03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (2037)

114. mál, Háskóli Íslands

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það má kannske á þessu stigi málsins láta sér nægja fá orð um þetta frv. á þskj. 181, ef svo verður, sem nú eru líkur til, að þetta mál verði fullt svo mikið rætt við 2. umr., þar sem óskað er eftir útvarpsumr. um það. Þó verður ekki hjá því komizt að geta um nokkur atriði í sambandi við þetta mál. Frv. það, sem verið er að ræða um, sem sé frv. til l. um breyt. á háskólal., gengur einfaldlega út á það, eins og kunnugt er, að hægt sé með eða án samþykkis kennslumálaráðh. að kalla sérstakan kennara til kennslu í háskólanum með fullum réttindum, sem sé kennara eða dósent til þess að prófa til embættisprófs í einhverri deild. Þetta frv. er því nokkuð almennt, og eru rök færð fyrir því, að það sé hentugra, að þessu fyrirkomulagi verði komið á, að fleiri geti orðið kennarar við háskólann en þeir, sem fastir eru. Það er líka kunnugt, að tilefnið til þessarar lagasetningar er ekki það, að fram hafi komið sérstakar óskir um að fjölga almennt kennurum við háskólann. Tilefni frv., sem litið kom fram hjá hv. aðalflm., 1. þm. Rang., er það, að flokkar hér á þinginu, væntanlega meiri hl. þingsins, vilja að gefnu tilefni löggilda séra Björn Magnússon, sem var settur dósent um hríð, til þess að halda því embætti. Það má segja, að það hefði verið beinasta leið, þar sem þessi vilji var fyrir hendi, að flyt ja frv. um það og láta sér í léttu rúmi liggja, hvort fjölgað yrði kennurum ella við háskólann, en hv. flm. og Framsfl., sem er samstarfsfl. Alþfl., og Alþfl. á kennslumrh., svo sem kunnugt er, hafa talið heppilegra fyrir sig að orða frv. á þennan veg. Sjálfstfl., sem hefir tekið þann þátt í þessu máli, að hann hefir vítt undir öllum kringumstæðum framkomu og ákvarðanir hæstv. kennslumrh. í þessu efni, og vildi að öðru leyti gera þá bót á þessu, sem kleift væri, hefði viljað vera með í því að bera fram frv. með þeim ákveðna skilningi, sem ég gat um, en hefir ekki séð ástæðu til þess að hlaupa í kapp við Framsfl. um það, hvernig þessum tilgangi skuli náð, þar sem menn eru sammála í þessum flokkum báðum um aðalatriði málsins eða niðurstöðu, og hún er sú, að það verði gert kleift, að séra Björn Magnússon verði kennari við guðfræðideild fremur en sá kennari, sem hæstv. kennslumrh. þóknaðist að skipa þar. Því að þótt svo sé að vísu, að sá kennari verði ekki af settur, eins og sakir standa, þá er hitt gefið mál, að hin megna óánægja allra hlutaðeigenda yfir þessu tiltæki gerir það að verkum, að nauðsyn er á því vegna háskólans, vegna guðfræðideildarinnar og vegna nemendanna, að annar annist kennsluna en þessi skipaði kennari að meira eða minna leyti. Hv. aðalflm. fór, eins og heyra mátti, mjög létt yfir málið, og skal ég ekki lasta það, eins og ástæðurnar eru fyrir hendi hjá honum og hans flokki, en hinsvegar hefði að lýtalausu mátt koma meira inn á það, hvernig á þessu stæði, því að satt að segja er óvanalegt að þurfa að grípa til þess ráðs að skipa nýjan kennara við æðstu menntastofnun landsins, þar sem nægil. kennslulið er fyrir, og auka með því byrðar hins opinbera. Það hlaut að vera eitthvert mikið tilefni og brýnt erindi, sem menn áttu á Alþingi til þess að koma fram þessari breyt. á gildandi ákvæði um háskólann, og þetta tilefni er vitanlega það, að hæstv. kennslumrh., öllum á óvart nema ef til vill sjálfum sér og þeim, sem varð fyrir valinu í kennarastöðuna, skyldi leyfa sér að ganga þannig á rétt háskólans og upp á sitt eindæmi að skipa í embættið mann, sem hafði fallið við löglegt samkeppnispróf í þessu efni, sem keppendur um embættið voru látnir inna af hendi. Og þá komum við að því, hvort þetta próf var nokkurt próf. — Það virðist sem sé svo, að hæstv. kennslumrh. hafi í öndverðu ekki verið þetta geðfellt, en hafi gert þetta af því að hann hafi verið til þess talinn, því að hæstv. ráðh. er að sjálfsögðu mjög ófróður um þessi efni, og einhvernveginn er það svo, að þetta mál hefir verið sótt af harðskeyttu kappi, að una ekki við það, sem búið var að ákveða. En samkeppnin fór fram samkv.

