27.10.1937
Efri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (2122)

33. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Hv. 1. þm. Eyf. sagði í fyrri ræðu sinni, að kommúnistar væru hingað á þing komnir til að gerast málsvarar þeirrar stefnu að gera kröfur til ríkissjóðs án þess að benda á leiðir til tekjuöflunar um leið. Þetta hefir við ekkert að styðjast. Við höfum engar kröfur gert nema benda á leiðir til að bæta ríkissjóði hallann. Annars var hv. 1. þm. Eyf. á sama máli og ég. Mér er sagt, að það hafi sannazt á hann í vor í kosningunum, að hann hafi tekið í hendina á kommúnista, og að kjósendur hans hefðu ekkert haft við það að athuga. Og ég veit, að þeir hafa ekkert við það að athuga núna, að hv. þm. er á sama máli og ég.

Hv. þm. Hafnf. kom hér með gagnásakanir til okkar kommúnista fyrir það, að við værum jafnábyrgðarlausir og sjálfstæðismenn, þar sem við færum fram á aukaútgjöld í sambandi við sjúkratryggingarnar, án þess að sýna fram á, hvernig afla ætti ríkissjóði tekna í staðinn. Þetta sýnir, að hv. þm. hefir alls ekki lesið frv. mitt. Í því er sýnt fram á, hvernig skuli afla tekna, og það bakar bæjarfél. ekki aukin útgjöld, heldur léttir það gjöldum af bæjarfélögunum.

Hv. 9. landsk. þm. reyndi að afsaka ábyrgðarleysi sitt og sagði, að fyrir Alþ. hefðu áður legið till. um þetta efni, sem þingið hefði ekki viljað fallast á. Þess vegna vildu flm. nú reyna að finna nýjar leiðir. Mér finnst nú ekki líklegra, að Alþ. vilji fallast á þetta frv. en hitt, sem var þó byggt á einhverju viti, enda þótt ég sé því ósammála.

Hv. þm. sagði, að Sjálfstfl. væri reiðubúinn að sjá ríkissjóði fyrir tekjustofnum. En þm. geta ekki fallizt á svona gífurleg fjárframlög nema gera sér ljóst, hvernig afla skuli tekna á móti. Hvernig ætla sjálfstæðismenn að afla tekna? Þeir hafa lýst sig andvíga nýjum tollum, nýjum sköttum. Þeir hafa lýst sig andvíga einkasölum. Hvað vilja þeir þá? Þeir koma fram með till., sem þeir meina ekkert með. En það eru ekki allir sjálfstæðismenn ánægðir með þetta. Ég veit, að hv. 9. landsk. þm. er ekki ánægður. Hann virðist vera af gamla skólanum. Enda viðurkenndi hann, að þetta hefði mjög litla þýðingu fyrir fátæk bæjar- og sveitarfélög. Eins og hv. 1. þm. N.-M. sýndi fram á, kemur þetta hátekjumönnum í Rvík til góða, enda er það fram borið vegna þeirra, en ekki vegna fátækra bæjarfélaga.

Hv. 9. landsk. þm. sagði, að mínar till. væru bara slagorð. Hann hlýtur þó að viðurkenna, að t. d. stóríbúðaskatturinn mundi gefa talsvert fé. Hv. 9. landsk. þm. og hv. þm. Hafnf. geta ekki haldið því fram, að þeir, sem hafa ráð á að búa í 10–20 herbergjum, hafi ekki ráð á að greiða svolítinn viðbótarskatt. Og þó ekki sé mikið af stóríbúðum í Hafnarfirði, þá kemur þetta bænum óbeinlínis til góða, þar sem auknar tekjur fyrir ríkissjóð gera það kleift að létta útgjöldum af bæjunum. Auk þess munum við leggja fram á þessu þingi frv. um breyt. á l. um framfærslu sjúkra manna og örkumla, þannig að létta af bæjar- og sveitarfélögunum þeim útgjöldum, sem þau hafa af berklasjúklingum og öðrum þeim, sem þjást af langvinnum sjúkdómum, en það er 1/5 hl. framfærslukostnaðar. Sama er að segja um aðrar þær brtt., sem við munum koma fram með við framfærslulögin, að þær miða að því að létta á fátækustu bæjar- og sveitarfélögunum. Allar þessar till. okkar eru vel rökstuddar, vegna þess, að við meinum þær alvarlega, í mótsetningu við þær till., sem hér hafa komið fram frá sjálfstæðismönnum.