23.10.1937
Efri deild: 9. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (2116)

33. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Guðmundsson:

Mér skilst, að ekki sé neinn ágreiningur um það, að full þörf sé á því að auka tekjur bæjar- og sveitarfélaga, og er þá aðeins um það að ræða, hvaða leiðir eigi að fara í þessu efni. Og vil ég í því sambandi minna á, að það hefir áður verið stungið upp á því, að láta bæjar- og sveitarfélögin — eða sérstaklega bæjarfélögin — fá tekjur af vörugjaldi, en það hefir ekki náð fram að ganga.

Hvað eiga umboðsmenn kaupstaðanna að gera, er þeir sjá, að ekki er von um neina tekjustofna með hinum gömlu aðferðum, og þeir eru því nyddir til að fara nýjar leiðir? Á að láta bæjunum blæða út, meðan rætt er hér á Alþingi um það, hvað eigi að gera? Hvaða gagn hafa bæjar- og sveitarfélögin af slíku karpi? Ég get því ekki láð umboðsmönnum kaupstaðanna, þó að þeir vilji fara nýjar leiðir. Ég get ekki tekið undir són kommúnista og framsóknarmanna hér. Þegar talað er um ábyrgðarleysi, sem það lýsi, að koma með frv. um tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga, án þess að koma um leið með frv. um tekjuöflun fyrir ríkissjóð, þá er það ekki annað en viðbára. Stjórnarflokkarnir komu líka fram með frv. um tryggingar án þess að benda á leiðir til að afla tekna til þeirra. Hvernig veit hv. 1. þm. Eyf., að í hug þeirra manna, sem standa að þessu frv., hafi ekki komið ráð til að afla teknanna? Ef það á að vera móðins hér, að ekki megi koma með till. til útgjalda án þess að benda á leiðir til tekjuöflunar um leið, þá er orðinn vandi að lifa. Sjálfstæðismenn eru auðvitað ekki svo grænir að halda, að ef 2 milljónir eru teknar frá ríkinu, þá þurfi ekki að fá tekjur í staðinn.

Ég gæti t. d. vel fellt mig við þá leið, sem stungið var upp á í frv. mínu og hv. 1. þm. Eyf. í hitteðfyrra. Hún náði ekki samþykki. En sú leið, sem stungið var upp á í fyrra, náði heldur ekki samþykki. Nú er stungið upp á 3. leiðinni, og blæs ekki berlega fyrir henni. En hvað þola bæjar- og sveitarfélögin þetta lengi? Málið verður ekki til lykta leitt, nema flokkarnir reyni að sveigja saman skoðanir sínar. Þó að hv. 1. landsk. minntist á leið til að minnka útgjöldin, er hægt að sýna fram á, að hún gerir ekki annað en auka þau. Það voru ekki annað en slagorð, sem komu frá honum. Það getur verið rétt hjá hv. aðalflm. þessa frv., að í frv. mínu og hv. 1. þm. Eyf. 1935 hafi ekki verið tekið tillit til þeirra sérstöku ástæðna, er hann færir fram. Ég vil hér skjóta fram þeirri spurningu, hvort ekki mundi hægt að fá samkomulag um þann grundvöll, sem það frv. lagði. En það frv., sem hér liggur fyrir, fullnægir ekki mér sem umboðsmanni fyrir sveitarfélag. Ég veit um heilan hrepp, þar sem allur tekjuskattur var fyrir nokkru 2 kr.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að það væri ekki nóg að tala um, að það þyrfti að spara; það yrði líka að benda á, hvað ætti að spara. Þá er nú langt gengið í kröfunum, ef flm. útgjaldaliða eiga alltaf að benda á, hvað í fjárl. eigi að spara í stað útgjaldanna. Ég hefi ekki heyrt slíkt áður á Alþingi. Ég veit, að nokkuð má spara, en mér dettur ekki í hug, að hægt sé að gera það ótakmarkað. Þó veit ég, að hægt er að bæta ríkissjóði þennan halla.

Þá sagði hv. 1. þm. Eyf., að ef fara ætti að auka álögurnar á þjóðinni með nýjum tollum, þá myndi Sjálfstfl. undir eins ráðast á „bölvaða stjórnina“ fyrir það. Það er vitanlega erfitt að fyrirgirða þennan ótta hv. þm. En þegar verið er að auka skattana, til þess að afla bæjar- og sveitarfélögum tekna, er ekki verið að leggja auknar álögur á þjóðina, heldur miklu fremur að færa féð milli vasa, ef svo mætti segja. Í okkar sameiginlega frv. 1935 var þannig ekki farið fram á aukin gjöld á þjóðina. (BSt: En fengum við ekki ádeilur fyrir það frv.?). Jú, en hvað heldur hv. þm., að hann geti framkvæmt í þessu lífi, ef hann ætlar alltaf að komast hjá því að fá ádeilur? Er ekki mannlegra að gera það, sem rétt er, og svara svo fyrir sig, er ádeilur koma fram?

Ég vil reyna að bera sættarorð á milli í þessu máli, því að ég sé, hver nauðsyn er á því að fá samþ. frv., sem miðar að því að bæta úr vandræðum bæjar- og sveitarfélaga. Ég myndi fyrir mitt leyti vera fús til að sveigja nokkuð til frá því, sem ég tel réttast, til þess að hægt væri að ná samkomulagi. Þegar bæjar- og sveitarfélögin fara að hrynja og komast á ríkissjóð, mun fara að verða þröngt fyrir dyrum ríkisins. Getur þá farið svo, að það verði að borga hærri fúlgur af sínum tekjum en nú er farið fram á. Nú þegar eru nokkur sveitarfélög orðin ómagar á ríkissjóði, en önnur standa í vanskilum og þau þriðju nota ólöglegan gjaldmiðil, til þess að útvega sér gjaldfrest. Ef þingið er þannig skipað, að ekki sé hægt að ná samkomulagi um jafnmikilsvert mál og þetta, þá er það sorglegt og mun hafa sorglegar afleiðingar.