03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2043)

114. mál, Háskóli Íslands

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) :

Í sambandi við það, sem hv. þm. V.-Sk. sagði um trúarástand Sigurðar Einarssonar og hver áhrif það hefði á veitingu kennaraembættisins, vil ég benda hv. þm. á, að ef trúarástand Sigurðar er ástæðan til þess, að hann er ekki talinn hæfur til embættisins, þá ætti hv. þm. hreinskilnislega að greina þær ástæður, en ekki búa til aðrar. Ég vil ekki segja, að það sé óhugsandi, að það hafi vakað fyrir dómnefndinni, að Sigurður. Einarsson væri ekki heppilegur fyrir ísl. kirkju, en þá var það skylda hennar að tilgreina réttar ástæður, en ekki rangar.

Hv. þm. veit, að færa má full rök fyrir þeim ummælum mínum, að dómnefndin hafi níðzt á Sigurði Einarssyni.

Hv. þm. segir, að ég hafi fyrstur manna tekið upp utanstefnur. En ég get minnt hann á, að það var háskólinn sjálfur, sem tók þann sið upp fyrstur og skaut sér á bak við þann úrskurð, sem þar fékkst. Ég verð að leyfa mér að efa, að hv. þm. hefði lagt meira upp úr ummælum, sem ég hefði fengið hjá einhverjum innlendum fræðimanni í guðfræði. Ætli hann hefði ekki haldið fram þá, að þar réðu ekki hin réttu sjónarmið? Ég taldi einmitt rétt að fá mann, sem ekki væri í nánum tengslum eða samböndum við menn og málefni hér innanlands, heldur liti á málið með glöggu gestsauga. Eins og hv. 1. þm. Rang. sagði, er ég ekki sjálfur hæfur til að dæma í þessu efni, og af því ég viðurkenni það, taldi ég rétt að leita úrskurðar erlends manns til þess að fá ákveðna niðurstöðu, ekki af því að ég hefði pantað hana, heldur til þess að fá úr því skorið, hvort tortryggni mín í garð dómnefndarinnar væri á rökum byggð. Þegar birtar voru niðurstöður dómnefndarinnar, var öllum grg. haldið vandlega leyndum fyrir ráðh. þangað til búið var að setja mann í embættið, eins og verið væri að forðast að láta uppi þær forsendur, sem próf. Mosbech byggði úrskurð sinn á. Siðar kemur í ljós, að nefndin byggir dóm sinn að miklu leyti á umsögn hans um fyrirlestrana, sem hann hafði, málsins vegna, slæma aðstöðu til að skilja, en sá dómur hans er í miklu ósamræmi við ummæli hans um ritgerðirnar.

Ég held, að lögvit hv. þm. sé farið að ruglast, fyrst hann segir, að enginn stafur sé til í lögum fyrir því, sem ráðh. hafi gert. Ég veit ekki, hvaðan hv. þm. kemur sú vizka, að halda því fram, að ráðh. sé ekki heimilt að leita álits fróðra manna, ef hann óskar þess áður en hann veitir embætti. Ég hélt ekki, að hv. þm. væri svo illa að sér í lögum, að hann sæi ekki, að slíkt nær engri átt. Mér bar blátt áfram skylda til þess sem ráðh. að láta gera það, enda hefir próf. Mosbech viðurkennt það í grein, sem hann ritaði í danskt blað, að ráðh. hefði heimild til að leita álits sérfræðings áður en hann skipaði í embættið, jafnvel þótt dómnefndin hefði verið sett.

Hv. þm. fann ástæðu til þess að þakka hv. 1. þm. Rang. fyrir það þakklæti, sem hann beindi til okkar, en lét þess jafnframt getið, að hann sæi ekki ástæðu til þess að beina þakklætinu til mín, enda ósagt, að ég gæti sætt mig við að taka á móti því, því frv. væri fullkomin vantraustsyfirlýsing á mig sem kennslumálaráðh. Ég vil benda hv. þm. á, að flm. frv. hafa venjulega nokkuð um tilgang og innihald þeirra að segja, en flm. þessa frv. lét ekkert slíkt í ljós. Ég vil ráðleggja hv. þm. að dæma ekki fyrr en að leikslokum. Frv. á sennilega eftir að koma til 2. umr., þar sem hann getur fengið tækifæri til þess að setja fram sínar hugsanir, jafnframt því, sem þá fæst væntanlega úr því skorið, hvort frv. er hugsað sem vantraust á kennslumálaráðh.