23.10.1937
Efri deild: 9. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (2114)

33. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Það er mjög mikið nauðsynjamál, sem þetta frv. fjallar um, og ég býst við, að það sé viðurkennt af öllum þm. En þá er bara spurningin: Er þetta, sem felst í þessu frv., hin rétta lausn málsins? Mér þykir mjög skorta á í grg. frv., að gerð sé grein fyrir því, hvað miklar tekjur þetta mundi gefa fyrir bæjar- og sveitarfélög, en mér telst svo til, að það mundi þýða tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, sem næmi um 2 millj. kr.; af fasteignaskattinum um það bil 400 þús. kr., af tekju- og eignarskattinum um 800 þús. kr. Hvað áfengistekjurnar mundu verða, veit ég ekki vel, en ég geri ráð fyrir, að þær mundu ekki verða minni en um 800 þús. kr. Og nú er mér spurn: Hvaðan á ríkissjóður að fá tekjur til þess að bæta sér þetta upp? Sjálfstæðismenn hafa hér á þingi kvartað yfir því, að greiðsluhalli væri á fjárl., og þeir hafa haldið langar ræður um það, að tollar og skattar væru of háir, en þó flytja þeir hverja till. á fætur annari um stór fjárframlög úr ríkissjóði til niðursuðuverksmiðja, hraðfrystihúsa o. fl., sem samtals mundu nema milljónum króna. Og þar að auki leggja flm. þessa frv. til, að afhentar séu um 2 millj. kr. af tekjum ríkissjóðs til bæjar- og sveitarfélaga. Hv. 1. flm. þessa frv. sagði að vísu, að það yrði að spara á öðrum sviðum til þess að jafna þetta upp, en ég veit ekki til, að frá sjálfstæðismönnum hafi ennþá komið fram nein slík sparnaðartill. Mér virðist því, að svona till. séu algerlega út í loftið. Hvaða hugsun felst að baki slíkrar till. sem þessarar? Mér skilst engin. Það er rétt eins og verið sé að gera sér leik að því að gera þingræðið að skrípaleik. Það er rétt, að það þarf að fá viðunandi lausn á þessu máli þegar á þessu þingi. Hv. þm. Hafnf. hefir réttilega sýnt fram á, hver nauðsyn Hafnarfirði er á því að fá aukna tekjustofna einhversstaðar frá. En þetta frv. er engin lausn á því máli, því að með því er einungis verið að taka úr einum vasanum til þess að láta í annan. Ég mun því greiða atkv. á móti því, að svona frv. sé vísað til 2. umr. og n. — Kommfl. mun strax á þessu þingi bera fram till., sem miða að því að bæta fjárhag sveitar- og bæjarfélaga, sumpart með því að leggja þeim til nýja tekjustofna og sumpart með því að draga úr útgjöldum þeirra með endurbótum á alþýðutryggingalögunum og framfærslulögunum, sem mundu verða mikil hjálp fyrir fátæk sveitar- og bæjarfélög. En þessar till. munn verða meintar alvarlega, í mótsetningu við þetta frv., sem hér liggur nú fyrir til umr.