26.10.1937
Efri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2093)

24. mál, alþýðutryggingar

*Jónas Jónsson:

Það stendur dálítið einkennilega á um þetta mál og þann aðilja, sem ber það fram. Það eru ekki miklar líkur til, að sú umr., sem hér fer fram, muni hafa mikla þýðingu, heldur muni afskipti Alþ. af þessu máli aðallega verða athuguð síðar, og þá með öðrum undirbúningi. En áður en ég fer lengra út í það mál, vildi ég benda næstsíðasta ræðumanni á það í sambandi við það, sem hann var að tala um iðgjöldin, að ég þori að fullyrða, að mikið vildu samherjar hans í Rússlandi gefa fyrir það að fá tryggingu fyrir að geta lifað og hafa þar lífs og líma grið undir því skipulagi, sem þar er. Og þó að ég vilji engan veginn gera orð hæstv. atvmrh. að mínum orðum um það, að í tryggingarlöndunum batnaði mönnum seinna sjúkdómar en annarsstaðar, þá vil ég benda á það, að það er algeng setning í sambandi við tryggingar, að Þjóðverja, sem tryggður er, batni veikindi á 2 árum, en Ítala aldrei. Það er til sá möguleiki, að menn misnoti tryggingar eins og annað. Það er ein tegund af sviksemi, sem út á það gengur. Kemur þetta auðvitað oft fyrir, bæði hjá sjúklingum og læknum. Þar sem þessi flokkur, sem ber þetta frv. fram, er af nokkrum öðrum toga spunninn en aðrir flokkar, og þar sem flutningur þessa frv. virðist ekki muni hafa nein áhrif á afgreiðslu þessa máls hér á Alþ., þykir mér rétt að nota tíma minn, sem ekki verður notaður til gagns fyrir málið, til að lýsa að nokkru skoðun minni á skoðunum þessa flokks og vinnuaðferðum.

Kommúnistar hafa samkv. úrslitum síðustu kosninga fengið 3 þingsæti hér á Alþ. En þó þeir hafi hér þessa 3 þm., þá hafa þeir ekki neinn mann hér í n., og vitanlega munu þeir ekki hafa áhrif á úrslit eins einasta máls hér á Alþ. Það leiðir af því, að þeir eru annars eðlis en aðrir hv. þm., ekki beinlínis sem menn. Ég býst t. d. við, að það sé rautt í þeim blóðið eins og öðrum, en líka heldur ekkert rauðara. En þeirra andlegu húsgögn eru af annari tegund. Kommúnistar ráða, eins og kunnugt er, í einu landi, en í öðru landi eru þeir teknir með sem flokkur í stjórnaraðstöðu. Ef litið er frá þessum 2 löndum, er afstaðan til kommúnismans tvennskonar. Í Mið- og Suður-Evrópu er hann lögbannaður, og liggur lífs- og limahegning við því að fylgja honum, en í hinum menntaða heimi, bæði á Norðurlöndum og á Englandi, svo og Hollandi og Sviss, hefir kommúnisminn að vísu reynt að festa rætur, en ekki tekizt það. Í stuttu máli: Það hefir sýnt sig, að þessi stefna er ekki í samræmi við hugsunarhátt hins menntaða fólks. Þjóðverjar og Ítalir hafa tekið kommúnismann dálítið einkennilega. Þeir hafa nefnilega snúið aðferðum kommúnistanna gegn þeim sjálfum. Kommúnistarnir hafa notað einræði minni hlutans til að koma í framkvæmd kenningum Karls Marx og Leníns, en hinir hafa notað þetta sama einræði mínni hlutans til að taka fyrir kverkarnar á þessum sömu kenningum. Hjá hinni miklu lýðræðisþjóð Norðmönnum horfir þetta nú þannig við, að fyrir nokkru voru 50 þm. kommúnista á þingi þar, en nú árið 1937 er þar enginn kommúnisti á þingi. Í Noregi eru nýafstaðnar kosningar, og við þær hefir atkvæðatala þeirra lækkað allverulega frá því, sem áður var. Í Danmörku eru þeir alveg fylgislausir. Þegar kommúnistar halda ræður í danska þinginu, þá ganga hinir borgaralegu þm. yfirleitt út til að fá sér hressingu eða því um líkt.

