17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (2019)

93. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Frv. þetta er ekki efnismikið, en það fer fram á að veita til bráðabirgða undanþágu, þannig, að styrkurinn til endurbyggingar á sveitabýlum verði ekki einskorðaður við jarðir, sem eru í sjálfsábúð, eða jarðir, sem heimilt er að byggja í erfðaábúð, með tilliti til þess, að l. nr. 87 frá 1933 koma ekki til framkvæmda, að því er þetta snertir, fyrr en á miðju næsta ári. En um þennan styrk hafa þegar sótt margir leiguliðar, sem bjuggust við að geta fengið hann samkv. l. frá síðasta þingi. Ég tel mjög sanngjarnt að veita þessa undanþágu nú í þetta eina sinn, þannig að stj. fái heimild til að veita þessum mönnum nokkurt lán til endurbyggingar húsa á jörðum, þar sem þeir búa. Ég hefi bætt því við í frv., að ríkissjóður eigi kröfu til fullrar endurgreiðslu á sinum hluta stofnkostnaðar byggingarinnar.

Ég vænti þess, að Alþingi líti með sanngirni á þetta mál, því að verði þessi undanþága ekki veitt, geta nokkrir menn orðið allhart úti. Óska ég, að frv. verði vísað til landbn. og 2. umr.