28.10.1937
Efri deild: 13. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (2129)

33. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Guðmundsson:

Hv. 1. þm. N.-M. kom eins og „þjófur úr heiðskíru lofti“ og benti á hinar tvær grímuklæddu „þungamiðjur“ í frv. Ég ætla ekki að svara honum miklu. Hann sagði, að hv. þm. Hafnf. vildi veita áfengisbölinu sem mest yfir þjóðina, en sá hv. þm. hefir alltaf verið álitinn mikill bindindismaður, og munu áhöld um, hvort hv. 1. þm. N.-M. sé mætari bindindismaður en hann.

En það, sem olli því, að ég bað um orðið, var það, að hv. þm. sagði, að við hefðum lýst því yfir, að þetta frv. væri flutt af hálfu Sjálfstfl., þar sem við hefðum sagt, að flokkurinn myndi sjá fyrir tekjum til að mæta útgjöldum þess. veit ekki þessi hv. þm., að allir flokkar hér á Alþ. eru ábyrgir fyrir því að afgreiða sómasamleg fjárlög, því ekkert mál gengur í gegnum þingið nema með samþykki meiri hl. þm., engir tveir eða þrír þm. geta ráðið afgreiðslu mála hér.

Það er auðskilið mál, að ef þetta frv. verður samþ., verður að afla nýrra tekna fyrir ríkissjóð. Viðvíkjandi ummælum hv. 1. þm. N.-M. um beinu skattana vil ég minna hv. þm. á, að útsvör eru beinn skattur, og það er það, sem skerðir hag bæjar- og sveitarfélaganna, að það er ekki hægt að innheimta með útsvörum þá upphæð, sem þarf. Þetta er öllum hér á Alþ. ljóst, nema þessum hv. þm. Það er nú svo komið, að það verður einmitt að draga úr þessum beinu sköttum. Það er raunar hægt að halda áfram á sömu braut og nú hefir verið gert, en afleiðingin yrði sú, að öll bæjar- og sveitarfélög færu á ríkissjóð. Og ætli það verði ekki einmitt að taka eitthvað af tekjum ríkissjóðs til þess að hjálpa þeim, — eða hvar ætlar hv. þm. að taka tekjur annarsstaðar handa þeim?