Ég skal nú víkja nokkrum orðum að því, hvers vegna kommúnisminn þrífst ekki hjá vel menntuðum þjóðum, eins og t. d. Englendingum, sem búnir eru í 7 aldir, með vinnu og fórnum, að ávinna sér það frelsi, sem þeir nú hafa og kommúnistar vilja eyðileggja. Ef við spyrðum Englending, af hverju þjóð hans vilji ekki fá kommúnisma, þá mundi hann svara: Það er af því, að víð viljum hafa óskert persónufrelsi, málfrelsi, ritfrelsi, félagsfrelsi, við viljum hafa rétthafa dómstóla, en þetta vill kommúnisminn ekki leyfa okkur. Í einu orði sagt: Kommúnisminn er harðstjórn, sem menntað fólk getur ekki þolað að lifa undir. En nú munu ef til vill einhverjir spyrja, hvers vegna kommúnisminn hafi þá fest rætur í Rússl. Það er auðskilið mál. Í Rússlandi var áður og hafði lengi verið einræði mínni hlutans, aðeins undir öðru formi. Þar var keisari, þar voru aðalsmenn, auðmenn og klerkar, sem kúguðu almenning og alla frjálslynda menn. Þeir, sem að einhverju leyti voru andstæðir þessari stjórn, voru annaðhvort myrtir eða sendir í útlegð til Síberíu. Árið 1917 hrundi þessi stjórn. Hún stóðst ekki hina miklu styrjöld. Þá lá Rússland raunverulega varnarlaust fyrir fótum hvers þess aðilja, sem hafði einhvern lítilsháttar kraft. Þeir menn, sem ofsóttir höfðu verið, komu nú til skjalanna og settust í söðulinn, og þeir hafa setið þar síðan. En hvernig stendur á, að þetta stjórnarfyrirkomulag hefir staðizt þá óvild, sem vitað er, að hefir ríkt í þess garð frá hálfu annara ríkja? Þar er því til að svara, að í Rússlandi var um langt skeið einræði minni hlutans. Að því leyti var þetta ekkert nýtt. Það eru því tvímælalaust hinar miklu fjarlægðir Rússlands og yfirleitt hin landfræðilega afstaða þess, sem hefir valdið því, að aðrar þjóðir hafa látið þetta svo til ganga.

