26.10.1937
Efri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (2092)

24. mál, alþýðutryggingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) :

Hv. flm. lauk máli sinu með því að segja, að illt væri til þess að vita, að alþýðutryggingalögin væru óvinsæl; þau ættu að geta orðið vinsæl. Ég tek undir þetta. Það er illt verk, þó að andstæðingum laganna hafi haldizt það uppi, að reyna að tortryggja þau og gera þau óvinsæl. Þau eru, tvímælalaust, stærsta sporið, sem stigið hefir verið til varanlegra umbóta fyrir alþýðuna í þessu landi.

Það eru tvær leiðir til að spilla árangri laganna og gera þau óvinsæl. Önnur er að telja fólki trú um, að lögin leggi á það að óþörfu svo mikla skatta og álögur, að þetta sé byrði, en ekki fengur fyrir alþýðu. Hin leiðin er að gera svo miklar kröfur til trygginganna, að ómögulegt sé að uppfylla. Það ætti að vera auðskilið mál, að því meiri kvaðir sem á tryggingarsjóðina eru lagðar, því meiri iðgjöld verða menn að taka á sig.

Þetta frv. frá hendi hv. 1. landsk. (BrB) er ekki sérstaklega mikilsvert. Ýmislegt í því er þó til bóta á alþýðutryggingalögunum og verður tekið til meðferðar við væntanlegar endurbætur á lögunum hér á þinginu nú á næstunni. Ég vil þess vegna rifja nokkuð upp sögu málsins, en ekki halda mér að þessu frv., eins og það liggur fyrir.

Fyrsti vísir þessarar löggjafar hér á landi mátti heita að væri slysatryggingalögin, sem sett voru 1925, og endurbætt síðan 1928, litlu eftir að Íhaldsfl. lét af völdum, og fólu þau í sér miklar umbætur frá því, sem verið hafði. Þau voru sniðin eftir samskonar löggjöf í nálægum löndum, m. a. í því, að kostnaðurinn skyldi hvíla á atvinnurekendum, og að iðgjöld miðuð við vinnutíma verkafólksins, drægjust ekki frá kaupi þess, þar sem viðurkennt var, að áhættan, sem hverri atvinnu fylgir, hlyti fyrst og fremst að vera á ábyrgð atvinnurekandans.

Á Alþingi 1928 og síðan aftur 1929 flutti ég till. til þál. um skipun milliþinganefndar til þess að semja frv. um alþýðutryggingar, þ. e. sjúkra-, slysa-, elli-, örorku- og atvinnuleysistryggingar. Á þinginu 1929 náði tillagan samþykki, og nefndin var skipuð.

Við umr. um þessa till. kom afstaða íhaldsmanna afargreinilega fram. Í Nd. talaði fyrir Íhaldsfl. Magnús Jónsson, núv. hv. 1. þm. Reykv. Hann hóf ræðu sína á þessa leið: „Hv. frsm. sagði — —, að þetta mái væri eitt af þeim nútímamálum. sem við Íslendingar værum lengst á eftir í. Aumingja Ísland!“ — með háðsmerki á eftir. Og þessi hv. þm. heldur áfram: „Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvaða aðferð sósíalistar beita til þess að berjast fyrir málum sínum, meðan þeir koma ekki fram höfuðáhugamálum sínum, eins og t. d. þjóðnýtingunni. Þeir hafa búið sér til ákveðna starfsskrá um það, hvernig þeir eigi að herja inn á hið kapitalistíska þjóðskipulag, til þess að gera atvinnufyrirtækin sem ótryggust og eignarréttinn að nafninu tómu.“ — Ekki voru nú þvengirnir mjóir, sem skornir voru. Og ennfremur: „Eitt af þeim málum, sem sósíalisfar nota til „agitationa“, eru tryggingamálin. Eftir því sem sósíalistar eru sterkari í löndunum, eftir því er meira um allskonar tryggingar. Og í þeim löndum, þar sem sósíalistar hafa farið lengi með völd, eins og t. d. í Þýzkalandi, má segja, að allt sé fjötrað og flækt í eintómum tryggingum“. — Þetta eru rökin, sem áttu að stöðva alla löggjöf um alþýðutryggingar hér á landi. Og til þess að kveða drauginn enn betur niður, lýsir hann því, hvað tryggingarnar séu siðspillandi — “demóraliserandi“ —. „Þeim tryggðu batnar verr og seinna en þeim ótryggðu. Það tekur helmingi lengri tíma að græða fótbrot á tryggðum manni en þeim, sem ótryggður er fóturinn.“ — Ef sjúkratryggingar verða lögboðnar, er ekki að sökum að spyrja: fólkið leggst veikt hrönnum saman eins og í drepsótt. Annars viðurkenndi þm., að hann vildi aðeins gera grein fyrir atkvæði sínu og mundi að sjálfsögðu greiða atkv. móti tillögunni, — en sjálfur hefði hann alls ekki haft fyrir að kynna sér það svo, að hann væri „undir það búinn að ræða þetta mál frá almennu sjónarmiði.“

