29.10.1937
Efri deild: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

3. mál, kosningar til Alþingis

*Magnús Jónsson:

Það er vitanlegt, að ef frambjóðandi deyr eftir að framboðsfrestur er liðinn, þá verður ekki komizt hjá erfiðleikum út af því á nokkurn hátt. Það er undantekningartilfelli, sem löggjafarnir verða að setja einhverjar reglur um, en það þarf enginn að halda, að þetta sé hægt að gera svo, að enginn verði fyrir misrétti á neinn hátt.

Mér sýnist, að það geti varla verið um fleiri en fjóra möguleika að ræða. Sá möguleiki, sem er í kosningalögunum, er að ganga fram hjá því að sjá fyrir þessu, og lendir það á þeim flokki, sem er svo óheppinn að verða fyrir því, að frambjóðandi hans falli frá. Það eru þeir tveir möguleikar, að ónýta atkv., eins og bráðabirgðalögin gera ráð fyrir, og yfirfæra atkv. á hinn nýja frambjóðanda og láta þau fylgja flokknum, eins og allshn., hefir stungið upp á. Og svo er loks fjórða leiðin, sem forsrh. minntist á, og það er að aflýsa kosningunni og auglýsa hana síðar.

Allir þessir möguleikar hafa stóra ókosti. Ókostir fyrstu aðferðarinnar komu svo glögglega í ljós, þegar þetta tilfelli kom fyrir við síðustu kosningar, að stj. sá sér ekki annað fært en gefa út bráðabirgðalög um þetta. Og n. hefir ekki stungið upp á að fella þau alveg úr gildi, og þess vegna ekki fallizt á þann möguleika, sem fellst í kosningalögunum. Hvað því viðvíkur að fresta kosningu, þá hygg ég, að á því séu svo miklir og ófyrirsjáanlegir örðugleikar, að tæplega geti komið til mála, að horfið verði að því, þótt það væri að ýmsu leyti sanngjarnt. Í raun og veru er því hér aðeins um tvær leiðir að velja, og forsrh. og frsm. n. hafa dregið fram ókosti þessara beggja leiða, því að þær hafa báðar sína ókosti. En ég verð að segja, að mér finnst sú leið, sem allshn. hefir stungið upp á, eðlilegri. Það er naumast hægt að ganga öllu greipilegar á rétt kjósendanna, sem þeir hafa fullan og óskoraðan í kosningalögunum, en með því að ónýta öll þau atkv., sem greidd hafa verið fyrirfram. Báðar þessar leiðir fela í sér, að hér eftir verður viss áhætta því samfara að greiða atkv. utan kjörstaðar. Eftir annari leiðinni geta menn átt á hættu, að atkv. verði ónýtt, og eftir hinni, að það verði yfirfært á annan en þann, sem kjósandinn hafði í huga, þegar hann kaus.

Ég vil segja, að ég mundi sem kjósandi heldur vilja, að mitt atkv., a. m. k. í flestum tilfellum, yrði yfirfært á hinn nýja frambjóðanda. Mér finnst þetta mál horfa allt öðruvísi við eftir að hin nýju kosningalög komu, þar sem flokksvaldið er gert svo mikið, að það er beinlínis gengið út frá því, að kosið sé um flokka, en ekki menn. Frambjóðandinn verður beinlínis að tilgreina, hvaða flokki hann fylgir, og ef hann fylgir engum flokki, þá flokksleysi, sem hann verður einnig að tilgreina. Með þessu er beinlínis gefið undir fótinn með það, að það er flokkavaldið, sem ræður, og það er staðreynd, sem ekki þýðir í móti að mæla, að það er fyrst og fremst kosið um flokk, en ekki menn.

Ég vil benda á eitt tilfelli, sem mér sýnist einmitt hliðstætt við það, sem n. hefir stungið upp á. Það eru hlutfallskosningarnar. Þær kosningar eru að töluvert miklu leyti bundnar við flokka, og menn geta tiltölulega litlu ráðið um það, hverjir komast að, þótt þeir hafi rétt til að strika út og færa til nöfn á listanum. (JBald: Flokkurinn fær atkv. samt). Já, flokkurinn fær atkv., og það er einmitt það, sem n. vill innleiða hér, að flokkurinn fái atkv., en að það sé ekki tekið og ónýtt, þótt skipta verði um frambjóðanda. Mér finnst það að ýmsu leyti talsvert skylt hlutfallskosningunum og algerlega í anda kosningalaganna eins og þau eru nú, öll byggð upp á flokksvaldinu í landinu. Hitt aftur á móti, að ógilda greidd atkv., fannst mér svo hart að gengið, að það væri mikið spursmál, hvort það væri hægt, því með stjskr. er mönnum tryggður kosningarréttur, eftir nánari ákvæðum kosningalaganna.