9. gr. háskólareglugerðarinnar frá 1912, sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta.

„Áður en kennari er skipaður eða settur við háskólann, skal ávallt leita umsagnar háskóladeildar um kennaraefnið, enda sé háskóladeild heimilt að gefa umsækjendum kost á að ganga undir samkeppnispróf, og getur deildin, ef henni sýnist, kvatt sérstaka fræðimenn, innan lands eða utan, til aðstoðar við prófið“.

Það er sem sé ætlazt til, að þessi raun verði til þess, ef ég mætti svo segja, að skapa kennaraefni, og það virðist alger þungamiðja í undirbúningnum undir það, hver eigi að verða kennari, svo fremi sem þessi leið er farin. Það er ekki hægt að komast hjá því, að í fyrsta lagi er ætlazt til þess í reglugerðinni, að háskólinn sé sem mest einráður um sín fræðiefni alstaðar þar, sem við megi hlíta, þar sem ekki er fyrirfram um að ræða skipulag, sem í raun og veru kemur ekki við hinu daglega og ef til vill ekki hinu árlega, sem fram fer í háskólanum, en um kennsluna sjálfa hefir háskólinn einræði, og eftir reglugerðinni að miklu leyti fullræði um kennaraval, þó að veitingarvaldið sé formlega hjá konungi, þegar um prófessora er að ræða, en hjá ráðh., þegar um dósenta er að ræða. Nú getur það að skilja, enda kemur það heim við það, sem annarsstaðar hefir verið gert við háskóla í þessu efni, um val kennara, að þungamiðjan er ekki sízt í því, sem mætti kalla próf innan háskólans, um það, hver fær kennaraembættið. Og það mun verða álitið rétt, að ráðh. bindi sig við það alltaf, nema í sérstökum undantekningartilfeilum. Þetta fullyrði ég, að sé rétt, bæði samkv. því, sem háskólar eiga við að búa víðast annarsstaðar, og samkv. því, sem ætlazt er til í reglugerð þessa háskóla, að einnig gildi. Spurningin er því, hvort hér sé um slíkt undantekningartilfelli að ræða, að veitingarvaldið, hæstv. kennslumrh., hefir séð sig neyddan til, lands og þjóðar vegna, að grípa þannig fram i, að taka aðalráðin af háskólanum og fara allt öðru fram. Nú er það kunnugt, að þetta samkeppnispróf, sem er sú ýtrasta raun, sem ætlazt er til, að nokkur háskóli hafi til þess að gera rökstudda till. í þessu efni, sem við megi hlíta, fór fram eftir reglum, sem gefnar eru um þessi mál í háskólareglugerð. Þar er sagt, eins og ég las upp, að háskóladeild — í þessu tilfelli guðfræðideild —, sem lætur fara fram samkeppnispróf, sé einbær um að framkvæma prófið. En það stendur, að deildin geti, ef henni sýnist, kvatt sérstakan fræðimann utan sinna vébanda, innanlands eða utan, til aðstoðar við prófið. Eins og kunnugt er, var þessi dómnefnd skipuð, auk prófessora deildarinnar, biskupi landsins og þjónandi presti, fríkirkjuprestinum í Reykjavík, og einnig erlendum fræðimanni, sem til þess tékk meðmæli sinna embættisbræðra við háskólann í Kaupmannahöfn. Þetta var próf. Mosbech frá Khöfn. Hér er svo um hnútana búið, að enginn vafi er á því, að þetta fór allt löglega fram, og hinsvegar getur enginn nema óhlutvandur maður, sem ég vil ekki ætla, að hæstv. ráðh. vilji setja sig á bekk með, haldið því fram, að þessi prófnefnd hafi ekki verið að öllu leyti fær um að taka þetta mál til meðferðar. Hitt er út í hött, og sæmir aðeins þeim, sem komnir eru út í vandræði, að tala um slíkt, að það sé eitthvað fyrirfram gefið, að vissir fræðimenn við háskólann hljóti að vera hlutdrægir, ef ekki pólitískt, þá persónulega. Það tek ég að svo stöddu ekki hátíðlega, því að það er of galgopalegt og strákslegt til þess að færa það inn í umr., nema sérstakt tilefni gefist til þess. En