17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (1993)

80. mál, jarðræktarlög

Thor Thors:

Mér þykir það einkennileg drengskaparkenning af manni, sem a. m. k. stundum ber hempu, að halda, að hann geti ráðizt hér á föður minn án þess að ég svari því nokkru. Um það ætla ég svo ekki að fara fleiri orðum.

Hv. þm. reyndi að snúa út úr því, sem ég sagði, að það væri vegna aðgerða Framsfl., að jarðirnar hefðu lækkað í verði. Það virðist auðsætt, að það er ekki vegna aðgerða þeirra í einu einstöku máli, eins og afurðasölulögunum, heldur vegna þess, að þeir hafa völdin í landinu og ráða því mestu um afkomu manna til lands og sjávar. Hv. þm. talaði um sérréttindi í þessu sambandi. Ég sé ekki, að það séu nein sérréttindi, að menn fái að halda jörðum sínum og jarðræktarstyrkurinn verði veittur sem verðlaun, því að þeir eru allir jafnir fyrir lögunum, og verða það, hvort sem jarðræktarstyrkurinn heldur áfram að vera verðlaun til þeirra eða kvöð.