26.10.1937
Efri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (2095)

24. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti! Út af því, sem hv. 9. landsk., Magnús Guðmundsson, er síðastur talaði, sagði um tryggingamálin í heild, vil ég byrja á því að athuga þær till. Sjálfstfl., sem 5 fulltrúar flokksins bera fram í hv. Nd. nú á þessu þingi um breytingar á alþýðutryggingalögunum. Þetta frv. er afturganga frá síðasta þingi. Í frv. þessu eru engar brtt. við kaflann um sjúkratryggingarnar, og brtt. við hina kaflana virðast mér í einu orði sagt hreinasta kák. Að svo miklu leyti sem smávegis nýtilegt kann að vera í þessum till., er sjálfsagt að taka það til greina, þegar l. í heild sinni verða endurskoðuð, en forðast hitt, sem er til hins verra. Mér virðist það t. d. alveg makalaus till., að leggja til, að iðgjöldin til ellitrygginganna verði stórlega lækkuð, án þess að benda á aðra tekjustofna eða breyta lögunum að öðru leyti. Þetta yrði vitaskuld til þess að gera elli- og örorkutryggingarnar enn aumari. Hitt þykir mér ekkert undarlegt, að frá fulltrúum hinna tekjuhæstu í landinu komi till. um að lækka réttlátasta iðgjaldið, sem tekið er sem hundraðshluti af skattskyldum tekjum, um helming. — En það er líka rétt, að það er alveg öfugt við það, sem alþýða manna vill. Þá er það einnig mjög líkt íhaldinu, að vilja laga atvinnuleysistryggingarnar með því að afnema þær með öllu. Ég skil varla. að það séu margir verkamenn í landinu hrifnir af svona bjargráðatillögum gegn atvinnuleysisbölinu.

Hæstv. atvmrh. sagði í ræðu sinni, að það, sem gerði lögin um alþýðutryggingar óvinsæl, væri að segja, að þau legðu þungar kvaðir á fólk. Ég held aftur á móti, að það, sem gerir lögin óvinsæl, sé hitt, að þau leggja raunverulega þungar kvaðir á fátækt fólk, og það er vitaskuld vatn á myllu andstæðinganna. Og ég held, að ráðið til að gera tryggingarnar vinsælar sé ekki að mótmæla staðreyndum, heldur að breyta staðreyndum og endurbæta lögin. Hæstv. ráðh. sagði einnig, að því er mér skildist, að það væri ekki hægt að auka hlunnindin nema með því að auka líka kvaðirnar. Ég hefi nú í frv. minn bent á fyrirkomulag, þar sem það tvennt er sameinað, að hlunnindin eru aukin og kvaðirnar á þeim fátækustu eru minnkaðar. Þetta getur að vísu þýft nokkuð auknar kvaðir á þeim tekjuhæstu, það skal játað. En ég býst varla við, að alþýðutryggingarnar eða nokkur félagsmálalöggjöf fyrir fólkið geti nokkurntíma orðið vinsæl hjá þeim tekjuhæstu.

Hæstv. ráðh. sagði, að lagt yrði fram frv. frá stjórnarflokkunum um breytingar á 1. og ennfremur að ýmislegt í till. mínum væri til bóta og það yrði tekið til velviljaðrar athugunar. Ég þakka fyrir það. En hvað er nú það, sem felst í till. mínum? Það felst í þeim allt það, sem á sjötta þúsund verkamenn í Reykjavík og verkamenn víðsvegar um land óska, að verði umbætt í lögunum. Það, sem felst í mínu frv., er, að læknishjálp á sjúkrahúsum og utan þeirra greiðist að fullu af sjúkrasamlögum, í stað þess, að slíka hjálp greiða þau nú aðeins að 3/4 utan sjúkrahúss, að biðtími dagpeninga verði ekki meiri en ein vika, í stað þess, að sjúkrasamlögin hafa nú vald til þess að ákveða lengd biðtímans, og sjúkrasamlag Reykjavíkur hefir ákveðið hann 16 vikur, að hámarksiðgjöld lækki á þeim, sem lægri tekjur hafa, en verði stighækkandi í hlutfalli við tekjur, en hinsvegar að allir njóti trygginganna, en ekki aðeins þeir, sem hafa undir 4500 kr. tekjur, eins og er samkv. l., að ríki og bæjarfélög greiði í sameiningu iðgjöld fyrir atvinnuleysingja, sem ekki hafa haft atvinnu í 2 vinnuvikur mánuðinn áður en iðgjaldið féll í gjalddaga, og loks að foreldrar beri ekki ábyrgð á greiðslu iðgjalda fyrir börn sín og fósturbörn, eins og þeim ber skylda til samkv. núgildandi l. Þetta og fleira felst í brtt. mínum við sjúkratryggingarnar, og í þáltill., sem ég flyt um endurskoðun á alþýðutryggingal. almennt, er farið fram á breytingar á köflunum um elli-, örorku- og atvinnuleysistryggingarnar. Allt þetta er í samræmi við kröfur hinna 5200 verkamanna í Reykjavík í fyrra, verkamannafél. Dagsbrúnar og margra annara verkalýðsfélaga víðsvegar á landinu.