Þessar undirtektir þessa mæta þm. sýna vel afstöðu íhaldsmanna. Þrátt fyrir þær var þál. samþykki og nefndin skipuð. Í hana voru valdir Ásgeir Ásgeirsson, sem þar var þá fulltrúi Framsfl., Jakob Möller úr liði íhaldsmanna, og þriðji maður var ég. Nefndin hélt nokkra fundi um málið. Síðan féll það niður, þar til ég bar fram frv. um alþýðutryggingar á Alþingi 1932 og aftur 1933. Með því frv. hafði verið mörkuð til frambúðar stefna Alþfl. í þessu máli. Tryggingargreinarnar voru þær sömu og áður hafði verið rætt um. En sá meginmunur var á því frv. og lögunum, sem gilda nú, að gert var ráð fyrir, að verkamenn greiddu ekki beint sjálfir iðgjöld til trygginganna, heldur yrðu þær bornar uppi af iðgjöldum atvinnurekenda, líkt og slysatryggingarnar, og af framlögum ríkis og bæja. Gert var ráð fyrir, að iðgjöldin yrðu innt af hendi með ákveðnum prósentum af öllum vinnulaunum. Að sjálfsögðu mátti búast við, að í samningum um kaup yrði tekið tillit til þessa kostnaðar vinnuveitenda. — Undirtektirnar undir þetta frv. voru þær, að vonlaust var, að það gengi fram.

Eftir kosningar 1934, þegar samningar hófust milli Framsfl. og A1þfl., þá voru einmitt lögin um alþýðutryggingar eitt það fyrsta, sem samið var um. Þau voru afgr. á Alþingi 1935. Þess er skylt að geta, að andstæðingar trygginganna voru ekki orðnir svipað því eins ákveðnir þá eins og áður. Ég ætla, að einir sex þm. hafi greitt atkv. móti málinu í Nd., en í Ed. voru þó íhaldsmenn enn — að einum undanteknum — móti lögunum, þegar þau voru afgr. þar.

Þessi saga er sagan um það, hvernig minnihlutaflokkur getur komið málum sinum fram á Alþingi, með því einu að flytja þau þing eftir þing, skýra þau og ryðja burt hleypidómunum, þangað til málin eru orðin það vinsæl hjá almenningi, að aðrir flokkar þora ekki annað en ljá þeim eitthvert lið eða stuðning af ótta við kjósendur.

Hvað var svo fengið með þessum alþýðutryggingalögum? — Hv. flm., 1. landsk. (BrB), gat þess, að miklar vonir hefðu skapazt hjá verkalýðnum. þegar þetta fékkst fram að lokum. Og hann sagði, að mikil hefðu vonbrigðin orðið, þegar lögin komust í framkvæmd. — Það skal fúslega játað, að mikið vantar á, að alþýðutryggingarnar séu eins og Alþfl. hefði kosið og að þau lög séu eins og þau ættu að vera. En til þess að aðfinnslurnar eigi fullan rétt á sér, verður fyrst að meta aðstæðurnar. Að sjálfsögðu verður að bera saman ástandið fyrir og eftir að tryggingarnar komust á. Og það er ekki heldur til neins að láta sér detta í hug, að tryggingarnar geti gert að engu aðstöðumun ríkra og fátækra.

