03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (2045)

114. mál, Háskóli Íslands

*Garðar Þorsteinsson:

Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en það er eitt atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem ég vil minnast á. Það eru þau ummæli hans, að dómnefndin hafi níðzt á Sigurði Einarssyni, og færir því til sönnunar ummæli próf. Mosbechs á bls. 18, að guðfræðileg þekking og skilningur, sem Sigurður Einarsson hafi sýnt, sé langt fyrir neðan það lágmark, sem búast mætti við af umsækjanda, og komi því ekki til greina. Þessi ummæli eru það, sem hann kallar að niðast á manninum, þegar próf. Mosbech segir þau. En hvernig vill hæstv. ráðh. þá skýra það, sem próf. Nygren segir um séra Björn Magnússon, að hann sé samkv. hans skoðun langt fyrir neðan þá merkjalínu?

Ég sé ekki betur en að þarna sé próf. Nygren þá að niðast á sr. Birni Magnússyni, því þessi ummæli eru samskonar. Þá er spurningin, hvor þeirra hefði meiri ástæðu til níðingsverks, ef um það væri að ræða. Almennt mun álitið, að það sé sá þeirra, sem er fenginn til þess að gefa slíkt álít, sem hér um ræðir, en það virðist beinlínis sannað, að svo hafi verið gert. A. m. k. er það mjög einkennilegt, að próf. Nygren segir, þegar kemur að Sigurði Einarssyni, að sér sé sérstök ánægja að taka fram, hvað þessi umsækjandi skari fram úr. Hvers vegna er honum það slíkt ánægjuefni? Sjálfsagt segir hæstv. ráðh., eins og alltaf áður, að hann hafi ekki meint neitt sérstakt með því. Ég vil svo ekki eyða fleiri orðum um það en hv. þm. V.-Sk. hefir gert, og get ég vel tekið undir með honum. Ég vil geta þess, að þessi skýrsla, sem mér hefir verið gefin af hæstv. ráðh. og ég kann honum þakkir fyrir, ber þess ljósan vott, að þar er verið að flytja mál, en ekki skýra hlutlaust frá málavöxtum. Þessi bók minnir mjög á aðra bók, sem þessi sami ráðh. hefir gefið út um háskólann. Þar, sem hér, eru mörg stór ummæli um háskólann og prófessora hans, bæði í lögfræði- og guðfræðideild, sem minnkun er að, að æðsti maður þessarar stofnunar skuli láta frá sér fara. En hvað sem þessum ummælum hæstv. ráðh. líður, er óhætt að segja, að fyrst ummæli próf. Mosbechs um Sigurð Einarsson eru níðingsverk, þá hefðu ummæli próf. Nygrens um Bj. Magnússon einnig verið það,, hefðu þau átt við hina tvo umsækjendurna, Sigurð Einarsson og Benjamín Kristjánsson.

Það, sem virðist skipta mestu máli, þegar verið er að dæma um það, sem gert hefir verið, er ákvæðið í reglugerð háskólans um, að heimilt sé fyrir hann að setja dómnefnd til að dæma um hæfileika umsækjendanna um embættin, og að honum sé heimilt að fá erlenda sérfræðinga til aðstoðar nefndinni. Það sannar, að skipun slíkrar nefndar er í fullu samræmi við lög og reglur, og að hlíta ber úrskurði hennar í samráði við lögveitingavaldið. Að það er ekki gert, er það sama og að ég eða einhver annar borgari vildi ekki hlíta dómi, sem kveðinn væri upp af hæstarétti. Að sjálfsögðu get bæði ég og aðrir verið annarar skoðunar en hæstiréttur, en mundi það hlíta, að ég neitaði að hlýða dómnum og færi að fá úrskurð erlends sérfræðings um, að hann væri rangur? Hvar stæði sjálfstæði landsins, ef hver óánægður borgari gæti seilzt út fyrir landið til að fá annan dóm? Það hefir einkennt flokksstarfsemi hæstv. ráðh. og flokksmanna hans, einnig skrif Alþýðublaðsins, að þeir hafa látið í ljós, að dómar hæstaréttar væru rangir, ekki einungis af því, að þeir, sem dæma, vissu ekki betur, heldur dæmdu þeir vísvitandi ranga dóma. Ég álít það afarhættulegt, þegar reynt er að koma því inn hjá fámennri þjóð eins og okkur, að okkar æðstu dómstólar og dómnefndir kveði vísvitandi upp ranga dóma. Ég veit ekki, hvar við stæðum, ef það kæmi fram hjá t. d. dómsmrh., að dómar hæstaréttar væru rangir og kveðnir upp til þess að níðast á einhverjum borgara. Það er það sama, sem þessi hæstv. ráðh. lætur sér sæma að segja um dómnefndina, sem starfað hefir lögum samkvæmt, að hún hafi beint starfi sinu að því að níðast á einum þeirra, sem hún dæmdi um. Ég veit ekki, hvað lengra er hægt að ganga til að óvirða hæstarétt og háskólann. En það er skylda ráðh. að vera málsvari þessara stofnana, í stað þess að níða þær niður.

En hvað sem um þessa dóma má segja, þá er það óheyrt, að yfirmat sé framkvæmt af einum manni, en undirmat af fimm mönnum. Það er það minnsta, sem hæstv. ráðh. ætti að vita, að það getur ekki átt sér stað, og að yfirmat getur ekki heldur átt sér stað nema lög séu til fyrir því. En það er hvergi til í lögum háskólans neitt, sem heimili slíkt yfirmat sem þetta. Það er þessi árás á þessa æðstu stofnun okkar, sem mér finnst hættulegust.