Hæstv. atvmrh. sagði, að hann teldi það rétt, að horfið hefði verið að því ráði að úthluta ekki strax öllum tekjum lífeyrissjóðs, því þó það yrði gert, mundi lítið hækka hlutur hvers gamalmennis. Nú er það afareinfalt reikningsdæmi, að ef öllum tekjum, sem lífeyrissjóður hefir nú, auk þess alls, sem kemur annarsstaðar frá til örorku- og ellilauna, væri útbýtt jafnharðan, þá kæmi meira í hlut gamalmennanna. En ég tel það ekki nóg; ég tel, að það þurfi að auka tekjur lífeyrissjóðsins mun meira, og eins og ég sagði í framsöguræðu minni, þá þarf að halda gamalmennunum uppi hvort sem er, og það verður auðveldast með því að gera það á skipulagðan hátt. Það, sem hæstv. ráðh. sagði um sjúkratryggingarnar, vil ég taka fram, að er í samræmi við það frv., sem einn hv. þm. Alþfl. flutti á síðasta þingi. Þar eru nokkrar till. til bóta; t. d. er gert ráð fyrir, að sjúkrasamlögin greiði að fullu læknishjálp hjá heimilislæknum o. fl. Lágmarksiðgjöld til sjúkrasamlaga vill flm. gera tilraun til að lækka með því að gera skyldutrygginguna umfangsminni en áður; t. d. eiga dagpeningar ekki að vera með í skyldutryggingunni, ennfremur að afnema skyldutrygginguna fyrir gamalmenni eldri en 67 ára, og torvelda þeim að geta komizt með í trygginguna, ef þau óska. Loks er lagt til, að sjúkrahjálp fyrir einn og sama sjúkdóm sé færð niður í 12 vikur úr 26, og niður í 24 vikur úr 32 fyrir mismunandi sjúkdóma á sama ári. Þetta rökstyður flm. með því, að langflestir sjúkdómar, sem standa lengur en 12 vikur, heyri undir lögin um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Ég held nú samt, að allir hljóti að viðurkenna, að einn sjúkdómur getur í mörgum tilfeilum staðið lengur en 12 vikur, og í mörgum tilfeilum geta menn haft mismunandi sjúkdóma í samtals meira en 24 vikur á ári án þess það heyri undir l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Ef það er á annað borð viðurkennt, að það þurfi að létta þeim bagga af sjúkrasamlögunum, að þurfa að greiða sjúkrahjálp í 26 vikur fyrir þá, sem haldnir eru alvarlegum langvarandi sjúkdómum, hvers vegna þá ekki að fara þá leið, sem stungið er upp á í frv. mínu, að ríkið sjái fyrir framfærslu þessara manna eins og áður var um flesta þeirra?