Fyrsti aðalkafli laganna (II.) er um slysatryggingar. Á þeim voru ekki gerðar miklar breytingar frá því, sem áður var, en þó tel ég sum atriði þeirra smábreytinga mikils virði. Áður voru dánarbætur föst upphæð, 3000 kr., og í viðbót 600 kr. fyrir hvert barn innan 15 ára, en ekkert fyrir aðra ómaga hins látna. Nú er heimilað að greiða auk þess til eftirlifandi foreldra, ef þau eða annaðhvort þeirra hefir verið á framfæri hins látna. — Á þessu þingi má nú gera ráð fyrir, að tillögur verði bornar fram um það m. a. að víkka þessa heimild um að greiða til annara ómaga en barna. — Í öðru lagi voru í alþýðutryggingalögunum hækkaðar bæturnar að mun í flestum tilfellum með því að greiða, í viðbót við 3000 kr. til eftirlifandi ekkju, eins og fyrr, hverju barni 100 kr. fyrir hvert heilt ár, sem það vantar í 16 ára aldur. Þetta hvorttveggja hefir orðið til þess að hækka mjög útgjöld trygginganna, því að nú hafa verið greiddar að meðaltali 10 þús. kr. fyrir hvern einasta mann, sem ferst, en áður 6–7 þús. kr.

Sjúkratryggingar eru efni III. kafla í lögunum. Það er skylda hvers manns í öllum kaupstöðum landsins að tryggja sér með eigin iðgjöldum rétt til sjúkrahjálpar þegar á þarf að halda. Nú er því óspart haldið á lofti, að þetta sé kvöð, en ekki réttindi, sem gróði sé að. En þetta er mesti misskilningur. Þó að menn þykist hraustir, kemur alltaf að því, að þeir þurfa læknishjálp fyrir sig eða sína nánustu. Lögin neyða menn aðeins til þess að safna sér fyrirfram því fé, sem þeir hafa síðar full not af; hver styrkir annan, heilbrigður þann sjúka, og kaupir sér þar með ómetanlegan rétt og öryggi, ef hann veikist eða þegar hann hefir fengið stóra fjölskyldu fyrir að sjá. Ég skal játa, að í þröngum kringumstæðum er það tilfinnanlegur skattur að greiða eins og hér í Reykjavík 4 kr. á mánuði fyrir einhleyping og 8 kr. fyrir hjón. En þó eru það aðeins 13 aurar á dag. Ég hygg, að allur fjöldinn eyði sem svarar 13 aurum á dag í sitthvað, sem gefur minna í aðra hönd en sjúkratryggingarnar. Ég heyri sagt, að mönnum þyki iðgjöldin óeðlilega há samt sem áður, miðað við réttindin, og að því beri bæði að auka réttindi og minnka samlagsgjöld einstaklinganna. — Það getur verið eitthvað til í því, að hægt væri að ná betri samningum við sjúkrahús og draga úr kostnaði. En ekki lækkar kostnaðurinn beinlínis við það að auka sem mest kröfurnar. Því má aldrei gleyma, að hinir tryggðu ráða nokkuð miklu um það sjálfir, hvað tryggingarnar reynast dýrar í rekstri og hversu há iðgjöldin þurfa að vera.

Ríkissjóður og bæjar- eða sveitarsjóður greiða hvor um sig 25% í sjúkrasamlögin af hundraði greiddra iðgjalda. Þessir styrkir nema helmingnum af starfsfé sjúkrasamlaganna, en ekki nema helmingurinn frá hinum tryggðu sjálfum.

Að því, er snertir ellitryggingarnar, — sbr. IV. og VI. kafla laganna — er rétt að minna hv. flm., 1. landsk., á það, að lögin um ellilifeyrinn koma ekki til framkvæmda fyrr en eftir 10–12 ár — og ekki að fullu fyrr en sú kynslóð, sem nú er í blóma sínum, er gengin fyrir ætternisstapa. En hinsvegar eru með VI. kafla laganna gerðar ráðstafanir til að brúa það bil, þar sem sett eru lagafyrirmæli um ellilaun og örorkubætur. Hv. flm. talaði um, að þetta væri mesta óvit, að byggja ellitryggingarnar þannig upp. Hann taldi, skilst mér, að það kæmi fólkinu að miklu meira haldi, að tekjur lífeyrissjóðs yrðu hvert ár notaðar upp til þess að greiða styrk til gamalmenna, og láta svo hverjum degi nægja sína þjáningu. Það má sjálfsagt um þetta deila. Og það var mjög um það hugsað, þegar gengið var frá lögunum um alþýðutryggingar, hvort heldur ætti að hallast að því að reyna að greiða sem fyrst allmikla ellistyrki til sem flestra gamalmenna, eða hvort heldur ætti að taka upp eðlilega tryggingaraðferð og safna sjóði, sem litil framlög fást úr um langan tíma. Síðari leiðin var valin, og að mínni hyggju er sú leiðin ein rétt.

