26.10.1937
Efri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2096)

24. mál, alþýðutryggingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. síðasti ræðumaður fræddi okkur nokkuð um það paradísarástand, sem ríkti í Rússlandi að því er tryggingamálin snertir. Hann sagði meðal annars, að stjórnarskráin þar tryggði öllum mönnum pláss á hressingarhæli. Það kann að vera, að þetta standi í stjórnarskránni, en það geta hinsvegar verið skiptar skoðanir um framkvæmdirnar. Fróðum mönnum her saman um, að kjörverkamanna í Rússlandi, sem hafa þó batnað mikið hin síðari ár, séu mun lakari en hér í nálægum löndum og jafnvel á Íslandi. Þó skal ekki dregið úr þeim miklu framförum, sem orðið hafa í Rússlandi að undanförnu. En hv. þm. þarf ekki að fara til Rússlands til að finna hliðstæð dæmi í stjórnarskrám. Stjórnarskrá Íslands kveður svo á, að sá, sem ekki getur bjargað sér sjálfur, eigi rétt á, að hið opinbera geri það. En á þessum rétti eru hér að vísu allverulegar kvaðir, sem torvelda það, að menn geti notið hans, svo sem fátækraflutningar, réttindamissir ýmiskonar, þar sem börn eru slitin frá mæðrum o. s. frv. Munur á tryggingum og þessu er sá, að með tryggingunum eru menn leystir frá því að vera ölmusumenn. Þar er ákveðið í hvert sinn, hve mikið hver eigi að fá. Það er meginmunur.

Ég vil fagna þeim sinnaskiptum, sem orðið hafa hjá kommúnistum og sjálfstæðismönnum í afstöðu þeirra til l. um alþýðutryggingar síðan þau l. voru afgreidd. Ég hefi fyrir satt, að kommúnistar hafi áður reynt að gera l. óvinsæl með því að halda því á lofti, að þau legðu kvaðir á fátækt fólk. Hv. flm. sagði, að það gerði ekki l. óvinsæl að segja, að þau legðu kvaðir á fólkið, heldur hitt, að þau legðu raunverulega kvaðir á það. Ég vil spyrja: Hvaða kvaðir leggja l. á fólkið? Og ég svara: Engar. Heldur hv. þm., að fátæklingar hafi ekki verið veikir áður en l. gengu í gildi, eða að þeir hafi fengið lyf og læknishjálp ókeypis? Ég veit til þess, að margt fátækt heimili varð stundum að greiða sinn síðasta eyri fyrir þessa hluti og að margir fátæklingar gáfu alls ekki greitt læknishjálp og gátu því ekki fengið meinabót. Það er því að vinna gegn 1. að telja fólki trú um. að þau leggi auknar kvaðir á það. Ég veit að vísu að margur einstaklingur getur verið svo heppinn að sleppa ár og ár án þess að þurfa að greiða meira en 48 kr. í læknishjálp og sjúkdómskostnað. En það eru fá heimili, sem sleppa svo vel. Það er því rangt, að l. leggi nýjar kvaðir á fólk, heldur létta þau af því kvöðum. En ræða hv. þm. er sönnun þess, að kommúnistar hafa reynt að ófrægja 1., með því að telja fólki trú um, að þau væru ekki fengur, heldur byrði.

Hv. þm. sagði, að auka mætti ellilaunin með því að nota fé lífeyrissjóðs honum til uppbótar. En hann getur ekki úthlutað þessum 400 þús. kr. lífeyrissjóðs og jafnframt notað þær til uppbótar á ellilaunum. Þær hlytu að hverfa úr sjóðnum, og hann á eftir að sýna fram á leið til að fá það fé aftur. Þetta get ég látið nægja um síðari ræðu hv. þm.

En að því er snertir ræðu hv. 9. landsk., Magnúsar Guðmundssonar, þykir mér sem orðið hafi ánægjuleg sinnaskipti hjá honum síðan l. þessi voru samþ. Mikill hluti ræðu hv. þm. hneig í þá átt, að stefna bæri að því að gera l. sem fullkomnust, og margar af till. hans eru athugandi. Hitt er áreiðanlega of mikil góðgirni hjá honum, að ætla að útleggja orð Magnúsar Jónssonar 1929 þannig, að í þeim hafi ekki falizt annað en umhyggja fyrir fólkinu. En hann hélt því fram, að slík löggjöf demoraliseraði fólkið og að sósialistar vildu flækja allt í eina allsherjar tryggingaflækju. Hann var mótfallinn tryggingunum og greiddi atkv. á móti þáltill., og þykir mér fjarstæða að ætla, að hann hafi gert það af umhyggju fyrir fólkinu.