Eins og ég áðan tók fram, þá hafa Mussolini og Hitler nú snúið aðferðum kommúnista gegn þeim sjálfum í þeim ríkjum, sem þeir ráða. Það er því alls ekki ómögulegt, að þessi baráttuaðferð eigi eftir að snúast gegn sjálfum Stalin í föðurlandi kommúnismans. Í Þýzkalandi hefir menningin verið rekin í útlegð. Það er sagt, að Einstein sé 14. menningarfrömuðurinn, sem rekinn hafi verið í útlegð í Þýzkalandi. Og nú í sumar var það mjög umtalað úti í löndum, þegar þýzka stjórnin rak burt og sakaði um rangan fréttaburð mann, sem um fimmtán ára skeið hafði verið fréttaritari í Herlín fyrir frægasta blað heimsins, „The Times“. Þessi maður var svo annálaður fyrir réttan söguflutning og rannsóknir í sambandi við starf sitt, að prófessorar við helztu háskóla Englands lýstu yfir, að þeir hafi beðið óbætanlegt tap við kennslu og rannsóknir, er þeir fengju nú ekki lengur fréttirnar, sem hann skrifaði frá Þýzkalandi til Englands. Það er einmitt merkilegt, að þessir menn taka frægasta blaðið og áreiðanlegasta blaðamanninn útlenda, sem í Þýzkalandi var, og reka hann burt. Þetta er aðferð, sem Rússar fundu upp. Til þess að skilja það, hvernig þessum mönnum var mögulegt í Ítalíu að koma á þessari grimmilegu harðstjórn og eyðileggja frelsi og andlegt líf, sem þar blómstraði áður, þá þurfum við ekki annað en athuga, hvað það var, sem kommúnistar gerðu í þessum löndum. Á árunum frá 191 7 og þangað til 1922, þegar Mussolini setti upp sína harðræðisstjórn á Ítalíu, reyndu verkamenn á ýmsum stöðum eftir meira og minna vanmáttugum fyrirmyndum frá Rússum að setja upp einræði minni hlutans. Þeir gerðu smábyltingar, tóku verksmiðjur og ráku eigendurna burt og gerðu sig líklega yfirleitt — eftir því sem þeim yxi fiskur um hrygg — að taka öll völd í landinu með einræði, harðstjórn og kúgun. Hvað gerðist svo? Það, sem ekki var undarlegt, — að efnaða fólkið á Ítalíu tók að segja sem svo: Eigum við að bíða eftir því, að þessir piltar taki okkur sama takinu eins og fólkið var tekið í Rússlandi? Eða eigum við að taka uppgötvun þess kæra Lenins og nota til þess að kúga þá? Í því liggur gengi Mussolinis, að hann gerði þetta fyrir efnaða fólkið, bjargaði þeim efnuðu með aðferðinni frá Rússum, og lét aftur kúgunina dynja yfir hinn fátækari lýð, sem hafði ætlað sér að fara í fótspor Rússanna, en ekki komst lengra en þetta.

Og við munum líka svo vel eftir ástandinu í Þýzkalandi eins og það var áður en þessi harðstjórn, sem þar er nú, komst á fót, — hvernig kommúnistar ógnuðu þar ár eftir ár, — mig minnir að þeir ættu seinast fimm millj. kjósenda — og hvernig svo að jafnhliða því óx stefnu Hitlers fylgi. Ég man ekki, hvort það voru sjö eða átta menn, sem gerðu fyrstu uppreisnartilraunina. En hún var vanmáttug. En honum óx fylgi eftir það smátt og smátt. Hver kommúnisti, sem kom í rauðu fylkinguna, skapaði að minnsta kosti eina brúnskyrtu hjá Hitler og efnaða fólkinu. Og einn góðan veðurdag, eftir að kommúnistar og nazistar höfðu saurgað sitt land með því að hafa í frammi öll þau ólæti, sem mest eru vansæmandi fyrir lýðræðið og frjálst land, þá varð niðurstaðan sú, sem allir vita, að eins og á Ítalíu varð ríka fólkið sterkara en þeir fátækari; þeir kunnu betur tökin og gátu látið Hitler fá meiri peninga til umráða til að styrkja sínar sveitir heldur en kommúnistar fyrir sínar sveitir. Og svo er komið sem komið er, að nú hafa verkamenn í Þýzkalandi, — og alveg sér í lagi kommúnistar, sem höfðu skammað nazistana mest með svæsnum byltingahótunum, þeir eiga við hörmulegri kjör að búa heldur en ég veit um nokkra verkamenn annarsstaðar, í jafnmenntuðu landi og Þýzkalandi.

