27.10.1937
Efri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (2121)

33. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Frv. þetta, sem borið er fram af 3 þm. Sjálfstfl., verð ég að álíta, að sé borið fram fyrir flokksins hönd sem till. af flokksins hálfu til þess að bæta úr tekjuþörf bæjar- og sveitarfélaga. Hv. flm. leggja til, að 13,2% af tekjum ríkissjóðs séu látnar renna beint til sveitar- og bæjarfélaga. Ég býst við, að hv. flm., sem ekki reyna að gera neinar ráðstafanir til að bæta ríkissjóði tekjumissinn, ætlist samt til, að fjárl. verði tekjuhallalaus og að tekjurnar renni af sjálfu sér í ríkissjóð.

Þessum tilgangi, að ætla sér að bæta úr tekjuþörf verst stæðu bæjar- og sveitarfél. á þennan hátt, verður ekki náð með þessu frv. Ég vil segja, að frv. verkar þveröfugt við þann tilgang. Það hjálpar þeim, sem bezt eru stæðir, en kemur að engu gagni fyrir þá, sem verst eru stæðir og hjálpar þurfa. Skal ég nú sýna fram á þetta.

Flm. ætlast til þess, að allur fasteignaskatturinn, 400 þús. kr., renni í sjóði bæjar- og sveitarfél. Fasteignaskatturinn er skattur, sem þykir sjálfsagður. En það er erfitt að sjá, hvort hann í hverju tilfelli stendur í réttu hlutfalli við þörf sveitar- og bæjarfél. fyrir auknar tekjur. Breyttir atvinnuhættir geta oft og tíðum verkað svo, að hann geri það ekki. Ég skal samt líta burt frá þessu atriði, af því að í þessu efni hefir raskazt svo mjög hlutfallið á milli þarfarinnar og skattmatsins á fasteignunum á þessum óstöðugu tímum. — Þá á tekju- og eignarskatturinn, 1750000 kr., að renna að hálfu í bæjar- og sveitarsjóði. En nú er það svo, að því betri sem aðstaða bæjar- og sveitarfél. er til þess að jafna niður útsvörum, því meiri verður tekju- og eignarskatturinn, svo að þetta ákvæði verkar öfugt við tilganginn. Það hjálpar ekkert þeim sveitarfél., sem verst eru stödd og hjálpar þurfa, en það getur stuðlað að því, að vel stæð sveitarfél. geti lækkað útsvör sín. Þetta yrði því bara til þess að létta útsvör á mestu efnamönnum í bezt stæðu bæjar- og sveitarfélögunum í landinu.

Þá eiga 23% af brúttóverði áfengis á þeim stað, sem það er selt, að renna í viðkomandi bæjar- og sveitarsjóð. Mig undrar það stórlega, ef frúin, sem á sæti hér í hv. d., hv. 2. landsk. þm., er með þessu. Þá hefir hún ekki hugsað það niður í kjölinn. Eða hv. flm., hv. þm. Hafnf. Hann vill áreiðanlega ekki láta neyta mikils víns í landinu. En hver yrði afleiðingin, ef þetta ákvæði yrði samþ.? Ég býst við, að margir mundu vilja fá útsölustaði hjá sér til þess að ná í þessar tekjur. T. d. Eskfirðingar, sem þurfa 70 þús. kr. Það mundi e. t. v. af mörgum ekki vera álitið neitt gott verk að standa á móti því, að þar kæmi upp útsölustaður áfengis til þess að hjálpa bæjarfél. til að ná í þessar nauðsynlegu tekjur.

Eins og ég hefi áður drepið á, mundu ákvæði eins og þessi hjálpa til að létta byrðar þeirra, sem bezt eru stæðir, en ekki veita hinum neina hjálp, sem hjálpar þurfa. Sú upphæð, sem jafnað er niður í Rvík, nemur 4185000 kr. Hvað fengi Reykjavikurbær í sinn hlut? Jú, fasteignaskatturinn nemur 165000 kr., hálfur tekjuskatturinn 561225 kr. og hálfur eignarskatturinn 90202 kr. Þarna er komin rúml. 3/4 millj. Svo er 25% af seldu áfengi, en áfengi er selt hér fyrir 2½ millj. kr. Það yrði því um 1½ millj. kr. árl., sem Rvík fengi í auknar tekjur, en það eru 35% af þörfunum. Það væri heldur en ekki hægt að lækka útsvörin á heildsölunum og þeim, sem hæst hafa útsvörin, ef frumvarpið yrði að lögum. En hvað þá um hreppana? Lítill hreppur í N.-Múlasýslu, sem ég þekki vei til, fær 200 kr., en þarf að jafna niður á l. þús. kr. Sama er að segja um kauptúnahreppana. Ég hefi athugað einn þeirra. Hann fær í fasteignaskatt og tekju- og eignarskatt um 1700 kr., en þarf að jafna niður 50 þús. kr.

Frv. er byggt upp með það fyrir augum að hjálpa þeim bezt stæðu til að ná vinsælustu sköttunum frá ríkinu, en ríkissjóður á að sitja eftir með óvinsælustu skattana, sem koma jafnt niður á öllum, ríkum og fátækum, og þetta á að gera til þess að hjálpa til þess, að útsvör á efnafólki geti lækkað. Og það mundi óhjákvæmilega leiða til þess að fjölga útsölustöðum áfengis. Ég held því ekki, að frv. sé þess vert, að það sé sett til n. eða yfirleitt frekar um það rætt hér á Alþ.