26.10.1937
Efri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (2094)

24. mál, alþýðutryggingar

*Magnús Guðmundsson:

Herra forseti, háttvirtir tilheyrendur!

Ég get ekki neitað, að mig undraði það nokkuð, er hv. flm. þessa máls, 1. landsk., Brynjólfur Bjarnason, bað um útvarpsumr. um það, því að það frv., sem hér er til meðferðar, er aðeins um breytingu á einum kafla í sjö kafla lagabálki, — lagabálki, sem hv. sami þm. flytur nú tillögu um, að verði endurskoðaður í heild. Ennfremur undraði mig þetta vegna þess, að þetta mál, sjúkratryggingamálið, er sem stendur aðallega mál kaupstaðanna, en snertir eins og nú er litið sveitir landsins, þar sem sjúkrasamlög verða aðeins sett á stofn þar, ef meiri hluti hreppsbúa óskar. Til útvarpsumræðna virðist mér eiga helzt að velja mál, sem snerta landsmenn yfirleitt. Ég átti ekki við, að málið er nú komið út á þá braut, sem raun er á orðin; það má segja, að það snerti alþjóðarhagsmuni á þeim grundvelli. En ég held mig við frv. og fylgi að því leyti þingsköpum.

Eins og ég tók fram, snertir frv. þetta aðeins einn kafla tryggingalaganna frá 1. febr. 1936, sem sé kaflann um sjúkratryggingar, að einu ákvæði undanteknu. Um frv. sjálft er tæpast ástæða til að vera margorður, enda ber ekki við þessa umr. að ræða einstök atriði. Ég skal þó geta þess, að í frv. eru atriði, sem telja verður til mikilla bóta, og má þar til nefna það ákvæði, að 24. gr. laganna falli burt, en þar er svo ákveðið, að engir, sem hafa yfir 4500 kr. skattskyldar tekjur, njóti nokkurra hlunninda í sjúkrasamlagi, jafnvel þótt þeir greiði sömu gjöld og aðrir. Það ætti sem sé öllum að vera ljóst, að það er bein hugsunarvilla að tala um sjúkratryggingu fyrir slíkt fólk. Þar er aðeins um skattgreiðslu að ræða, en alls enga tryggingu, og tryggingarnafnið er aðeins notað sem skálkaskjól til skattaálagningar, og verður því ekki neitað, að slík skattaálagningaraðferð er ósæmileg. Hér er skattur kallaður trygging, og er það ekki réttara en að kalla hvítt svart eða svart hvítt.

Að öðru leyti sýnist mér frv. gera mjög auknar kröfur til sjúkrasamlaganna, ýmissa gjaldenda, bæjarfélaga og ríkissjóðs. Hversu miklu þetta muni nema, er ekki getið í grg. frv., en eins og nærri má geta, er fjarri lagi að samþykkja frv., nema upplýsingar um þetta liggi fyrir. Verður það því væntanlega meðal annars verketni þeirrar nefndar, sem með frv. fer, að rannsaka þetta atriði með aðstoð Tryggingarstofnunar ríkisins.

Við fremur lauslega athugun frv. hefi ég rekið mig á smíðagalla á því, t. d. það, að frv. gerir ráð fyrir, að 22. gr. tryggingalaganna standi óbreytt, þótt 24. gr. falli niður, en það getur ekki staðizt, því að 22. gr. vísar í 24. gr., sem á að falla niður. Málið á því áreiðanlega erindi í nefnd, ef það á fram að ganga á annað borð.

Ég gat þess áður, að hv. flm. þessa frv. flytti einnig tillögu til þingsályktunar um endurskoðun tryggingalaganna í heild, og virðist það ótvírætt benda til, að þessi hv. þm. finni eða hafi fundið fleiri galla á þessari löggjöf en hann hyggst að leiðrétta með þessu frv. Og fyrst svo er, liggur nærri að spyrja, hvort það sé þá ekki eðlilegast og réttast að láta þetta frv. bíða eftir þeirri endurskoðun, ef till. verður samþ., því að löggjöf þessi er nægilega flókin, þótt ekki sé oftar í henni grautað en minnst verður komizt af með. Benda má og á það, að í hv. Nd. er komið fram annað frv. um víðtækar breytingar á þessum sömu 1. Og a. m. k. ætti að reyna að sjá um, að ekki verði svo ómyndarlega á þessum málum tekið, að sama þingið afgreiði í tvennum lögum breytingu á sama lagabálkinum. Rétt er og að minna á það, að í Nd. hefir komið fram yfirlýsing um það, og kom einnig fram í umr. áðan, að von sé á þriðja frv. um breyt. á þessum sama lagabálki, svo að það er auðsætt, að það eru margir, sem hafa löngun til að kroppa í þessa löggjöf. Sýnist vera harla lítil ástæða til að samþ. þetta frv. fyrr en a. m. k. allt það er komið fram, sem hv. þingmenn hafa á hjarta um breytingar á tryggingalöggjöfinni.