Hv. 1. landsk., Brynjólfur Bjarnason, gerir sér tíðrætt um lýðræðið. Menn skrafa oft mest um það, sem fjarst þeim liggur. Ég hefi ekki orðið þess var annarsstaðar en í blaðagreinum og ræðum upp á síðkastið, að kommúnistum sé annara um lýðræðið en öðrum mönnum. Hann heldur því fram, að 5200 menn standi að baki kröfum hans. Ég hefi nú átt nokkurn þátt í því að leita eftir skoðunum manna á tryggingal. Stj. allra sjúkrasamlaga hafa tilnefnt menn, sem áttu að koma saman á fundi og athuga þau atriði l., er endurskoðunar þyrftu við. Ég vil drepa á nokkur atriði úr niðurstöðum þessara fulltrúa.

1. atriðið, sem um var rætt, var að létta af sjúkrasamlögunum kostnaði af langvarandi sjúkdómum, nema þegar sjúkdómarnir koma í fyrsta sinn. Þetta þykir mér líka sjálfsagt, því að það léttir miklum þunga af tryggingunum. Þó álít ég rétt að taka berklaveikina hér undan, hví að það er mikill stuðningur í baráttunni gegn henni að hafa sjúkrasamlögin þar með. Þá var og rætt um að létta, en ekki torvelda skyldutryggingu gamalmenna, eins og hv. þm. vildi. Ennfremur var rætt um að afnema rétt lækna til að krefjast ¼ lækniskostnaðar af sjúklingum. Eini örðugleikinn á því máli eru samningarnir við læknana. Einnig var rætt um að aðskilja dagpeningatrygginguna og sjúkratrygginguna og að tilnefna oddamenn í stjórnir sjúkrasamlaganna, eins hv. þm. S.-Þ. gat um í ræðu sinni hér áðan, sem annars fór nokkuð á við og dreif. Loks um það, hvort einfaldur meiri hl. atkv. eigi að geta ráðið því, hvort stofna skuli sjúkrasamlög utan kaupstaðanna. Um þessi atriði held ég, að fulltrúarnir hafi allir verið á einu máli.

Að því er atvinnuleysistryggingarnar snertir, álít ég rétt að taka upp skattgjöld atvinnurekenda til þeirra, eins og tíðkast í nálægum löndum. Að slíkt sé fjárhagslega einskis virði, er eintómur misskilningur. Með 12 kr. frá hverjum manni, 12 kr. frá ríki og bæ og 12 kr. frá atvinnurekendum gæti slíkur sjóður orðið mikil hjálp á stuttum atvinnuleysistímabilum.

Hv. 9. landsk. taldi h um alþýðutryggingar mestu ómynd, þó að hann notaði ekki það orð. Hann benti á, að þrisvar væri búið að breyta þeim og að brtt. lægju fyrir, bæði í Ed. og Nd., og að í uppsiglingu væru brtt. frá stj. Hann taldi það einn ástæðuna til, að flokkur hans greiddi atkv. gegn l., að þeim hafi verið flaustrað gegnum Ed. Ég veit ekki, hvort hann talar hér fyrir fleiri en sjálfan sig. En ef l. hefðu ekki verið afgr. þá, hefði þeim seinkað um ár eða meira. Hinsvegar var óhjákvæmilegt um svona nýmæli, að l. þyrfti að breyta nokkuð að skömmum tíma liðnum. Ég lýsti yfir því í upphafi, að mér væri ljóst, að l. myndu þurfa endurskoðunar við. Sú endurskoðun, sem fram hefir farið, er því beint framhald af þessari yfirlýsingu minni.

Loks vil ég lýsa yfir þeirri skoðun minni, að l. um alþýðutryggingar eru ekki annað en þáttur í enn víðtækari aðgerðum. Með þeim er fólkinu skapaður réttur til að mynda með sér samstarf um þessi mál, og um leið er viðurkennd skylda hins opinbera til að leggja nokkuð af mörkum til þeirra hluta. Þetta er grunnur, sem ég tel, að ekki verði haggað við. Sönnun þessa hygg ég sinnaskipti þau, sem fram hafa farið hjá sjálfstæðismönnum og líka kommúnistum, sem ófrægt hafa l., en virðast nú vilja endurbæta þau, þótt með nokkuð óheppilegum hætti sé í sumum atriðum.