Það er náttúrlega ákaflega lítil huggun fyrir þennan flokk manna, kommúnistana, að eiga allt undir sjálfum sér og öðrum eins leiðtogum –mönnum eins og næstsíðasta ræðumanni —, sem ganga með þá undarlegu og fáránlegu grillu, að það eigi endilega að bæta veröldina með byltingum og ofbeldi og blóðugum fórnum. Ég býst nú við, að þessi hv. þm. mundi segja sem svo, að það sé þá eitt land, sem við getum tekið til fyrirmyndar, þar sem kommúnistar eru voðalega skikkanlegir. En þetta land er Frakkland. En hvernig er ástandið þar? Það er rétt, að kommúnistar eru einn af stuðningsflokkum núverandi stjórnar. En ég get bætt því við, að þeir eru flokkur, sem engu ræður og er af sérkennilegum, heimspólitískum ástæðum þannig settur, að honum er um stundarsakir skipað að afneita öllu sinu eðli og allri sinni fortíð, — einmitt af stórmeistaranum sjálfum, Stalin. Og þá er það mjög eftirtektarvert fyrir okkur, að kommúnisminn í Frakklandi er skapaður með útlendu fé. Fyrir rússneska peninga var hið fræga blað verkamanna, 1'Humanité, keypt, sem franski jafnaðarmannaleiðtoginn Jean Jaurés hafði gefið lengi út með ljóma. Og þessu blaði tókst smátt og smátt að byggja upp nokkurn kommúnistaflokk í Frakklandi með afarmikilli ástundun. Frakkar gáðu sín ekki um það, sem einnig mun seinna verða talað meira um hér á landi, að það á ekki að taka því með þökkum í nokkru frjálsu landi, að þingflokkur standi undir stjórn útlendra þjóðhöfðingja og fái þaðan styrk. En hvað er það fyrsta, sem skeður í Frakklandi? Þá kom fram Eldkrossinn, þetta geysistóra nazistíska félag, sem var á góðri leið fyrir nokkrum missirum að taka landið sömu tökum og Hitler og Mussolini. Þá er það, þegar frjálslyndu flokkarnir sáu, að þeir voru í þann veginn að myljast á milli þessara stóru kvarnarsteina, að þeir gerðu þá það, sem hver hefði gert annarsstaðar í frjálsu landi, — bráðabirgðasamtök voru gerð milli sósíalista og frjálslyndra og kommúnista til þess að reyna að vinna á móti Eldkrossinum. Þeim tókst við kosningarnar í fyrravor að skapa stjórn undir forsæti Blums, sem var þekktasti alþýðuflokksmaður Frakklands þá. Halda menn svo, að kommúnistar hafi byrjað afskaplega göfugmannlega við þessa stjórn? Nei, þvert á móti. Þeir hafa gert af sér alla þá bölvun við þessa stjórn, sem þeir hafa getað; þeir hafa bókstaflega gert uppreisnir úti um landið og í verksmiðjum, sem þeir hafa tekið á sitt vald, haft í frammi verkföll og margskonar óróa. Þeir gerðu ýtrustu kröfur til Blumstjórnarinnar á fyrstu dögum hennar, til þess að knýja í gegn ýmislegt, sem nú er verið að tæta í sundur ögn fyrir ögn, til þess að bjarga þjóðinni frá hruni. Blum varð að kaupa sér til friðar að ganga inn á þessar hörðu kröfur. En hvað gerist svo? Blátt áfram það, að eftir eitt ár, eða um það bil, verður Blum og fjármálaráðherra hans að segja af sér. Tveir leiðtogar sósíalista verða að fórna sinum völdum og áhrifum til þess að reyna að bjarga alþýðuflokknum. Um leið verða kommúnistar að éta ofan í sig hér um bil allt, sem þeir höfðu sagt áður. Stalin verður að skipa þeim að gera þetta; þeir urðu að lengja vinnuvikuna meðal annars. Hann skipaði sinum kommúnistum að búa í hlýðni við borgaralega valdaflokka. Af hverju? Af því að Stalin óskaði ekki eftir, að Frakkland yrði fjórða fasistaríkið við hliðina á Ítalíu, Þýzkalandi og Spáni. Það er þess vegna af þessum sérstöku heimspólitísku ástæðum, að kommúnistar í Frakklandi verða nú rétt sem stendur að taka allt aftur og eru nú í raun og veru eins og hálfgerður afturhaldsflokkur, gæti maður sagt, vegna þess að þeir eru nú svo hræddir við sinn eiginn upprakning, Eldkrossinn, að ef þeir ekki hlýði sínum Stalín og hafi sig hæga, þá fái þeir verra af því, eins og bræður þeirra í Þýzkalandi.

Í næstu ræðu mun ég geta frekari upplýsingar um ástandið í þessum efnum, eins og það lítur út hér hjá okkur.