ég fullyrði, að þessir fræðimenn og kennarar, sem þarna voru að verki, voru að öllu leyti hærir til þess að framkvæma þetta próf. Nú var, eins og við öll próf. gætt allra varúðarreglna, sem um var að ræða, ekki síður en stafrófsreglunnar a, b, e, sem hæstv. ráðh. þykist hafa látið gæta mjög vel, þegar hann fór að framkvæma þetta skoplega „yfirmat“, er hann nefnir svo. Svo að það er víst, að hér er ekki til að dreifa neinni undirferli, enda býst ég við, að enginn trúi því, að þó að hér séu innanlandserjur um menn og málefni, sem raunar kom ekki þessu etni við, þá þyrfti það að hafa nokkur áhrif á dóm manns, sem kvaddur er frá Khöfn og er gersamlega fyrir utan slíkt, og þó að vitnað sé í ummæli hans eftir á um það, hvað hann hafi heyrt hér uppi og hvernig um þetta var talað manna á meðal, þá áhrærir það ekkert hans dóm, því að hann hafði sinn dóm fullbúinn eftir að hafa lesið og rannsakað gögnin áður en hann kom hingað til lands, og hafði ákveðið hverja stefnu hann skyldi taka, nema að því leyti sem dómur hans gat breytzt af frammistöðu keppendanna við hinn munnlega erindaflutning. Það er vitanlega á misskilningi byggt, að menn taka ekki mark á, þó að blöð skeyti skapi sinu, eða að sjálfur maðurinn, sem undir varð í keppninni, eða þeir, sem vilja styðja hann, halda áfram að skamma þessa dómnefndarmenn og hinn útlenda fræðimann, sem hingað kom til þess að fremja þetta verk. Það er kunnugt, að það varð ekki nema einn keppandinn, sem þessi dómnefnd ákvað, að væri ekki aðeins sá bezti, heldur einnig talinn vera eftir öllum gögnum sá eini af umsækjendum, sem fær væri um að taka að sér þetta embætti frá fræðilegu sjónarmiði. Nú getur það verið, eins og oft er um menn, að þó að þeir standi sig vel við próf í eitt eða annað skipti, þá geta aðrir tekið sæmilegt próf líka, ef ekki þá, þá jafnvel í annað sinn. Það er engin svívirðing um menn, sem taka próf, þó að þeir séu lægri en aðrir, og þeir geta verið góðir fyrir sinn hatt fyrir því. En nú var það svo, að einn umsækjandinn, séra Sigurður Einarsson, var talinn langlakastur. Þess vegna er það eins og út í hött, og ég vil leyfa mér að segja, að sá, sem bæri það fram, kæmi eins og álfur út úr hól, sem ég vil ekki ætla um mann eins og hæstv. kennslumrh., að tala um, að hann hafi þá þegar ekki áttað sig á þessu, og að hann hafi haft grun um þetta eða hitt, og að hann hafi ekki mátt samvizkunnar eða þjóðarinnar vegna veita embættið fyrr en allt annað kom upp á teningnum. Það var sem sé að öllum líkindum upphaflega meiningin að fá allt annað upp á teningnum, því að ef það hefir ekki verið tilgangurinn, þá var ekki til neins að fara út í þetta. Hæstv. ráðh. ætlaði sér að fá breyt. á þessu undir öllum kringumstæðum. Frá almennu sjónarmiði er þetta fávizka, að maður komist ekki enn harðar að orði. Þegar samkeppnisprófinu er lokið, ekki aðeins með vali dómnefndarinnar, heldur og að úrslitin eru kunn, þá var í raun og veru ekki um það að tala að breyta þessu. Hitt hefði náttúrlega verið umtalsvert fyrir þá, sem óánægðir voru: Ef ég færi út í þetta aftur, þá get ég staðið mig betur. En það var bara ekki um það að ræða að fara út í þetta aftur. En nú vill hæstv. kennslumrh. ekki sætta sig við þessa niðurstöðu. Og ég fullyrði. að hann hefir verið fyrirfram ákveðinn, eftir einhverra tilstuðlan væntanlega, að una ekki við matið, ef það gengi á móti honum og hans manni, sem hann hafði einsett sér að koma á framfæri í þessari grein, enda kemur það heim við það, sem haft var eftir dósentinum