03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (2044)

114. mál, Háskóli Íslands

Gísli Sveinsson:

Ég skal ekki blanda mér í innanríkismál stjórnarflokkanna og heldur ekki, hvernig skilja beri frv., hvort það er borið fram af eintómu þakklæti til hæstv. ráðh. eða ekki,en vík að því, sem hann sagði um fullyrðingu mína um, að við ekkert væri að styðjast í lögum um það, þegar leitað er yfirdóms út fyrir landsteinana, en hæstv. ráðh. veit vel, að þetta er rétt. Hitt hefi ég margtekið fram, að ráðh. hefir vald til þess að skipa menn í embætti eftir sínum geðþótta og eftir sinni skoðun á hæfileikum keppendanna, en hitt, að hægt sé að sækja yfirmat á þeim út úr landinu, eigi sér nokkra stoð í lögum, er hreinasta vitleysa. Það er algerlega ómerkt að lögum og formi til, ef nota á það mat sem undirstöðu opinberrar skýrslu, en hæstv. ráðh. getur auðvilað byggt sínar eigin skoðanir á slíku mati. Því hefir dómur próf. Nygrens alls ekki fellt úr gildi þann dóm, að sr. Björn Magnússon sé hæfastur til þess að vera dósent, en Sigurður Einarsson lakastur, þótt hæstv. ráðh. hafi nú ráðið úr þessu á sinn hátt. Hæstv. ráðh. sagði, að háskólinn hefði fyrstur tekið upp utanstefnur. Það er mesti misskilningur. Hann hefir aðeins farið eftir þeirri heimild, sem honum er veitt samkv. reglugerð hans, að kveðja erlenda fræðimenn sér til aðstoðar. Utanstefnur aftur á móti felast í því, að menn sætta sig ekki við þann dóm, sem þeir hafa fengið hér á landi, og fara svo utan til að leita réttar síns, oft fyrir utan öll lög, og var stundum kollvarpað lögum þessa lands af erlendu framkvæmdarvaldi, sem þó var þá æðsta vald hér, en nú, þegar við höfum endurheimt öll okkar ráð, byrja menn enn á ný að sætta sig ekki við dómsaðgerðir innanlands.

Því mun hæstv. ráðh. aldrei geta sloppið úr þessari klípu, sem hann hefir sjálfur sett sig i, þar sem hann við framkvæmd þessa verks hefir breytt út af reglum, sem sjálfsagt er að fylgja, um leið og hann vinnur það verk, sem almenningur kann honum óþökk fyrir. Enda er svo langt gengið, að samstarfsflokkur hans hefir orðið að grípa í taumana til að leiðrétta þennan órétt.

Mun ég svo ekki tala frekar um þetta mál að sinni.