17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (1980)

80. mál, jarðræktarlög

*Sveinbjörn Högnason:

Ég get ekki annað en látið í ljós undrun mína á því, að hér skuli nú eiga að fara að leika sama skrípaleikinn um jarðræktarlögin og gert var fyrir og kringum atkvgr. þá, þar sem meginhluti bænda lýsti yfir því, að hann væri lögunum fylgjandi. Þetta sýnir það eitt, að þeir menn, sem slíkum bardagaaðferðum belta, virða í raun og veru álit bændanna, sem þeir eru þó alltaf að vísa til, að vettugi. Það er sannarlega ógeðslegt, að hér á Alþingi skuli vera haldið uppi baráttu til þess að halda uppi tortryggni um mál, sem bændur eru þegar búnir að láta í ljós álit sitt á, enda sjá menn bezt, af hvílíkri alvörugefni þetta mál er flutt hér og rætt, et þeir virða fyrir sér andlitið á hv. flm. (GSv).

Hv. þm. Dal. var í sambandi við þetta mál að tala um iðrun og afturhvarf, svo sem tíðkast um oss presta. Vegna afstöðu hans í þessu máli verð ég að leggja sérstakan skilning í þessi orð hans. Hann hefir á allan hátt reynt að tortryggja jarðræktarlögin, eins og aðra umbótastarfsemi síns fyrra flokks á síðari árum, og hefir alls ekki látið skipast við fortölur fyrri samherja sinna um að koma aftur í fylkingar okkar og vinna með drengskap að þeim umbótamálum, sem fyrir liggja. En við atkvgr. um jarðræktarlögin mun hann hafa séð vilja bænda í þeim málum, og því mun iðrun og afturhvarf hans nú vera fólgið í þeirri ósk, að vægilega verði á honum tekið af þeim mönnum, sem hann hefir brugðizt í þessu máli sem fleirum, meðan hann er að iðrast. Ég veit, að það er þungt fyrir hann að fá slíka áfellisdóma hjá bændum sem atkvgr. ber vott um, en þótt við trúum ekki enn hverju hans orði, skal ég lofa honum því, ef hann sýnir einlæga viðleitni til betrunar, að létta honum afturhvarfið eins og hægt er. Annars get ég sagt honum það um leið, að í flestum málum er dómur bænda sá, að ekki beri að treysta liðhlaupum þeim, sem skreiðzt hafa undir pilsfald Sjálfstfl., sem virðir vilja og atkvgr. bænda að vettugi. En þó skal ég lofa hv. þm. Dal., að ég skal reyna að styðja hann með nærgætni út af þeirri braut, þegar ég sé, að honum er alvara.

Um 17. gr. er það að segja, að það er vilji fjölda bænda, að hún verði skýrar orðuð en nú er, svo að öruggt sé, að styrkir til ræktunar verði ekki til að hækka jarðirnar í verði. Ég hefi ekki heyrt aðrar raddir um þá grein en slíkar, og mér er óhætt að fullyrða, að Framsfl. mun ekki bregðast skyldum sinum í þessu efni.

Hv. flm. (GSv) segir, að sú tíð sé nú löngu liðin, að menn braski með jarðir sínar. Mér er þó kunnugt um eina jörð, hér ekki alllangt frá, þar sem eigandinn krefst 100 kr. fyrir dagsláttu, sem ríkissjóður hefir lagt í 60–70 kr. til að rækta. Fari slíkar sölur fram, er auðsætt, að sá, er við jörðinni tekur, væri betur settur með þeim hætti, að engar framkvæmdir hefðu áður verið á jörðinni gerðar. En allmörg slík dæmi þekki ég, bæði úr minni sveit og öðrum. Það er því fullkomið ábyrgðar- og skilningsleysi að fara að hefja róg um þetta ákvæði á ný.

Ég vænti þess því, að þeir hv. þm., sem farið hafa af stað í þessu skyni, sjái að sér áður en það er um seinan. Ég reyni að hafa von um það, að hv. þm. Dal. sé á iðrunarleið, því að a. m. k. talar hann mikið um iðrun, en eins og kunnugt er, er það ávallt fyrsta sporið til betrunar, að hugsa um sinn innri mann. Ég vona því, að sú stund komi, að þessi vinur minn sjái að sér.