Lögin um alþýðutryggingar eru frá 1. febr. 1936, og því ekki nema 1½ árs gömul, en samt er búið að breyta þeim þrisvar. Þau öðluðust gildi þann 1. apríl 1936, og þau höfðu ekki lifað nema eina viku, þegar þeim var fyrst breytt. Má með sanni segja, að meinsemdir laganna hafi furðu fljótt komið í ljós. Næst þurfti að grípa til bráðabirgðalaga til að leiðrétta lögin, og það var gert 23. sept. 1936, og voru þá lögin tæpra 8 mánaða gömul. Enn var lögunum breytt 1. apríl 1937, enda voru þau þá orðin ársgömul. Og samkvæmt því, sem ég hefti áður bent á, eru nú æðimargir hv. þm., sem hugsa sér til hreyfings um að breyta þeim í verulegum atriðum. Allt þetta styður það mjög ákveðið, að hv. flm. hafi að því leyti rétt fyrir sér, að breyta þurfi lögunum. En það er víst, að í því frv., sem hér er til meðferðar, er sleppt ýmsum atriðum, sem nauðsynlegt er að breyta. Frv. er því alls ekki fallið til þess að verða samþ. óbreytt.

Þegar tryggingalagafrv. var til meðferðar á þinginu 1935, fékk þessi hv. deild þingsins ekkert tækifæri til þess að hafa áhrif á það eða lagfæra það. Frv. kom hingað til Ed. þegar aðeins voru eftir fáir dagar af þinginu. Ég minnist þess vel, því að ég átti sæti í þeirri nefnd, sem var ætlað að fjalla um frv. Ég minnist þess, að við stjórnarandstæðingar fengum strax, er málið kom hingað í deildina, að vita, að stjórnarflokkarnir hefðu samþ., að frv. ætti að ganga breytingalaust gegnum þessa deild, og að því þýddi ekkert að koma með brtt. Athugun frv. hér í deildinni var því ekkert nema kák, enda var aðeins einn fundur haldinn um málið í nefndinni. Getur hver og einn sagt sér sjálfur, að slíkt er engin athugun á frv., sem er jafnflókið og bálkur í 90 greinum. En þó að athugun frv. væri svona áfátt, þá var hún þó nægileg til þess að láta það í ljós, að frv. þurfti mikilla bóta, þótt aðeins væri litið á formshliðina. Samt fengust engar lagfæringar á frv., og stjórnarsinnar svöruðu því einu, þegar á slíka galla var bent, að það mætti bæta úr þeim á næsta þingi. Enda fór svo, eins og ég hefi áður tekið fram, að lögin voru ekki nema vikugömul, þegar þurfti að breyta þeim í fyrsta skipti, og mun það vera eins dæmi, eftir því sem ég bezt veit.

Að þessu athuguðu kemur mér það ekki undarlega fyrir, þótt nú séu uppi raddir um að breyta þessum lagabálki. Og ég hefi það fyrir satt, að Alþfl., sem aðalþáttinn átti í að hamra fram þessa löggjöf, sem ég viðurkenni, að er að ýmsu leyti góð, ætli á þessu þingi að bera fram við hann ýmsar breytingar. Hverjar þær breytingar verða, er mér að sjálfsögðu ókunnugt um, en hitt veit ég, að það er óhæfilegt ofbeldi meiri hlutans að knýja í gegn löggjöf, sem enginn tími eða tækifæri er til að gagnrýna. Það ætti að vera lágmarkskrafa hér á þingi, að minni hl. fái tóm til að athuga málin og að ekki sé fyrirfram tilkynnt, að engar brtt. verði samþ., en því miður er þetta mái ekki einsdæmi í þessum efnum hjá núverandi stjórnarflokkum.

