03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2047)

114. mál, Háskóli Íslands

*Garðar Þorsteinsson:

Ég sé ekki, að það skipti miklu máli út af fyrir sig, hvort hæstv. ráðh. fékk á sínum tíma bæði niðurstöður og forsendur próf. Mosbechs eða aðeins niðurstöður nefndarinnar, því engin áhrif hefði það haft á niðurstöður nefndarinnar. En rök hæstv. ráðh. fyrir hans ákvörðun eru aðallega þau, að hann hafi ekki fengið að sjá forsendurnar.

Ef hæstv. ráðh. segir við lestur skýrslu dómnefndarinnar, að níðzt hafi verið á Sigurði Einarssyni, fæ ég ekki séð, hvernig hann getur neitað því, að ummæli próf. Nygrens séu að sama skapi níð um sr. Björn Magnússon. Skal ég svo láta það mál útrætt.

Hæstv. ráðh. segir, að ekki sé hægt að bera saman hæstarétt og dómnefndina, því hæstiréttur sé eiðsvarinn. Dettur hæstv. ráðh. í hug, að dómnefnd, sem skipuð er samkv. lögum og reglum, kveði upp sinn dóm ábyrgðarlaust, þó hún sé ekki eiðsvarin? Ef það sannaðist á þessa menn, að þeir kvæðu upp visvitandi ranga dóma og níddust á mönnum, ættu þeir að sjálfsögðu refsingu skilið. En sem betur fer, liggur ekkert slíkt fyrir, — ekkert, sem bendir í þá átt, að dómnefndin hafi ekki kveðið upp réttlátan dóm.

Ég vil svo að síðustu beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh., til hvers við í raun og veru erum að hafa háskólann, ef ekkert mark má taka á nefnd, sem skipuð er prófessorum hans, og auk þess biskupi landsins, auk annara merkra manna. Ég vænti, að hæstv. ráðh. svari þessu. Annars verð ég að segja það, að það mun vera álit flestra, að ráðh. beri frekar skylda til að vernda háskólann en vera sýknt og heilagt að níðast á honum.