Í stuttu máli ganga brtt. Stefáns Jóh. Stefánssonar við kaflann um sjúkratryggingarnar út á það, að reyna að lækka iðgjöldin með því að minnka hlunnindin enn meira. En ég býst við, að flestir séu mér sammála um það, að til þess að alþýðutryggingalögin geti komið að sem beztum notum og orðið vinsæl, þarf að finna leiðir til að gera hvorttveggja í senn, að auka hlunnindin og lækka iðgjöldin á þeim efnaminnstu, og það er einmitt þetta, sem er tilgangurinn með frv. mínu. Brtt. þessa hv. þm. við kaflann um elli- og örorkutryggingar og atvinnuleysistryggingar tel ég líka algerlega ófullnægjandi. Hin óvinsælu og óréttlátu iðgjöld til lífeyrissjóðs, sem tekin eru sem nefskattur, eru látin halda sér, og sömuleiðis það fyrirkomulag, að safnað sé í sjóð, sem ekki kemur að verulegum notum fyrr en í fjarlægri framtíð. Þá er till. í þessu umrædda frv. um að afla atvinnuleysissjóðunum tekna með því að atvinnurekendur greiði ½% af vinnulaunum og af þessu fé fái atvinnuleysissjóðirnir jafnháa upphæð og framlög bæja og ríkis nema, það er 12 kr. á hvern tryggðan mann á ári sem hámark. Hver maður getur sjálfur reiknað út, hversu gersamlega ófullnægjandi þetta er. Það eru 70 aurar að meðaltali til viðbótar á hverja atvinnuleysisviku samkv. þeim útreikningi, sem ég benti á í framsöguræðu minni. Þrátt fyrir slíka viðbót mundu atvinnuleysistryggingarnar vera svo að segja jafngersamlega ónýtar eins og áður.

Það er skemmst frá að segja, að í þessu frv., sem ég hefi hér gert að umræðuefni, er yfirleitt algerlega gengið framhjá áskorun hinna 5200 Reykvíkinga og verklýðsfélaganna til Alþingis. En frv. mitt og þáltill. eru algerlega sniðin ettir þessum kröfum og till. alþýðunnar sjálfrar.

