06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2071)

129. mál, hæstiréttur

*Garðar Þorsteinsson:

Hv. flm. sagði, að það væri í 3. sinn, sem hann bæri frv. þetta fram hér á Alþingi, og ég vona líka, að það verði í síðasta skiptið, — hann reyni ekki að bera það fram oftar.

Það er misskilningur hjá hv. flm. þessa frv., bæði fyrr og nú, ef þeir halda, að þeir séu með frv. að leiðrétta misrétti, sem 2. einkunnar lögfræðingar séu beittir, því að allir lögfræðingar, sem tekið hafa próf síðan 1919, að hæstaréttarlögin voru sett, hafa vitað það fyrir, að þeir gætu ekki fengið að flytja mál fyrir hæstarétti nema þeir næðu 1. einkunn við embættisprófið. En hinum, sem höfðu tekið próf fyrir þann tíma, var öllum veittur réttur til þess að ganga undir málflutningsmannapróf, eins og 1. einkunnar mönnum. Lögfræðingar þeir, sem hv. þm. Mýr. ber fyrir brjósti, hljóta því allir að hafa tekið próf eftir 1919, en eins og ég þegar hefi tekið fram, hefir þeim jafnan verið kunnugt um, hver skilyrði hvað einkunn snerti hafa verið fyrir því að fá að flytja mál fyrir hæstarétti. Hér hefir því ekki verið veitzt aftan að neinum.

Hv. flm. sagði m. a. í ræðu sinni, að prófeinkunnir væru yfirleitt enginn mælikvarði um þekkingu manna. Þetta er vægast sagt hæpin fullyrðing hjá hv. þm., því að jafnan hefir það þó verið talið mikilsvert að hafa gott próf, og það hlýtur hv. þm. að vita, að það er alltaf tekið mikið tillit til, hvaða einkunnir menn hafa hlotið við próf þau, sem þeir hafa innt af hendi, þegar verið er að greina á milli manna í stöður og störf, enda er það ekki nema eðlilegt, því að alltaf má þó, hvað sem öðru líður, ganga út frá því með víssu, að aularnir taka ekki há próf. Hitt er að sjálfsögðu satt, að það geta oft orðið nýtir menn, bæði í lögfræðingastétt og öðrum stéttum þjóðfélagsins, sem ekki hafa náð nema 2. einkunn við próf.

Annars vil ég benda hv. flm. frv. á, að það eru ákvæði í hæstaréttarlögunum, sem heimila 2. einkunnar lögfræðingum að flytja mál fyrir bæstarétti, en til þess að fá þá heimild verða þeir að hafa sýnt kunnáttu sína í lögum og fá meðmæli lagadeildar háskólans o. fl. Þar stendur þeim því opin leið til þess að komast að hæstarétti.

Eins og ég þegar hefi tekið fram, þá dettur mér ekki í hug að halda því fram; að sumir 2. eink. lögfræðingar kunni ekki að verða góðir og gegnir lögfræðingar, því að óheppni í prófi getur oft ráðið miklu um einkunn manna, en það er bara þetta, að einhversstaðar verða takmörkin að vera, bæði hvað þetta atriði snertir og önnur. Þannig nær t. d. sá maður ekki lögfræðiprófi, sem fær ekki nema 50 stig, en sá, sem fær t. d. 56 stig, nær prófi og er embættisgengur. Sá, sem fær 115 stig og þar yfir, nær ekki aðeins prófi og er embættisgengur, heldur getur hann líka öðlazt rétt til málflutnings við hæstarétt, og þannig mætti halda áfram að telja, því að úr því að einkunnarskali okkar er þannig, að gefið er meira en ein allsherjar einkunn, þá verða takmörkin einhversstaðar að vera. Annars er slíkt ákvæði sem þetta víðar í lögum en hjá okkur; það er t. d. í hæstaréttarlögunum dönsku, og mun vera búið að vera þar lengi.

Þá sagði hv. flm., að 2. eink. menn hefðu yfirleitt reynzt eins vel og hinir, sem hærra próf hefðu haft. Þetta leyfi ég mér að efast um, að hv. þm. hafi kynnt sér svo til hlítar, að hann geti um það dæmt. En hvað sem þessu liður, þá hlýtur það að vera örvun fyrir stúdenta að stunda nám sitt vel, þegar þeir vita, að ákveðinni einkunn fylgja ákveðin réttindi, enda mun reynslan hafa orðið sú, að lögfræðistúdentar hafi yfirleitt lesið betur, sótt nám sitt fastar en ella einmitt vegna þessa umdeilda ákvæðis í hæstaréttarlögunum. Og hví skyldi þá eiga að vera að taka það í burtu, þegar það getur orðið til þess, að við fáum menntaðri lögfræðingastétt en annars? Jafnframt því, sem afleiðingin af því myndi verða alveg hin sama og orðið hefir við málflutninginn fyrir undirrétti, að það myndaðist stétt manna, sem ekki gætu lifað að þeim praksis, sem hún hefði. Lögfræðingar myndu setjast hér að og verða þegar of margir, svo réttindin yrðu einskis virði. Hér myndaðist einskonar proletaríat lögfræðinga, eins og talið er, að myndazt hafi meðal lögfræðinga við undirréttinn. Af því, sem ég nú hefi sagt, er ég á móti frv., en ég er það ekki mín vegna, heldur vegna þeirra lögfræðinga, sem hér eftir fá réttindi til málflutnings við hæstarétt.