03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (2036)

114. mál, Háskóli Íslands

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég get ekki mælt með því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ. Hinsvegar skal ég ekki mæla því í gegn, að það gangi til n., og þá að sjálfsögðu menntmn.

Ég tel, að ýms ákvæði í frv. séu varhugaverð og litt hugsuð. Mér skilst, að eftir frv. geti háskólinn eða einhver deild innan hans, með samþykki háskólaráðs, kallað menn til að kenna við skólann án samþykkis yfirboðara hans, og á sama hátt geti kennslumálaráðh., ef hann fær samþykki hlutaðeigandi deildar, einnig kallað menn til kennslu við skólann.

Í frv. er ekki gerð grein fyrir því, hver eigi að greiða laun þessara manna, en ætlun mín er sú, að ríkinu sé ætlað að greiða þau. Ef svo er, þá er ljóst, að fjárveitingavaldið er að verulegu leyti tekið úr höndum Alþingis, nái þetta fram að ganga.

Ennfremur er gert ráð fyrir, að til þess að hafa slíkan kennslurétt, þurfi hlutaðeigandi ekki annað en hafa haldið uppi kennslu í þessari fræðigrein um þriggja mánaða tíma. Þetta má skilja svo, að ekkí sé nauðsynlegt, að sú kennsla hafi farið fram í háskólanum. Ekki er heldur neitt skilyrði sett um það, að menn hafi ákveðin próf, að öðru leyti en því, að þeir þurfi að vera háskólagengnir. Bendi ég á þetta til að sýna, að full ástæða er til að athuga þetta frv.

Ég get verið sammála hv. flm. um það, að brýn þörf sé á því að endurskoða ákvæði l. um reglugerð háskólans. Hefi ég sjálfur víkið allmjög að þessu. Í niðurlagi þeirrar skýrslu, sem kennslumálaráðuneytið gaf út í tilefni af veitingu í dósentsembætti guðfræðideildar, er kveðið svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er því orðið enn ljósara en áður, að fullkomið óvit er að leggja óskorað veitingarvald í hendur háskóladeildanna, eins og þær hafa krafizt að hafa í framkvæmdinni. Og þar sem það er einnig vitanlega ofrausn — og ætti að vera meiri ofrausn — að treysta pólitískum ráðherrum, sem með kennslumál fara, til þess að geta staðið á verði um það í hvert sinn, sem embætti er veitt við háskólann, að háskólinn gerist ekki sjálfsniðingur í þessum efnum, verður ekki hjá því komizt að endurskoða rækilega þær reglur, sem nú gilda um þetta, og setja aðrar nýjar, betri og tryggilegri, er bindi hendur háskólans og veitingarvaldsins sem allra fastast við það eitt að velja jafnan hina hæfustu menn, sem í hvert skipti er völ á, til kennslustarfa við þessa æðstu menntastofnun landsins, henni til vegs og þjóðinni til gengis. Mun háskólinn bráðlega fá nánar um þetta að heyra frá ráðherranum“.

Í framhaldi af þessari skýrslu var svo háskólaráði skrifað frá kennslumálaráðuneytinu 20. nóv. síðastl., þar sem ráðuneytið beindi því til háskólaráðs, að það tæki reglugerð skólans til rækilegrar endurskoðunar, einkanlega með tilliti til kennaraskipunar við háskólann, sbr. einnig hina opinberu skýrslu ráðuneytisins.

Í bréfinu segir ennfremur: „Það er eindreginn vilji ráðuneytisins, að sem allra tryggilegast sé búið um það með skýrum ákvæðum í reglugerðinni, að kennaraembætti við háskólann verði jafnan veitt hinum hæfustu lærdómsmönnum, sem í hvert sinn er völ á, og að þar með verði tekið sem rækilegast fyrir það vansæmandi framferði, sem svo mjög hefir verið tíðkað við val kennara að háskólanum undanfarið og hámarki náði með hinu síðasta samkeppnisprófi og úrslitum þess frá hendi guðfræðideildarinnar “.

Þá er í bréfinu bent á ýms atriði, sem ráðuneytið telur, að æskilegt væri að hafa í huga við væntanlega endurskoðun reglugerðarinnar í þessum atriðum. Og að lokum segir svo í bréfinu:

„Að svo miklu leyti sem ákvæði á borð við þetta, og þá sérstaklega takmarkanir þær á rétti veitingarvaldsins, sem hér er stungið upp á, kunna að ganga lengra en stoð eigi í háskólalögunum, er ráðuneytið við því búið að leggja til við Alþingi, að l. verði breytt að því leyti“.

