06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (2075)

129. mál, hæstiréttur

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði um þetta mál, skal ég geta þess, að það er rétt hjá honum að ég — og að ég hygg fleiri hv. flm. frv. — legg minna upp úr ákvæðinu um að leyfa 2. einkunnar lögfræðikandidötum að vera dómarar í hæstarétti heldur en því, að þeir geti orðið málaflutningsmenn í hæstarétti. Það getur vel komið til greina að nema eitthvað burt úr frv. til þess að breyta þessu. En ég hygg hinsvegar, að gilt geti svipað um þetta og prófessora við lagadeild háskólans. Ég hygg, að ekkert ákvæði sé um það, að þeir skuli vera 1. einkunnar menn, sem verði prófessorar við háskólann. En það kemur af sjálfu sér við veitingu, að ekki verða aðrir settir í það embætti en þeir, sem á einn eða annan hátt hafa sýnt þekkingu sína í lögum; og kemur prófið þá vitanlega þar til greina ásamt öðru. Ég býst því við, að reyndin yrði, að veitingarvaldið mundi setja þá menn eina í embætti sem dómara í hæstarétti, sem skara fram úr í lögfræðilegri þekkingu, sem þá sennilegast yrðu 1. einkunnar menn.

Ég neita því ekki, sem hv. 8. landsk. hélt fram, að hægt sé að ganga út frá því, að duglegustu mennirnir séu venjulega þeir, sem taka 1. einkunn frá háskólanum. En það er ekki algild regla. Iðulega er það svo með fátæka menn, sem verða að vinna fyrir sér meðan á námi stendur, að þeir geta ekki lagt eins mikinn tíma í námið eins og hinir betur stæðu og taka því ekki eins góða einkunn. Slíkir menn geta oft sýnt mikinn dugnað og hæfni með tímanum, og þá er rangt að útiloka þá frá störfum, sem 1. einkunnar lögfræðingar hafa með höndum, þegar þeir hafa ótvírætt sýnt hæfni sína til þess að hafa þau með höndum. Það verður líka að athuga það, að lögfræðingar, þó fengið hafi I. einkunn, verða að taka sérstakt próf til þess að ná réttindum til að verða hæstaréttarmálaflutningsmenn. Og ef 2. einkunnar maður stenzt það próf, þá sé ég ekki ástæðu til að útiloka hann frá því að geta orðið hæstaréttarmálaflm. aðeins vegna þess, að hann hefir fengið 2. einkunn frá háskólanum.

Hv. þm. Barð. kom inn á það sama og hv. 8. landsk., er hann hélt því fram, að ekki væri heppilegt að auka mjög tölu þeirra manna, sem fást víð málafærslustörf fyrir hæstarétti. Það kann nú út af fyrir sig rétt að vera. En ég held, að þetta ákvæði um 1. einkunn nægi ekki til þess að takmarka þann fjölda, sem kemur til greina með að fást við þau störf. Það eru svo margir stúdentar, sem árlega útskrifast frá lagadeild háskólans með 1. einkunn, að ef þeir ættu allir að hafa aðgang að málaflutningsstörfum fyrir hæstarétti, þá yrðu þeir of margir. Hér er miklu sanngjarnara, að annað komi til greina, þekking, hæfni og dugnaður, þegar þeir koma út í þá starfsgrein. Það yrði öruggasta úrvalsaðferðin til þess að fá menn í þessa atvinnu.

Ef próf ætti að takmarka fjölda þessara manna, þá hygg ég, að ekki nægði að miða við 1. einkunn eingöngu, heldur að þeir menn einir kæmu hér til greina, sem tekið hefðu beztu prófin með 1. eink.

Hv. 8. landsk. sagði, að í raun og veru mundi það svo vera, að við veitingu embætta, t. d. sýslumannsembætta, væru venjulega 1. einkunnar menn látnir ganga fyrir, að öðru jöfnu. Ég býst við, að þetta sé rétt, þó að dæmi finnist um, að 2. einkunnar menn hafi verið látnir ganga fyrir 1. einkunnar mönnum. Það verður alla tíð svo, að yfirleitt verður 2. einkunnin þröskuldur í vegi þeirra manna, sem taka hana, að þeim starfsgreinum, sem þeir hafa fengið próf til. Þess vegna virðist mér sá steinn, 2. einkunnin, sem leggst í götu þeirra manna í þessu efni, sem hana fá, nógu stór, þótt ekki sé verið að auka á erfiðleika þessara manna með löggjöf um að stækka þessa tálmun. Og sérstaklega verður þetta ósanngjarnt, þegar um þá menn er að ræða, sem sýnir sig að hafa hæfileika til málfærslustarfs og hafa aflað sér, þó að eftir próf sé, þekkingar, sem gerir þá jafnsnjalla hinum.

Þá sagði hv. 8. landsk., að varla mundi fyrirfinnast svo heimskur maður, sem á annað borð næði stúdentsprófi, að hann gæti ekki náð prófi frá lagadeild háskólans. Ef svo er, býst ég við, að það séu ekki endilega sérstakir gáfumenn allir, sem ná prófi við lagadeild háskólans, svoleiðis að ég hygg, að ekki væri sérlega hvítt að veikja, þótt bætt væri við í því sambandi, sem um hefir verið talað, þeim mönnum, sem fengið hafa 2. einkunn við háskólapróf, og það eingöngu vegna þess, að þeir hafa þurft að vinna fyrir sér á meðan á námi stóð, en hefðu annars langsennilegast fengið 1. einkunn.