Ég tók eftir því, að hv. 1. landsk. batt sig alls ekki í umr. við sitt eigið frv., heldur fór út í ýms atriði tryggingalaganna yfirleitt. Ég tel mér þá heimilt að gera slíkt, og mun fara nokkrum orðum um ýms þau atriði, sem ég sé og veit, að þurfa breytinga við. Ég veit, að hæstv. forseti leyfir þetta, úr því að hann tók ekki fram í fyrir hv. þm. S.-Þ. áðan.

Ég get ekki í sambandi við þessa löggjöf látið vera að minnast litið eitt á meðferð hennar á ellistyrktarsjóðunum. Eins og kunnugt er, eru þessir sjóðir eign hreppa og kaupstaða landsins og myndaðir af framlögum íbúa þeirra og litlum styrk úr ríkissjóði. Umráð þessara sjóða eru með lögum alveg tekin af eigendum þeirra, sveitarfélögunum, og úr þeim fæst ekkert, ekki einn sinni vextir, nema lagt sé fram úr sveitareða bæjarsjóði a. m. k. jafnmikið á móti. Allir menn sjá, að það er hinn freklegasti yfirgangur að taka þannig ráðin af bæjar- og sveitarfélögunum yfir þeirra eigin sjóðum og láta ekki einu sinni af hendi vextina, nema þeir séu keyptir út með jafnháu lausnargjaldi á móti. Þetta er hreint og beint ræningjaaðferð, svipuð þeirri, sem barnaræningjar viðhafa, er þeir ná í börn og láta svo eigendur þeirra, það er að segja foreldrana, kaupa þau út.

Eftir hinum gömlu lögum um ellistyrk var óheimilt að veita þeim styrk úr ellistyrktarsjóðunum, sem voru á fátækraframfæri, og bak við þetta lá tvennur tilgangur. Fyrst og fremst að fyrirbyggja, að ellistyrktarsjóðirnir yrðu notaðir til þess að greiða eiginlegan fátækrastyrk, og í öðru lagi að hjálpa fátækum gamalmennum til þess að losna við að þurfa að fara á sveitarframfæri.

En hvernig er nú þetta eftir hinum nýju tryggingalögum? Það er þannig, að hreppsnefndir og bæjarstjórnir geta vel látið allan þann styrk, sem kemur úr ellistyrktarsjóði eða lífeyrissjóði, ganga upp í fátækraframfærslu, án þess að fara í bága við orðalag laganna. Það mun nú ekki hafa verið tilgangurinn að heimila þessa aðferð, en orðun þeirra fyrirmæla, sem hér að lúta, hefir ekki tekizt höndulegar en svo, að hægt er að framkvæma lögin þvert ofan í tilgang þeirra. Og lögin beinlínis freista hreppsnefndanna til þess að nota ellistyrkinn til eiginlegrar fátækraframfærslu, eða jafnvel þvinga þær til þess, þar sem þeim er skylt að leggja fram úr sveitarsjóðum a. m. k. jafnmikið og kemur úr ellistyrktar- eða lífeyrissjóði, en slíkt framlag geta þær margar hverjar ekki innt af hendi, nema taka það af því fé, sem ætlað er til fátækraframfærslu eftir framfærslulögunum.

Við endurskoðun laganna þarf nauðsynlega að taka þetta atriði til meðferðar, en ekki er það gert í því frv., sem hér liggur fyrir til meðferðar.

Annað atriði skal ég minnast á. Svo sem kunnugt er, er ekki skylt að hafa sjúkrasamlög nema í kaupstöðum, en í hreppum — þar með að sjálfsögðu talin kauptún — er því aðeins skylt að stofna sjúkrasamlög, að samþ. sé með meiri hl. atkvæða; og þá verður það sjúkrasamlag, sem stofnað er í hreppi samkvæmt þeirri atkvgr., í einu og öllu að lúta fyrirmælum tryggingalaganna. Afleiðingin ef þessu verður sú, að engin sjúkratrygging er að tilhlutun hins opinbera á þeim stöðum, þar sem meiri hlutinn vill ekki sjúkratryggingu eftir tryggingalögunum. Þetta er afturför frá því, sem áður var. Áður voru sjúkrasamlög komin viða í hinum fjölmennari kauptúnum, og nutu þau talsvert riflegs styrks úr ríkissjóði, en nú fæst ekki neinn styrkur nema að öllu leyti sé farið ettir tryggingalögunum, því að hin eldri lög um sjúkratryggingar eru numin úr gildi með tryggingalögunum.

