hygg ég, að flokkurinn hafi ekki vitandi vits undirbúið afnám jarðræktarstyrksins með 17. gr. Og ég vil vænta þess, að Framsfl. taki til greina þau mótmæli, sem komið hafa fram gegn 17. gr., og geri annaðhvort, að afnema ákvæði hennar eða breyta þeim, svo að þau verði óskaðleg. Þá fyrst getur maður sagt, að flokkurinn sýni í verki þá afstöðu til þessa máls, sem honum er samboðin.