Þetta bréf er ritað háskólaráði 20. nóv., og hefir ekki enn borizt svar við því.

Ég get fagnað því, að fleiri en kennslumálaráðuneytið eru þeirrar skoðunar, að þörf sé á að endurskoða gildandi ákvæði í l. um reglugerð háskólans. Og ég vil taka undir það með hv. 1. flm., að um leið og sú endurskoðun er tekin fyrir, þá séu ákvæðin um aukakennara og kennsluréttindi þeirra jafnframt endurskoðuð. Um það hygg ég, að ekki séu önnur ákvæði gildandi en 55. gr. reglugerðar háskólans frá 1912. Þar segir svo:

„Hver sá, sem hlotið hefir doktorsnafnbót, hefir rétt til að halda fyrirlestra í vísindagrein sinni, en tilkynni það háskólaráðinu. Háskólaráð getur veitt öðrum en doktorum samskonar leyfi“.

Hér er sýnilega átt við það eitt, að menn séu kallaðir til fyrirlestrahalds í ákveðinni sérgrein, en ekki að þeir haldi uppi reglulegri kennslu. Það sýnist mér aftur á móti vaka fyrir hv. flm. þessa frv., og get ég sem sagt á það fallizt, að þau atriði séu tekin til athugunar.

Þó að hv. flm., og ég að nokkru leyti, hafi aðallega talað um þessa hlið málsins, eins og frv. bendir til, þá er þó ekki þess að dyljast, að aðaltilefni frv. mun nú, eins og kom fram í ræðu hv. flm., vera nokkuð annað, sem sé það, að það er flutt vegna óska um það, að fyrrv. dósent, séra Björn Magnússon, þurfi ekki fyrirvaralaust að hverfa frá kennslustörfum við háskólann, sennilega bæði með tilliti til hans og einhverra nemenda deildarinnar.

Ég skal játa, að séra Birni Magnússyni er nokkur vorkunn, þótt hann hafi ekki búizt við þeim úrslitum, sem urðu í þessum málum, ef eingöngu er litið til úrskurðar dómnefndarinnar og till. guðfræðideildar; en ég vil mótmæla því eindregið, að hér sé hægt að geta veitingarvaldinu nokkra sök á. Ég hefi jafnan látið ákveðið í ljós við séra Björn að ákvörðun um skipun í dósentsembættið yrði ekki tekin, fyrr en fyrir lægi álit þess sérfræðings, sem leitað var umsagnar hjá. Þar sem mér er hinsvegar kunnugt um, að séra Björn Magnússon telur sér mjög óhagfellt á ýmsan hátt að verða fyrirvaralaust að láta af störfum, og nokkrir nemendur hafa óskað eftir því, að þurfa ekki að skipta um kennara á þessu skólaári tel ég fyrir mitt leyti, að rétt sé að taka nokkurt tillit til þessarar sérstöku aðstöðu séra Björns Magnússonar og óska nemendanna. Ég get því fyrir mitt leyti fallizt á, et Alþingi veitir fé til þess á fjárl., að ráða séra Björn Magnússon til loka þessa háskólaárs, til þess að halda uppi kennslu við deildina fyrir þá nemendur, sem þess óska nú í vetur, og sjá um, að hann fái aðstöðu til þess að útskrifa þá af þeim, sem kandidatspróf taka á þessu tímabili í kennslugreinum hans.

Ég sé svo ekki ástæðu að svo stöddu til þess að hafa um þetta fleiri orð, en eins og ég hefi sagt áður, geri ég ráð fyrir, að frv. fari til n., og væntanlega til menntmn., og sennilega verður að gera ráð fyrir, að málið komi aftur fyrir í hv. d. Ég mun þá — ég get ekki annað en borið þá ósk fram strax — óska eftir, að útvarpsumr. verði hafðar um málið. Ég veit, að þetta mál hefir vakið töluverða athygli úti um land; það hefir mjög verið um það rætt og ritað, og þó að bæjarbúar eigi að sjálfsögðu nokkurn kost á að fylgjast með í þessum umr., þá hefir þorri landsmanna ekki átt þess kost vegna lélegra samgangna, og tel ég því rétt, að 2. umr. verði útvarpsumr., og ber ég það undir hæstv. forseta.