Ég skal benda hv. flm. á það, að allar tekjur lífeyrissjóðs eru ekki áætlaðar nema 750 þús. kr. á ári. Það er 7 kr. gjald fyrir þá, sem eru búsettir í kaupstöðum, 6 kr. í kauptúnum stærri en 300 íbúa og 5 kr. annarsstaðar, og þar við bætist 1% álagið á skattskyldar tekjur, sem leggst ofan á tekju- og eignarskattinn. Nú munu öryrkjar og gamalmenni eldri en 67 ára vera svo mörg, að þetta væri hverfandi lítið að skipta milli allra, og næði til allt of fárra, þó að reynt væri að hluta ekki út nema 100 kr. að meðaltali á hvern, og við erum sammála um, að það er of lítið. Upphæðin gæti aldrei farið yfir 120 kr. á hvern.

Með því fyrirkomulagi, sem nú er, er það tryggt, að meira fé fæst til ellilauna heldur en þó að öllum tekjum lífeyrissjóðs Íslands hefði verið til þeirra varið, eins og hv. flm. virtist óska eftir. Það opinbera er skylt að leggja fram ákveðnar fúlgur. Úr lifeyrissjóði eru greiddar nálega 400 þús. kr., að því tilskildu, að jafnmikið eða meira komi frá bæjar- og sveitarsjóðum. Samkv. þessum fyrirmælum hefir verið veitt og úthlutað til gamalmenna nokkuð yfir 900 þús. kr., móts við 200 þús., sem notaðar voru í því skyni á ári, áður en lögin um alþýðutryggingar gengu í gildi.

Til samanburðar má geta þess, að á næsta ári á undan var greitt samkvæmt gömlu styrktarsjóðslögunum alls yfir 200 þús. kr. Ég skal geta þess, að okkur var það fullljóst, þegar tryggingalögin voru sett, að ýmsir gallar mundu sýna sig að vera á þeim, enda kom það fram. En okkur var það einnig ljóst, að hjálpin, sem l. veittu, var veruleg, þótt það væri ekki nema byrjun af því, sem síðar myndi koma. Á síðasta þingi var þess vegna flutt frv. til breyt. á l., en samkomulag náðist ekki við hinn stjórnarflokkinn um þessar breyt., og nú er verið að leitast við að ná samkomulagi um þetta. En menn verða að athuga, þegar rætt er um það, hve mikið ríkið leggi til sjúkratrygginganna, hvað það leggur til heilbrigðismálanna yfirleitt. Menn verða að athuga, að það ber uppi mikinn hluta af kostnaði við sjúkrahúsin, það stendur straum af berklasjúklingum og holdsveikum. En sú breyting, sem ég álit, að þurfi að gera á sjúkratryggingunum, er fyrst og fremst sú, að samlögin greiddu læknunum alla þeirra þóknun, en það væri látið niður falla, að sjúklingar þyrftu að greiða ¼ lækniskostnaðar. En það hefir nú verið svo með læknana, sem við hefir verið samið, að þeir hafa lagt ríka áherzlu á, að þetta ákvæði um ¼ greiðslu frá hálfu sjúklinga væri látið haldast. Þeir segja, að ef það verði fellt niður, mundi verða svo mikil áníðsla á læknunum. Ég hygg, að til þessarar áníðslu ætti ekki að þurfa að koma; það ætti að geta orðið samkomulagsatriði milli læknis og sjúklinga hans.

Þá talaði hv. þm. um það, að það væri hart aðgöngu að taka iðgjöld til trygginganna lögtaki. Ég er honum sammála um það, að það er hart aðgöngu, en hinsvegar verður tryggingin vissulega að fá sitt. — Tími minn er nú á enda. Það er ýmislegt, sem ég vildi hafa minnzt á, en það verður að bíða þangað til síðar við þessar umr.