Það, sem á að gera til þess að bæta úr þessu, er að taka upp aftur gamla fyrirkomulagið og heita þeim hreppsfélögum styrk handa sjúkrasamlagi, sem ekki vilja binda sig við eða ganga undir öll ákvæði tryggingalaganna, því að það ætti öllum að vera ljóst, að aðalatriðið er, að menn séu sjúkratryggðir, en hitt er aukaatriði, hvort sá félagsskapur, sem stendur á bak við tryggingarnar, er bundinn í spennitreyju ákveðinna laga eða ekki.

Eftir elztu lögunum um almennan ellistyrk frá 1890 var hægt að veita ellistyrk 60 ára mönnum, og eins var þetta eftir ellistyrktarlögunum frá 1909. En eftir tryggingalögunum frá 1936 var styrkveitingin bundin við minnst 67 ára aldur. Að þessu leyti var því um beina afturför að ræða, enda var nokkuð bætt úr þessu með bráðabirgðalögunum frá 23. sept. 1936, því að þar var svo kveðið á, að þeir menn, sem áður hefðu fengið styrk á aldrinum frá 60–67 ára, gætu fengið hann framvegis. Hinsvegar eru enn allir þeir útilokaðir, sem eru eða verða 60–67 ára og ekki höfðu fengið ellistyrk eftir lögunum frá 1909. Fólk milli 60 og 67 ára er því enn, þrátt fyrir þessa bót á tryggingalögunum frá 1. febr. 1936, verr sett en það var eftir lögunum frá 1909, og er það illa farið.

Margt fleira í tryggingalögunum mætti telja, sem athuga þarf við endurskoðun, en það er tilgangslaust að rekja það allt hér. Það, sem hér hefir verið talið, sýnir það væntanlega, að hv. flm. þess frv., sem hér er til umr., hefir langt frá tekið öll þau atriði í frv. sitt, sem breyta þarf, og væri því ekki nema hálfunnið verk eða minna, þótt það yrði samþ. með þeim breytingum, sem á því yrði nauðsynlega að gera, og fæ ég ekki betur séð en að réttast sé að láta frv. biða eftir gagngerðri endurskoðun á lögunum í heild. Ég gat þess áðan, að von mun vera á öðru frv. um breytingar á f. frá Alþfl., ef til vill frá báðum stjórnarflokkunum, og þar sem það er ekki enn fram komið, er auðséð, að hv. 1. landsk. hefir verið of bráður á sér að heimta útvarpsumr. um málið, því það er auðséð, að almenningur á ekki gott með að velja og hafna í þessu máli meðan allar till. í málinu eru ekki fram komnar. Hitt er annað mál, að það fer mjög illa á því, að hv. stjórnarflokkar skuli draga það svo mjög að koma með sitt frv., því sá dráttur getur hæglega leitt til þess, að málinn yrði flaustrað af í þinglok, eins og átti sér stað 1935, en ég þykist skilja það svo, að þessi dráttur stafi af því, að enn hafa ekki tekizt samningar milli stjórnarflokkanna um framtíðarsamvinnu, svo að hv. Alþfl. er enn í vafa um, á hvorn koddann hann á að halla sér, til Framsfl. eða Kommfl.

Annars ætla ég að segja örfá orð um ræðu hv. 1. landsk., Brynjólfs Bjarnasonar. Hann virtist ekki skilja það vel, hvað tryggingar væru. Tryggingahugmyndin er sú, að þeir, sem tryggja ákveðin verðmæti, greiði ákveðin iðgjöld, sem eftir skynsamlegum líkum eru hæfilega há til þess að bæta þann skaða, sem verður á hinum tryggðu verðmætum á hverjum tíma. Ég tek t. d. brunatryggingar. Það þekkja allir, að tveir menn, sem tryggja hús sín, sem bæði eru metin t. d. hvort á 50 þús. kr., greiða jafnhá iðgjöld, án tillits til þess, þó annar sé ríkur, en hinn fátækur. En þegar um sjúkratryggingar er að ræða, vill hv. þm. láta gilda allt aðrar reglur. Eftir hans till. er tryggingarhugmyndin komin inn á svið skattalaga, og er þá um allt annað mál að ræða. Ég vil benda á, að ég býst við, að hann í sínum verzlunarsökum láti fátæka og ríka borga jafnt fyrir sömu vöru. Hér er um það að ræða að fá heilsu sína tryggða, og hún er einstaklingunum vitanlega jafndýrmæt, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir.

