06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (2073)

129. mál, hæstiréttur

*Garðar Þorsteinsson:

Aðalröksemdafærsla hv. flm. byggist á því, að hér sé alveg um einsdæmi að ræða. Það eigi sér yfirleitt hvergi stað, að gerður sé munur á mönnum, hvort þeir hafi haft 1. eða 2. einkunn. En þetta er misskilningur. Slíkur mismunur er algengur, enda þótt hann komi kannske fram í annari mynd en í lagaákvæðum. Um þetta þarf ekki annað en benda til veltingarvaldsins, bæði hvað snertir veitingu læknis- og sýslumannaembætta. Það gerir nær alltaf mun á því, hvort hlutaðeigendur hafi haft 1. eða 2. eink., og veitir embættin að öðru jöfnu frekar þeim manninum, sem hefir haft 1. eink. við embættispróf, en hinum. Og landlæknirinn, sem þekkir þetta manna bezt hvað læknastéttina snertir, hefir leyft mér að hafa það eftir sér, að t. d. læknar með 2. eink. eigi mjög erfitt með að fá viðurkenningu sem sérfræðingar. Þeir verði alveg að uppfylla sérstök skilyrði, sem 1. eink. mönnum eru ekki sett, til þess að fá réttindin. Þær reglur, sem tíðkazt hafa og tíðkast enn hjá veitingarvaldinu, hafa verið teknar upp í hæstaréttarlögin. Annað hefir ekki skeð.

Annars hygg ég, að hv. þm. Mýr. eigi erfitt með að neita því, að þeir menn, sem náð hafa góðu prófi, hafi ekki yfirleitt reynzt jafnnýtari menn en hinir. Og mér er sama þó að ég segi það hér, að ég hefi ekki þekkt nokkurn mann svo heimskan, að hann hafi ekki getað náð lögfræðiprófi, hafi hann á annað borð getað náð einhverju stúdentsprófi.

Hvað snertir samanburð hv. flm. á störfum sýslumanna og hæstaréttarmálflutningsmanna, þá var hann á misskilningi byggður. Störf sýslumannanna eru sem vitað er ekki nærri því eingöngu dómarastörf eða störf, sem útheimta sérstaka kunnáttu í lögum, svo sem innheimta gjalda o. fl. En málflutningur við hæstarétt er eingöngu lögfræðilegur, og það svo mjög, að það varðar miklu, að hann sé sem allra fullkomnastur. Hvers vegna skyldi þá Alþingi eiga að vera að draga úr því, að hann geti verið sem beztur? Allar tilraunir í þá átt eru því á misskilningi byggðar. Alþingi á þvert á móti að vinna að því, að sem tryggilegast sé um þessi atriði búið, svo að til málflutnings við hæstarétt geti ekki valizt aðrir en þeir, sem sýnt hafa góða þekkingu í fræðigrein sinni og eru menn andlega vel gefnir.