27.10.1937
Efri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (2124)

33. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Bernharð Stefánsson:

Það er aðeins aths., sem ég hefi rétt til að gera, enda er það svo, að ég myndi hvort sem væri ekki hafa svarað hv. 9. landsk. í öllum þeim atriðum, sem hann fór út i, að þessu sinni, því þar var ýmislegt, sem ekki hefir borið á góma áður.

Mér þykir sannast á hv. þm., að gleymt er þegar gleypt er. Hann var í stjórn frá 1924–1927, og naut sú stjórn hjálpar Framsfl. að ýmsu leyti, einkanlega fjmrh. En nú heldur hv. þm. því fram, að Framsfl. hafi gert þessari stj. allt til bölvunar, sem hann gat.

Ég var á fundi með fjmrh. í þeirri stjórn, Jóni Þorlákssyni, vorið 1926, og hélt hann því þar fram, að fjárhagur ríkissjóðs hefði batnað, og um það hafði hann þau ummæli, að þessi viðreisn væri ekki Íhaldsflokknum, sem þá var, að þakka eingöngu „og jafnvel ekki sérstaklega“, heldur hefði Framsfl. átt sinn mikla þátt í því. Ég skrifaði þessi orð hjá mér og man þau síðan, af því að mér þótti þetta, sem það og var, drengilega mælt. Enda var það svo, að á þessum árum var Íhaldsfl. ekki stærri en það, að hann gat engu komið í gegn á þinginu af eigin rammleik. Hann hafði ekki meiri hl., og þær ráðstafanir, sem gerðar voru á þinginn, hlutu því að vera gerðar með samþykki Framsfl. Ég man, að á einu þessara þinga var það framsóknarmaður, sem hafði á hendi framsögu fyrir fjvn., og var hin bezta samvinna á milli hans og þáv. fjmrh. Ég hygg því, að hv. 9. landsk. ætti að lesa upp þingtíðindin o. fl. frá þessum árum, þá mundi hann ekki hafa svona orð.

Hv. þm. sagði, að mér væri nær að deila á hæstv. fjmrh. fyrir að hafa borið fram fjárlagafrv. með tekjuhalla. Það er nú svo með fjmrh., að hann getur með engu móti borið fram fjárlagafrv. með annari tekjuáætlun en þeirri, sem er í samræmi við gildandi skatta- og tollalög. Hann hugsar sér vitanlega að fá á þessu þingi samþ. lög um tekjuauka til að jafna þennan halla. Þar að auki ber fjmrh. yfirleitt ekki sömu ábyrgð á þessu fjárlagafrv. eins og venjulega, af því að þetta frv. er að miklu leyti byggt á till. fjvn. frá síðasta þingi. Og mér virðist, að úr því að tekjuhalli er á fjárlagafrv., þá megi ríkissjóður enn síður við því að láta af sínum tekjum á þriðju millj. kr. til sveitar- og bæjarfélaga. Ég held, að hv. þm. hefði ekki átt að nefna þetta. Honum má þykja ósanngjarnt að spyrja, hvar eigi að taka tekjurnar á móti þessari tekjurýrnun hjá ríkissjóði, en hann verður að segja um það hvað sem honum sýnist. Ég spyr enn um það, og mun halda því áfram meðan þetta frv. liggur hér fyrir.

Þá sagði hv. þm., að það væri ekki von, að flm. þessa frv. hefðu vitað, hvað ég hugsaði um þetta mál, enda engin ástæða til að bíða eftir því, að ég bæri fram eitthvert frv. um þetta efni. Nú lá það fyrir skjalfest, hvað við hv. 9. landsk. höfðum hugsað um þessi mál í félagi. Og það var vitanlegt, að þó að einhverjir gallar kunni að vera á frv. okkar frá 1936, þá var það skynsamlegra, ef flm. hefðu tekið það frv. og borið hér fram. Það var þó framkvæmanlegt.

Annars skal ég ekki misnota leyfi hæstv. forseta til að tala og ekki fara lengra út í þetta mál.