Hér var haldin ræða áðan af hv. þm. S.-Þ., sem ekki var beinlínis til þess fallin að auka virðinguna fyrir þingræðinu. Eins og kunnugt er, er þessi hv. þm. formaður stærsta þingflokksins, Framsfl., en það er landsmönnum kunnugt, að allmargir hv. þm. þessa flokks eru komnir inn á Alþingi fyrir atbeina Kommfl. Þessi hv. þm. hefir orðið fyrir því mótlæti, að hann hefir einn sinna flokksmanna tapað fylgi við síðustu kosningar, og nú vildi hann verða ráðh., en fékk því sem betur fer ekki ráðið, e. t. v. vegna þess, að eitthvað þótti athugavert við heilafrumur hans, og hin andlegu húsgögn hans og sálarstofur líti öðruvísi út en hjá öðru fólki, svo ég noti hans eigin orð. Honum er því nokkur vorkunn. En ég tel mér samt sem áður skylt að biðja afsökunar á því fyrir hönd Alþingis. að leyft skyldi vera að halda slíka ræðu, og ég vona. að það verði ekki reiknað Framsfl. til skuldar, sem er svo ógæfusamur að þurfa að burðast með svona aflóga grip fyrir formann. — Hv. þm. Jónas Jónsson, sagði, að hjá vel menntuðum þjóðum þrífist kommúnisminn ekki. Við skulum nú einmitt í sambandi við þetta bera saman tryggingar í vel menntuðum löndum, sem hv. þm. kallar, og í sovétlýðveldunum. Sannleikurinn er sá, að alþýðutryggingar eru hvergi fullkomnari en í sovétlýðveldunum, og ég verð að álita, að einmitt það beri vott um, að hvergi sé sannmenntaðra fólk en í sovétríkjunum. Þar er hverjum þegni tryggður rétturinn til fjárhagslegs öryggis í stjórnarskrá landsins. 120. gr. stjórnarskrár sovétlýðveldanna hljóðar svo: „Borgarar hinna sameinuðu sósíalistísku sovétlýðvelda hafa rétt til öruggrar efnahagslegrar afkomu í elli, einnig í tilfelli veikinda og örorku. Þessi réttur er tryggður af hinni öru þróun þjóðfélagstrygginga verkalýðs og starfsfólks á kostnað ríkisins, ókeypis læknishjálp og sjúkrabúsvist, og með því að hinni vinnandi alþýðu er látin í í té gnægð hressingarstaða“. Þannig hljóðar 120. gr. hinnar sósíalistísku stjórnarskrár. Gegn atvinnuleysi eru menn tryggðir á þann hátt, að hverjum þjóðfélagsborgara er tryggður réttur til lífvænlegrar atvinnu. 118. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo: „Sérhver borgari hinna sameinuðu sósíalistísku sovét-lýðvelda hefir rétt til vinnu, rétt til að fá trygga atvinnu fyrir kaup, sem svarar til afkasta og gæða vinnu hans. Rétturinn til vinnu er tryggður af hinu sósíalistíska skipulagi þjóðarbúskaparins, hinum stöðuga vexti framleiðsluafla sovét-þjóðfélagsins, kreppulausri þróun atvinnulífsins og því, að atvinnuleysinu hefir verið útrýmt“. Þannig hljóðar 118. gr. hinnar sósíalistísku stjórnarskrár. Allar alþýðutryggingar í sovét-lýðveldunum eru eingöngu kostaðar af ríkinu. Verkamenn og starfsmenn borga ekki einn einasta eyri til þeirra af launum sinum. Ríkið greiðir algerlega að öllu leyti allan sjúkrakostnað, sjúkrahúsvist, lyf, læknishjálp og allt annað, og auk þess fær sjúklingurinn full daglaun meðan hann er óvinnufær. Til samanburðar má geta þess, að hæsti styrkur til sjúkra manna í kapitalistísku landi mun vera í Tékkó-Slóvakíu, en þar nema dagpeningarnir 67% af launum fyrir þá, sem dvelja utan sjúkrahúss, og 33% af launum fyrir þá, sem dvelja á sjúkrahúsi. Í sovét-lýðveldunum er biðtími dagpeninga enginn. Menn fá greidd full laun frá því að sjúkdómurinn er tilkynntur. Örorkutryggingarnar í sovét-lýðveldunum eru þannig, að þeir, sem eru í lægstu launaflokkum, fá full laun, et þeir verða örkumla, hinir fá hærra í hlutfalli við launin, en þó ekki full laun. Ellitryggingin hefir til skamms tíma verið þannig, að allir, sem komnir eru yfir 60 ára aldur, fá ellilaun, sem nema helmingi þeirra launa, sem viðkomandi hefir haft á beztu árum sínum, meðan hann var í fullu fjöri, en þó mega ellilaunin ekki fara niður fyrir ákveðið lágmark. Verkakonur og námumenn fá ellilaun frá 50 ára aldri og allir fá ellilaun þegar þeir eru komnir yfir aldurstakmarkið, og jafnt þó þeir séu enn fullfærir til vinnu. Nú er verið að endurbæta þessar tryggingar, og líður varla á löngu, áður en menn fá full laun í ellinni. Til samanburðar má geta þess, að hæstu ellilaun, sem hafa verið greidd í nokkru kapítalistísku landi, munn hafa verið í Austurríki fyrir valdatöku fasistanna, en þau voru 33,5–39,5% af meðallaunum. Þá má geta þess, að konur fá frí frá vinnu með fullum lannum 8 vikur fyrir barnsburð og 8 vikur eftir barnsburð, auk þess alla læknishjálp og vist á fæðingarstofnunum ókeypis. — Vel menntaðar þjóðir, sem hv. þm. S.- Þ. kallar, vilja ekki hafa svona tryggingar! Svona eru kjör fólksins í sovét-lýðveldunum, og það er sú rétta skýring á því, sem hv. þm. S.-Þ. þykir svo dularfullt, að sovétstjórnin skuli hafa setið í 20 ár þrátt fyrir alla spádóma hv. þm. S.-Þ. og hans nóta.

Að síðustu vil ég láta í ljós þá von mína, að lýðræðið verði haft í heiðri af Alþingi og að kröfur hinna 5200 Reykvíkinga og verkalýðsfélaganna verði teknar til greina á Alþingi.