09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (2080)

132. mál, vitabyggingar

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Þetta frv. er ekki fyrirferðarmikið. Eins og tekið er fram í grg., er það samið í samráði við Farmannasamband Íslands og flutt fyrir tilmæli þess. Þó að breyt. séu ekki stórar, eru þær mjög þýðingarmiklar, og sumar svo vaxnar, að þær þola enga bið.

Aðalbreyt. er við 9. gr., en 9. gr. mælir svo fyrir, að ráðh. láti reisa þá vita, sem þar eru taldir, og ráði, í hvaða röð þeir skuli koma. En nú hefir komið í ljós, að fyrir sjónum þeirra, sem kunnugastir eru þessum málum, eru nokkrir vitar, sem ekki hafa verið ákveðnir á sem heppilegustum stöðum, og ennfremur vantar nokkra vita, sem nauðsynlegt er að setja. Sú breyt., sem felst í frv. á 9. gr., er gerð í samráði við allra kunnugustu menn, einkum skipstjórann á Esju, sem segja má, að viti manna bezt, hvar heppilegast er, að vitarnir standi. Í vitaskránni er breytt um stað nokkurra vita og öðrum bætt þar inn. Ég hugsa, að ekki geti orðið ágreiningur um það hér, að rétt sé að gera þær breyt., sem sannprófað er, að séu til bóta, því að í frv. er engu raskað um það, í hvaða röð vitarnir skuli byggðir, og engar till. eru gerðar um aðrar tegundir vita en ákveðnar eru í 9. gr. l. Ég vil segja það til dæmis um, hve mikil þörf er á breyt. í þessu efni, að nú er byrjað að reisa vita í Málmey á Skagafirði, og á hann að standa innarlega á eynni, á stað, sem skipstjórar telja mjög óheppilegan, og telja þeir, að vitinn muni koma þar að litlu gagni, svo að ekki verði komizt hjá að byggja annan vita á eynni. Að sögn skipstjórans á Esju sést ekki til vitans frá þeim stöðum við innsiglinguna, sem eru hættulegastir. Vitinn verður að standa yzt á eynni, ef vel á að vera. Nú er búið að gera undirstöðuna undir vitann, en það verður samt að teljast betra að breyta um strax en að fullgera vitann og þurfa síðan að reisa nýjan vita.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um frv. Hv. þm. hafa ekki aðstöðu til að gagnrýna það á þessu stigi málsins. Það verður að fela það n. og sérfróðum mönnum, sem n. mundi leita til. Það má vera hverjum manni ljóst, hversu óheppilegt það er, ef vitar eru settir á þá staði, sem reynslan sýnir, að eru ekki hinir réttu.

Í frv. er einnig lögð til breyt. á 7. gr. Í stað þess, að vitamálastjóri á samkv. l. að semja till. og áætlanir í samráði við forstöðumann stýrimannaskólans og forseta Fiskifél. Ísl., mælir frv. svo fyrir, að ráðunautur vitamálastjóra skuli vera forstöðumaður stýrimannaskólans og formaður Farmannasambands Ísl. Það er víst, að hjá farmannasambandinu verður á hverjum tíma mestur kunnugleiki á því, hvar vita er mest þörf. Þess er ekki að vænta, að Fiskifél. geti haft nákvæma kynningu af því, þar sem starf þess er allt annað.

Þá er ennfremur breyt. við 8. gr. l. í frv., um að burt falli orðin: „ef ástæður ríkissjóðs leyfa“. 8. gr. l. er örstutt og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Verja skal árlega, ef ástæður ríkissjóðs leyfa, álíka upphæð til vitamála og vitagjaldi nemur, meðan stendur á byggingum vita þeirra, er ræðir um í 9. gr., ennfremur ef þurfa þykir til sjómerkja, sbr. 11. gr“.

Það er auðséð á gr., að löggjafanum hefir verið ljóst, að meðan vitanetið var gisið, var varla hægt að forsvara að verja vitagjaldinu til óskyldra hluta, heldur þyrfti fyrst að koma vitakerfinu í viðunandi horf. Síðar gæti gjaldið e. t. v. runnið í ríkissjóð til annara þarfa. Ég held því, að ekki sé rétt með þessu innskoti í 8. gr. að gefa neina ástæðu til að misnota vitagjaldið, því að bæði gæti það verið háskalegt fyrir siglingar landsmanna, og eins gæti það valdið óvinsældum hjá þeim þjóðum, sem sigla til landsins og greiða hin háu vitagjöld, ef það vitnaðist, að svo og svo mikill hluti þeirra gengi til óskyldra hluta, á meðan sjálf vitamálin eru í ólagi.

Ég vil geta þess, að úr 9. gr. frv. eru felldir þeir vitar, sem byggðir hafa verið síðan l. gengu í gildi. Það er ekki ástæða til, að þeir standi í skránni.

Þá vil ég mælast til, að frv. verði vísað til sjútvn., og vænti ég, að hv. dm. muni taka því vel.