15.11.1937
Neðri deild: 27. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (2001)

81. mál, einkaleyfi til bæjarrekstrar

Flm. (Ísleifur Högnason) :

Herra forseti! Eins og vitað er, standa bæjarstjórnarkosningar fyrir dyrum um allt land í byrjun næsta árs, og það er vitað, að ýmsir flokkar munu berjast fyrir því við kosningar að fá einkaleyfi til bæjarrekstrar fyrir bæjarfélögin. Þetta frv. er fram komið í fyrsta lagi af því, að mér þykir sanngjarnt, að þau bæjarfélög, sem hafa lagt mikið í kostnað við að gera hafnir, geti notið þeirra tekna, sem hægt er að hafa af mannvirkjum þessum. Nú er svo komið málum víða, að það eru 1–2 firmu um hverja höfn, sem hafa afgreiðslu skipanna, og hafa þau víðast hvar, ef ekki alstaðar, komið sér saman um sama taxta fyrir upp- og útskipun, svo að það má heita, að þessi fyrirtæki hafi einokunaraðstöðu, og á þennan hátt hafa þau stórgrætt víðast hvar. Þau hafa lagt óhæfilega mikið kapp á út- og uppskipun vara, og er það álit margra, að bæjarfélögunum beri að taka þetta úr höndum einstaklinga og reka það sjálf. Það er nokkuð hliðstætt því, að víða erlendis eru samgöngutækin rekin af bæjarfélögum til ágóða fyrir þau, til þess að afla bæjarfélögum tekna og til þess að hafa samgöngumálin í betra horfi en þegar einstaklingar hafa þau með höndum. Þetta mál mun hafa komið fyrir áður í þinginu, svo að hv. þm. munu hafa myndað sér skoðun um það, og er því ekki þörf á að fjölyrða frekar um það.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir, að þeim bæjarfélögum, sem þess óska, verði leyft að taka að sér einkaleyfi til sölu á kolum eða öðrum nauðs3wjavörum, enda hefir reynslan sýnt það, að á ýmsum stöðum hafa verzlanir, sem með þessar vörur verzla, t. d. kol, ekki haft vörurnar til og ekki getað fullnægt þörf viðskiptamannanna. Ég vil sérstaklega benda á dæmi úr Vestmannaeyjum. Tvö undanfarin ár hefir þar verið um alllangt tímabil hörgull á þessari nauðsynjavöru, svo að það hefir orðið að flytja hana frá Reykjavík, en við það hefir varan orðið miklu dýrari en vera þyrfti. Það er óhæfilegt, að slíkt skuli koma fyrir, og ef helmild væri í landslögum fyrir því, að bæjarfélög gætu tekið þetta að sér, þá ætti það a. m. k. að vera aðhald fyrir þá, sem með þessa vöru verzla, að hafa hana á boðstólum, til þess að það valdi ekki skaða þeim, sem vöruna þurfa að nota.

Ég fjölyrði svo ekki meira um þetta frv., en óska, að því verði vísað til 2. umr. og allshn. að þessari umr. lokinni.