17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (1981)

80. mál, jarðræktarlög

Thor Thors:

Mér virðist, að þessar umr. séu komnar á allbreiðan grundvöll, þegar hv. 1. þm. Rang. er farinn að tala um vináttu sína og hv. þm. Dal., skilnað þeirra og væntanlega endurfundi.

Þetta mál er þannig til komið, hvað sem hv. 2. þm. Skagf. segir, að grundvöllur þess var lagður af þeirri alkunnu skipulagsnefnd atvinnumála, þeirri n., sem stjórnarflokkarnir buðu þjóðinni upp á eins og allsherjar sáluhjálparatriði út úr kreppunni. Árangurinn af starfi þessarar n., þar sem ýmsir leiðtogar stjórnarflokkanna áttu sæti, hefir nú orðið ein merkileg og stór skýrsla, og annað ekki. Þjóðin átti þó áður nóg af skýrslum um sitt eigið sæluástand, og því engin hjálp, þó að hún fengi eina þar í viðbót. En þetta varð árangurinn af starfi þessara miklu manna, sem tóku að sér að aflétta afleiðingum kreppunnar og útrýma atvinnuleysinu. En í þessari n. er þetta mál fyrst upp tekið. Það kemur beinlínis fram í skýrslu n., að hún hefir haft þetta mál til athugunar og látið gera skýrslur um, hvernig jarðræktarstyrkurinn hefir fallið á landinu. Og til þess að breiða yfir, að sú sósíalistíska stefna, sem réði í þessari n., hafi þarna fengið að njóta sin, eru teknir tveir bændur og látnir ganga frá því frv., sem n. var búin að útbúa. En það er á allra vitorði, að ákvæðið um breyt. á jarðræktarstyrknum er komið inn í l. fyrir atbeina sósíalista.

Hv. 1. þm. Rang. leyfir sér að risa hér upp og belgja sig upp um, að hér sé skrípaleikur á ferðinni. Þegar við leyfum okkur að taka upp eitt af þeim málum, sem hafa nú upp á síðkastið verið helztu ágreiningsmálin í stjórnmálunum, þegar við leyfum okkur beinlínis að taka eitt grundvallaratriðið í stjórnmálabaráttunni á þinginu, þá ætlar þessi maður að rifna af vandlætingu. Veit þessi hv. þm. það þá ekki, að hér er verið að berjast um sósialisma eða ekki sósialisma? Þetta ákvæði er þannig, að eftir 20 ár verður ríkið búið að eignast í jarðeignum bænda um 10 millj. kr. Hér er ástæða til að vera á verði fyrir þá, sem berjast gegn sósialisma. Það eru engin undur, þó að hv. 1. þm. Rang., sem hefir slampazt inn á þing á atkv. sósíalista, sé að verja þetta mál, en hann þarf ekki heldur að vera undrandi, þó að við séum að vernda jarðirnar í eigu bændanna og hindra, að ríkisvaldið sé að leggja fingur sína og klær inn á þetta svið. Maður verður meira undrandi, að þegar fram kemur á þessu þingi, sem búið er að sitja á annan mánuð án þess að hafa gert nokkurn skapaðan hlut annað en að vera sér til skammar, þar sem þingfundir hafa verið fjórðung stundar til hálftíma, af því að þingið er óstarfhæft og ekkert unnið í n., en búið að eyða í þinghald um 200 þús. kr., — að þegar þá kemur fram stórt ágreiningsmál, þá skuli þessi hv. þm. leyfa sér að tala um skrípaleik. Mig furðar á slíkri framkomu hjá þeim manni, sem hefir átt sæti á þingi áður.

Það er eitt atriði,.sem enn er ósvarað. Hverjir voru það, sem höfðu beðið um 17. gr.? Voru það bændur landsins? Jarðræktarstyrkurinn var upphaflega veittur sem verðlaun og í vitund þess, að þegar bændur eru að vinna að jarðabótum, oft fyrir lægra kaup en nokkur önnur stétt, þá eru þeir að vinna að því að gera landið byggilegra fyrir komandi kynslóðir. Þess vegna áleit ríkið rétt að veita þessi verðlaun. Nú má það ekki eiga sér stað, heldur á þetta að vera framlag ríkisvaldsins til þess að tryggja því meiri umráðarétt yfir jörðunum í landinu. Ég ætla að fullyrða, að það voru ekki bændur landsins, sem báðu um þetta. Andstæðingar halda því fram, að bændur hafi viljað viðhalda þessari gr. Þeir geta þó ekki mótmælt því, að við þá atkvgr., sem fram fór, þrátt fyrir það, hvernig hún var undirbúin og með hvaða hætti hún fór fram, þá voru 1558 bændur á móti 17. gr., en aðeins 858, sem voru með þessu ákvæði. Þessu geta þeir ekki mótmælt, og hv. 1. þm. Rang. ætti að athuga það, að í því kjördæmi, sem hann á að heita fulltrúi fyrir, eru 119 bændur á móti 17. gr., en aðeins 63 með henni.

Þá vildi hv. þm. tala um það, að við kosningarnar í sumar hefði vilji bændanna í þessu máli komið í ljós. Ójá, það var kosið um margt annað en 17. gr., þótt vitanlega jafnstórt principmál skipti miklu. En ég vil benda hv. þm. á það, að Sjálfstfl. fékk um 24500 atkv., meðfram vegna harðvítugrar baráttu sinnar gegn þessari gr., og Bændafl., sem einnig barðist gegn þessu ákvæði, fékk um 5 þús. atkv. En þessi flokkur, sem hv. 1. þm. Rang. er fulltrúi fyrir, fékk aðeins 14500 atkv., og er þó vitað, að mikið af því fylgi er lánað frá sósíalistum og kommúnistum. Kosningaúrslitin síðustu kveða því engan ákveðinn dóm upp um 17. gr., nema þá á þann hátt, að bændur hafa ennþá greinilegar en áður sýnt fylgi sitt við sjálfstæðisstefnuna.

Þessir hv. þm. hafa ekki heldur getað komizt hjá því, og ég er viss um, að þeir hafa orðið þess varir á kosningafundum og í viðtali við bændur úr Framsfl., að jafnvel þeim líki ekki þetta ákvæði og þeir óski breyt. á því. En það sýndi sig þó á flokksþingi framsóknarmanna s. l. vetur, að þeir menn utan af landsbyggðinni, sem vildu halda við þeim forna rétti bændanna í þessu efni, fengu ekki notið sín fyrir Reykjavíkurvaldinu og þeim í flokknum, sem helzt eru tengdir sósíalistum.

Það þarf engan að undra, þó að þetta mál sé tekið upp hér á þingi, og hvað sem þessir hv. þm. hafa um þetta að segja, verður þessari baráttu haldið áfram hér. Hér er vissulega ekki um skrípaleik að ræða, heldur er það hreint principmál, eitt af þeim málum, sem ræður því, hvernig menn fylkja sér í flokka. Hvernig sem fer um afdrif þessa frv., þá verður haldið áfram baráttunni um málið, bæði hér á Alþingi og utan þings.