06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (2072)

129. mál, hæstiréttur

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Hv. 8. landsk. sagði, að það væri misskilningur hjá okkur flm. þessa frv., ef við héldum, að við værum með því að leiðrétta misrétti, því að þeir lögfræðingar, sem við bærum fyrir brjósti, væru allir útskrifaðir eftir 1919, og þeir hefðu því allir vitað, hvað framundan var í þessu efni. En þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Það, sem við meinum með frv., er það, að við teljum ekki rétt að meina þeim mönnum, sem fengið hafa rétt til lögfræðilegra starfa, að flytja mál við hæstarétt.

Eitt af því, sem hv. þm. færði fram sem rök gegn frv. okkar, var það, að með því ákvæði hæstaréttarlaganna, sem útilokar 2. eink. lögfræðinga frá málflutningi við réttinn, væri ýtt undir lögfræðistúdenta að taka 1. eink., og það væri öllum í lófa lagið að ná henni. Sé nú svo, að hver geti tekið 1. eink. í lögfræði, sem á annað borð vill ná henni, þá fæ ég ekki séð, að þetta umrædda ákvæði hæstaréttarlaganna geti útilokað það, að hér myndist þetta lögfræðinga „proletariat“, sem hann var að óttast. Fjöldinn getur nfl. orðið alveg hinn sami og þó að 2. eink. mönnum verði veitt réttindi til málflutnings, eins og farið er fram á í frv.

Þá bar hv. þm. það fyrir sig, að í hæstaréttarlögunum væri ákvæði, sem veitti 2. eink. lögfræðingum rétt til málflutnings við réttinn. Þetta er rétt, en um þetta ákvæði held ég að megi segja hið sama og stendur 1 heilagri ritningu, að úlfaldanum væri hægra að komast í gegnum nálarauga en vantrúuðum manni inn í himnaríki. Svo mjög er það takmarkað.

Þá breiddi hv. þm. sig allmjög út yfir það, að einhversstaðar yrðu takmörkin að vera á milli þeirra, sem fengju réttindi til þess að flytja mál við hæstarétt, og hinna, sem ekki fengju þau. Hvað snertir okkur flm. frv. þessa, þá litum við svo á, að það sé ekki frekar ástæða til þess að takmarka aðgang að þessu lögfræðingastarfi en öðrum. Við teljum, að þeir, sem á annað borð fá rétt til þess að stunda lögfræðileg störf, eigi að fá rétt til málflutnings fyrir hæstarétti eins og hvers annars, sem lögfræðilega þekking þarf til.

Það atriði, hvort sérstaklega eigi að veita 1. eink. lögfræðingum forgangsrétt til málflutnings við hæstarétt, er mál út af fyrir sig, sem ég sé ekki ástæðu til þess að fara inn á umr. um nú. Það eina rétta í þessu efni finnst mér vera það, að reynslan og hæfni manna í starfinu veiti réttindin, en ekki óábyggilegar prófeinkunnir. Hér sem annarsstaðar mun það verða svo, að reynslan verður ólygnust og því bezti grundvöllurinn til þess að byggja á. Það er t. d. alkunnugt, að tveimur lögfræðingum, sem setja upp málflutningsskrifstofu, vegnar mjög misjafnlega, og það jafnt þó báðir séu með 1. eink. Annar rennur kannske upp eins og fífill í haga, sem kallað er, en hinum vegnar illa. Mismunurinn á gengi þeirra liggur ekki í öðru en mismuni á hæfni þeirra til starfsins.