nýskipaða, áður en hann varð það og áður en hann gekk undir prófið, — að sér hefði verið lofað embættinu, enda yrði ekki við annað unað en að hann yrði hæstur. Með þessum aðgerðum má því telja, að hæstv. ráðh. hafi farið út fyrir það svið, sem honum eftir öllum rökum bar að halda sér á í sambandi við veitingu þessa embættis. Og það er ekki nóg með það, að hann vefengi þetta og vilji ekki sætta sig við það, heldur fer hann alveg einstaka leið til þess að komast að annari niðurstöðu. Það er upplýst mál, að tilgangurinn var ekki að fá það, sem hann vill kalla rétta niðurstöðu, því að niðurstaðan var eftir þeim gögnum, sem fyrir lágu, rétt ákveðin. Hann vildi aðra niðurstöðu, og um alla aðferðina í sambandi við það gefur hæstv. ráðh. út skýrslu, sem er svo glannalega og ósvífnislega skrifuð, að það eru ekki dæmi til þess, að slíkt hafi verið gefið út af stjórnarvöldum landa og kostnaður við það tekinn í heimildarleysi af almannafé. Og svo þegar farið er að skrifa um þetta, þá er forðazt að tala um skýrslu kennslumrh., heldur skýrslu ráðuneytisins. Það er gaman að sjá einn ráðh. standa hér upp og kannast við þessa skýrslu, því að það verður ekki alstaðar séð, hvort átt er við allt ráðuneytið eða kennslumálaráðuneytið. En ég vil skjóta því inn i, að það skýtur nokkuð skökku við, því að ef um það er að ræða að hrósa sér af einhverju, eins og þessi hæstv. ráðh. svo oft gerir, þá er ekki sagt, að ráðuneytið hafi gert það, heldur ráðh., kennslumrh., atvmrh., en nú er það ráðuneytið. En eftir þessari skýrslu kemur það í ljós, að þessi leið hæstv. ráðh. er óvanaleg, eins og undirstaðan var einstæð. Hann segir þannig, að hann hafi fengið pólitískan flokksbróður sinn hér heima til þess að fá pólitískan flokksbróður úti í Svíþjóð til þess að ná í mann, sem vildi vinna þetta verk. Nú vil ég ekki segja, að það hafi komið hæstv. ráðh. á óvart, að það heppnaðist, en það kom öðrum á óvart, og það virðist svo, að jafnvel hæstv. ráðh. hafi komið það líka að óvörum, þó að hann hafi verið rekinn út í þetta, því að ettir sömu skýrslu hæstv. ráðh. að dæma, þykist hann hafa búizt við því, að ekki yrði farið, þrátt fyrir allar krókaleiðir, að breyta þessum dómi, sem var löglega upp kveðinn hér heima. Nú býst ég við, að þegar verið er að dæma um þessa dómnefnd, sem eftir réttri reglu gerði sínar sakir eins og vera bar, þá þyki það einkennileg leið til þess að fá „yfirmat“, að fara þennan upplýsta pólitíska gang, því að við vitum, að framkoma hæstv. ráðh. í þessu máll er blábert pólitísk. Hér heima var þess ekki vart, og raunar ekki heldur í blöðum eftir samkeppnisprófið, að menn gerðu þetta að pólitík. Menn undu að sjálfsögðu við þetta, og það var ekki sérlega mikið um þetta að segja, vegna þess að það var ekkert ómenni, sem hafði orðið fyrir valinu, þegar blátt áfram á það er litið. Til þess að fella úr gildi löglegan og rökstuddan dóm, sem að vísu var framkvæmdur hér heima, en þó með aðstoð erlends fræðimanns, þá var farin sem sé þessi pólitíska leið. Hún er svo óvanaleg og grunsamleg, að það er ekki hægt að bera hana saman við hina leiðina, sem farin var. Það er því þannig ekki hægt að taka þetta „yfirmat“ gilt, ekki einungis í rauninni, þótt menn væru allir af vilja gerðir, vegna þess, að dómurinn hér heima var fallinn, og þó að hægt sé að fá mann til þess að segja annað um ritgerð og ræður en hér, þá haggar það ekki niðurstöðu dómsins; en þegar þessi óbeina leið er farin, þá gefur það svo mikinn grun, að það verður að fordæma slíka aðferð.