Hv. þm. talaði hér nokkuð um lýðræði. Það gæti verið freistandi að fara nokkuð út í sömu sálma og hv. þm. S.-Þ., Jónas Jónsson, en ég mun ekki gera það að þessu sinni. Ég vil aðeins benda hv. 1. landsk. á það, að það er ákaflega illa til fallið, að flokkur eins og Kommfl. sé að tala um lýðræði, þegar vitað er, að stefna þess hv. flokks fer algerlega í bága við allt lýðræði. Það vita allir, að í Rússlandi er það tiltölulega fámennur flokkur, sem öllu ræður, svo að í Rússlandi er ekki hægt að tala um lýðræði.

Hv. þm. var að segja, að tryggingalögin væru óvinsæl. Ég held aftur á móti, að þau séu að mörgu leyti vinsæl, en hitt er vitað, að það hefir mikið verið gert til þess af vissum mönnum að gera þau óvinsæl; og það er út af fyrir sig rétt, að hverskonar skattar eru ætíð óvinsælir, en hjá þeim verður ekki komizt í sambandi við alþýðutryggingarnar. Og ég vil segja hv. þm. það, að þó hann fengi að smíða alþýðutryggingalögin alveg eftir sínu höfði, þá mundu þau aldrei verða vinsæl af öllum. En ég vil ennfremur segja honum, að mín sannfæring er sú, að et sanngirni væri beitt af öllum, væri hægt að komast að góðu samkomulagi um þetta mál, og það er ég sannfærður um, að er öllum fyrir beztu. En ef ekki kemst á samkomulag í þinginu, þá verða lögin óvinsæl; komist á samkomulag, þá verða lögin aftur á móti vinsæl. Og ég er viss um, að heppilegast fyrir málið er, að lögin verði smátt og smátt lagfærð, en ekki í einu stökki.

Það eru svo fáar mínútur eftir, að ég verð að nota þær til þess að svara hæstv. atvmrh. Hann sagði, að Sjálfstfl. væri ákaflega á móti alþýðutryggingunum, og ætlaði að rökstyðja það álit sitt með ummælum, sem hv. 1. þm. Reykv., Magnús Jónsson. hefði einhverntíma haft á Alþingi. En ég skildi þessi ummæli þessa hv. þm. svo, bæði þegar þau voru töluð, því ég heyrði á það, og eins þegar hæstv. atvmrh. las þau upp áðan, að með þeim væri hv. þm. að vara við öfgunum í þessu máli; hann væri að benda á alvarlegt atriði í málinu, sem athuga þyrfti gaumgæfilega, þetta, sem hæstv. atvmrh. kallaði „samvizkusemi hinna tryggðu“. Hæstv. ráðh. sagði einmitt, að tryggingarnar yltu kannske hvað mest á þessu atriði, „samvizkusemi hinna tryggðu“, og hv. þm. S.-Þ. tók í sama streng. Og það var einmitt þetta, sem hv. 1. þm. Reykv., Magnús Jónsson, átti við, þegar hann sagði, að tryggðum manni batnaði helmingi seinna en ótryggðum. Hitt vita allir, að þessi hv. þm. er ekki svo heimskur, að hann meinti þetta bókstaflega. En hæstv. atvmrh. og hv. 1. þm. Reykv, eru þarna báðir inni á sömu hugsun. Hitt getur hæstv. atvmrh. aldrei sannað, að Sjálfstfl. sé á móti tryggingunum. Við atkvgr. um l. á þinginu 1935 greiddu aðeins 5 þm. atkv. gegn frv. í hv. Nd., og ástæðan fyrir því, að við fulltrúar Sjálfstfl. í Ed. vorum á móti frv., var eingöngu sú, að við vorum að mótmæla þeirri frámunalegu ósvífni, að deildinni var veittur aðeins einn dagur til þess að athuga lögin. Slik vinnubrögð eru kannske samboðin nazistum og kommúnistum, en alls ekki þeim flokkum, sem vilja kenna sig við lýðræði. — Ég er búinn með minn tíma. Ég hefði viljað segja nokkur orð út af ræðu hv. þm. S.-Þ., en það verður að bíða í þetta sinn.