03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2041)

114. mál, Háskóli Íslands

*Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Mér hefir fundizt, að menn hafi hér í d. haft tilhneigingu til þess að ganga framhjá efni frv. og tala um það, sem frv. hefir ekki gefið tilefni til. Út af deilum hæstv. atvmrh. og hv. þm. V.-Sk. um vísindalega guðfræði vil ég segja, að þar er eins og blindir menn dæmi um lit. Mitt álit er það, að kennslumrh. hafi í f. tvímælalaust heimild til að veita embættið, en hinsvegar tel ég, að úr því að leitað er álits sérfræðinga um málið, beri að fara eftir því áliti, sem fengið er samkv. l. landsins og l. háskólans, en ekki áliti, sem fengið er af ráðh. privat. Um þetta er að ræða, en hinu held ég fram, að ráðh. sé ekki skylt samkv. l. að taka tillit til þess álits.

Við flm. getum verið ánægðir með það, að hv. þm. V.-Sk. og hæstv. atvmrh. hafa viðurkennt bæði aðalatriði frv., fyrst og fremst þann sérstaka tilgang þess, að Björn Magnússon fái að kenna áfram. Hæstv. ráðh. vill styðja að því, og þá ætti það að ná fram að ganga. Hinn höfuðtilgang frv., að reyna að tryggja sem bezta starfskrafta að háskólanum, hafa þeir í rauninni báðir fallizt á. Það má til að tryggja það, að ekki verði þessir stöðugu árekstrar í hvert sinn, sem nýr kennari kemur að háskólanum. Það er á allra vitorði, að ekki er hægt að segja, að háskólinn eigi hér enga sök. Hann hefir komið fram með fullkomnum þjösnaskap í embættaveitingum. Ég tel því gilda ástæðu til að setja sem skýrust ákvæði um, á hvern hálft embætti verði skipuð í framtíðinni, þannig að þjóðin sé ekki sett á annan endann í hvert sinn, sem veitt er kennaraembætti.

Ég skal benda á, að þó að ekki séu í þessu frv. ákvæði um, hvernig farið verði með veitingarvaldið gagnvart háskólanum, blandast engum hugur um, að það er í því mikið aðhald um að haga sér sem réttsýnast í þessu efni. Það verður að velja hæfustu mennina, og ekki taka tillit til neins annars.

Ég vil að lokum þakka þeim hv. þm., sem talað hafa í þessu máli, fyrir, hvað vel þeir hafa tekið í það, bæði að leysa hið sérstaka úrlausnarefni þess og framtíðarspursmálið, sem í því felst.