Það er kunnugt, að þessi hæstv. ráðh. hefir gert sér dælt við háskólann, og skal ég ekki fara mikið út í það, en það hefir þó komið fram, að hann er ekki sérlegur vinur háskólans, þó að hann vilji láta líta svo út, að hann sé einskonar vörður réttar hans, líklega út á og inn á við, því að hann hefir verið staddur líka í háskólanum og viljað taka þátt í ýmsu, sem þar hefir farið fram, en hans aðgerðir eru ekki sérlega vinveittar skólanum.

Hann þykist vilja bæta háskólann og auka veg hans og gengi, en allt, sem hann hefir gert og gerir, er til svívirðingar háskólanum, sem á að hafa sem mest ítök um sín mál sjálfur, því að það er áreiðanlegt, að háskólinn, með því liði, sem á hverjum tíma í hann velst, er betur fær um að skera úr sínum eigin fræðilegu málum, málum um val kennara og því um líkt, heldur en pólitísk stjórn getur gert. Og það er leiðinlegt, þegar svo tekst til, að kennslumálaráðh. leggst á æðstu menntastofnun þjóðarinnar, og ég fullyrði, að háskólinn sé af þeim stofnunum, sem undir hann heyra, æðsta stofnun þjóðarinnar, vegna þess að það er ekki eingöngu inn á við, sem það gerir illt, heldur líka út á við, þegar um það spyrst, hvernig farið hefir um þetta mál, og við Íslendingar megum ekki við því, að stj. á þeim sviðum, sem hún hefir með höndum, geri sitt til þess að rýra veg lands og þjóðar, sem hún ætti að auka.

Við, sem styðjum þetta frv., a. m. k. við sjálfstæðismenn, viljum ekki láta svo til ganga, að stj. svívirði æðstu menntastofnun landsins, og viljum gera allt, sem í okkar valdi stendur, til að firra þessa stofnun og aðrar íslenzkar stofnanir íhlutun stj. í þeim málum, sem við teljum, að bezt séu komin hjá stofnununum sjálfum. Það hefir verið borið .fram á móti þessari stofnun, jafnvel nú á síðustu tímum, að hún sé ekki alfullkomin, en það er það, sem nið frá upphafi höfum vitað. En hver hneykslast á því, þó að ein stofnun í litlu landi sé ekki alfullkomin, og hvar eru þær stofnanir, sem eru það? Ég veit ekki betur en að allar stofnanir, sem menn hafa með að gera, séu meira og minna ófullkomnar, en þetta er okkar æðsta stofnun, hún hefir verið grundvölluð á l. og reglum, og þeim reglum fylgt, þegar þurft hefir á því að halda, svo að ekkert er um að sakast. Ekki getur það heldur náð nokkurri átt að ætla að gera háskólann ábyrgan fyrir öllu því, eða að yfirleitt eigi að telja honum til gildis eða ógildis ýmsa, sem við hann hafa verið riðnir, eða yfirleitt það, ef ætti að kenna háskólanum um, að margir þeir eða fáir þeir, en alltaf einhverjir þeir, sem háskólinn útskrifar, reynast miklu miður en skyldi. Háskólinn gæti í slíku tilfelli, þó að hann sé skipaður mannvali, sem allir viðurkenna, enga ábyrgð borið á slíku, og það gerir enginn skóli. En að kennslumálaráðh. sé að gera ráðstafanir til að koma þessari æðstu menntastofnun þjóðarinnar niður í skömm, það má ekki eiga sér stað.

