04.12.1937
Neðri deild: 42. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (2054)

128. mál, þangmjöl

*Frsm. (Emil Jónsson) :

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta litla frv. Tilgangur þess er auðskilinn, enda skýrður að nokkru leyti í grg. frv. og fskj., sem frv. fylgja. Frv. fer fram á, að nokkrum mönnum verði af ríkisstj. veitt sérleyfi til að vinna fóðurmjöl úr þangi, ef ríkisstj., eftir að hafa athugað hæfni þeirra og möguleika til þess að gera þetta, kemst að þeirri niðurstöðu, að þeir séu þess umkomnir. Þeir hafa eftir því, sem þeir hafa tjáð iðnn., gert nokkrar tilraunir með þetta og komizt að þeirri niðurstöðu. að fóðurmjöl það, sem þannig er framleitt, megi vel nota til fóðurbætis, blandað með öðrum kjarnfóðurtegundum. Það hefir reynzt vel við fóðurbætistilraunir þær, sem gerðar hafa verið undir eftirliti Búnaðarfélags Íslands. Frv. fylgir líka efnagreining á þessu mjöli og umsögn Þóris heitins Guðmundssonar, sem hafði með höndum þessar tilraunir, og það nægir að vísa til þess.

Að farið er fram á sérleyfi, stafar af því, að þessir menn telja sig þurfa dýrar vélar og áhöld og hús til þess að koma þessu á stað og markaðurinn sé ekki stærri en það, að hann megi einskis í missa til þess að þetta geti borið sig. Ef aðrir komi með svipaða framleiðslu, þá telja þeir hættu á, að sölumöguleikarnir minnki það mikið, að þetta geti ekki gengið greiðlega. Þess vegna hafa þeir beðið um sérleyfi. Þeir báðu um sérleyfi til 20 ára, en n. var sammála um að leggja til, að miðað væri við 10 ár. Þeir báðu líka um ýmislegt fleira, eins og t. d. að mega taka ókeypis þang og fjörugróður yfirleitt af landssjóðs- og kirkjujörðum, og þeir báðu líka um að fá að nota jarðhita, þar sem ríkið hefir ráð á honum, en hvorugt töldum við mögulegt að taka upp í frv.

Iðnn. er sammála um þetta mál, og er enginn ágreiningur í n. um það. Ég vil því leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.