17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (1992)

80. mál, jarðræktarlög

*Sveinbjörn Högnason:

Ég kann ekki við þá aðferð, sem hv. þm. Snæf. hefir, að nota þingsalinn til þess að bera lof á föður sinn. Það hefir hingað til ekki þótt bera vott um mikilmennsku að nota hvert tækifæri til þess að upphefja sjálfan sig. Ég skal ekki deila um, hvort það er heppilegt eða ekki, en ég tel það ósmekklegt, og svo veit ég, að er um fleiri.

Hv. þm. telur mig valdan að því, að jarðabætur hafi farið minnkandi í seinni tíð. Ég veit ekki, hvaða ástæðu hann hefir fyrir því, nema ef það skyldu vera afurðasölulögin, sem ég var nokkuð viðriðinn, en þau hafa gert það að verkum, að bændur fá nú meira verð fyrir afurðir sínar en áður og búskapurinn þar af leiðandi borið sig betur, og ég skil ekki, að það geti orðið til þess, að jarðirnar lækki í verði.

Ég hugsa, að hann sé einn um þann hugsunarhátt, en ég hefi orðið hans var fyrr, þegar rætt hefir verið um afurðasölulögin. Það hefir komið fram áður í sambandi við jarðræktarstyrkinn, að menn eins og hann hugsa aðeins um, að hann verði þeim til hagsbóta, en hugsa aldrei um, að þúsundir manna gætu fengið betri aðstöðu, væri honum breytt. Ég vildi segja hv. þm., að ég býst við, að jarðir hafi lækkað í verði í hans kjördæmi áður en ég fór að skipta mér af þessum málum. Hvað kemur til, að sumar jarðir, sem eru í eigu fjölskyldu hv. þm., standa í eyði? Er það fyrir mitt tilstilli eða þeirra sósíalistísku hugsjóna, sem hann talaði um?

Hv. þm. var að tala um, að það væri vegna umhyggju mínnar fyrir kúnum í Rangárvallasýslu, sem ég hefði verið kosinn á þing. Þetta getur e. t. v. staðizt, það mun vera vegna umhyggju minnar um búskapinn og tilraunir til að hann geti borið sig betur, því ég tel víst, að hv. þm. hafi ekki talið þá kjósendur nautgripaættar, sem undanfarið hafa kosið flokksmenn hans í Rangárvallasýslu.

Ég skal ekki orðlengja um þetta frekar. Það, sem barizt er um í þessu máli, er hin gamla barátta milli sérréttinda og eigin hagsmuna og hags alþjóðar, eins og hv. þm. viðurkennir sjálfur, þar sem hann segir, að búskapurinn t. d. á Korpúlfsstöðum mundi bera sig betur, ef hann nyti þessara sérréttinda, sem ríkið gæti veitt. En þessi barátta um sérréttindin mun aðeins enda á einn veg, þann, að hagur almennings mun bera sigur úr býtum.