Eins og ég hefi áður sagt, þá vil ég ekki kveða upp dóm um hæfni þess manns, sem nú hefir verið skipaður í það embætti, sem hér um ræðir. Það liggur mér fjarri. En það er búið að fella þann dóm, og það var gert á löglegum vettvangi.

En svo er önnur hlið málsins, og hún er sú, að fjöldi fólks á þessu landi, og stofnanir þær, sem hér koma nærri, vilja ekki þola, að aðrir séu skipaðir í slík embætti en þeir, sem að fullu má treysta til að leysa sín störf af hendi vel og samvizkusamlega. Nú er hér um að ræða viðkvæmt mál, þar sem um kennara við guðfræðideildina er að ræða. Þessi kennari á ekki aðeins að vera fræðimaður, heldur er það líka hlutverk hans sem embættismanns að kenna prestsefnum landsins, búa þá undir kennimennsku í þjóðkirkjunni, sem enn er haldið uppi af ríkinu og heitir „Hin evangeliska lúterska þjóðkirkja.“ Nú má um það deila, hvort menn vilji hafa þessa þjóðkirkju eða enga þjóðkirkju, — í raun og veru er ég fríkirkjumaður. — En ríkið heldur uppi þessari kirkju og verður að sjá um, að þeir menn, sem kenna prestsefnunum, séu færir um að undirbúa þá til að vera boðendur orðsins, að þeir kenni þeim þannig, að treysta megi þeim til að boða það, sem er í samræmi við þetta málefni. Nú hefir verið vefengt og ekki farið dult með, að þeim dósent, sem nú varð fyrir vali hæstv. ráðh., muni ekki vera sem bezt treystandi að þessu leyti. Hefir þar verið vitnað í það, sem þessi maður hefir látið sjást eftir sig á prenti, ettir að hann lét vígja sig til að þjóna í hinni íslenzku kirkju. Ég ætla ekki að eyða dýrmætum tíma í að lesa upp neitt af þessu nú, en ef það er ekki guðlast, þá er það þó a. m. k. þveröfugt við það, sem kirkjan ætlast til, að sagt sé og sem vitanlega verður að vera nokkur undirstaða að kennslu við prestaskóla landsins. Á ég hér fyrst og fremst við það, sem áður hefir verið vitnað í af öðrum utan þings, en það er í grein í Iðunni 1933, 4. hefti. Það er ýmislegt í því hefti, en þó er það sérstaklega ein grein, sem hefir verið talað um, sem þessi nýi dósent hefir skrifað og nefnist „Farið heilar, fornu dyggðir,“ og segir titillinn að nokkru leyti til um efnið. Annars er þessi grein þannig, að ég mun ekki lesa hana upp hér, nema ég þurfi síðar að gripa til að vitna í hana, ef aðrir gefa tilefni til þess.

Það er því eðlilegt, að fleiri láti til sín heyra en þessi stofnun, háskólinn, og það skiptir þó nokkru máli, þegar það fólk, sem ann kirkju, kristindómi og siðferði í landinu, er ekkí ánægt með þessa skipun, heldur fordæmir hana.

Nú hefir háskólaráðið samþ. skorinorð mótmæli gegn þessu tiltæki hæstv. ráðh. Sömuleiðis hafa stúdentar háskólans með miklum meiri hl. gert það. Guðfræðideildin, háskólaráðið og kirkjuráð hinnar ísl. þjóðkirkju hafa eftir frumósk stúdenta guðfræðideildarinnar óskað þess, að séra Björn Magnússon héldi áfram að vera kennari, og þar með yrði hinn ekki nýttur, nema þá að sem minnstu leyti.

Þetta er það, sem m. a. hefir rekið á eftir að gera gangskör að þessu, og það er þetta, sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv.

Það er því sýnt, að guðfræðideildin óskar eftir að fá að halda séra Birni, og þar með eru fram borin mótmæli gegn þeim manni, sem þröngvað hefir verið upp á háskólann gersamlega heimildarlaust og með því brotnar allar þær grundvallarreglur, sem gilda í þessu efni. Af þessum sökum styður Sjálfstfl. frv. og telur, að það nái sínum höfuðtilgangi, þó að ekki verði öðru um þokað.