28.10.1937
Efri deild: 13. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (2130)

33. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Ég verð að segja nokkur orð. Þó ég álíti, að ég hafi áður gert fullkomna grein fyrir þessu frv., þá hefir hv. 1. þm. N.-M. gefið mér tilefni til þess að fara um það nokkrum orðum aftur. Mér leikur grunur á, að hann hafi ekki hlustað á framsöguræðu mína, heldur hafi hann verið að fá upplýsingar hjá sessunaut sínum, kommúnistanum, því mér fannst andinn í ræðu hans einmitt eins og búast mætti við frá þeim mönnum kommúnistum. Hann vildi halda tvennu fram. Í fyrsta lagi því, að þetta frv. væri flutt til þess að hjálpa þeim mönnum og þeim bæjar- og sveitarfélögum, sem bezt eru stæð. Ég þóttist hafa gert grein fyrir því í minni frumræðu, að Hafnarfjarðarbær er alls ekki vei stæður bær, og í öðru lagi, að það væri ekki vel stætt fólk, sem byggir hann, og bar fram sem dæmi um það, hvernig ástatt er í Hafnarfirði, að við útsvarsálagningu þar þetta ár, þegar meiri hl. bæjarstj. er, sem kunnugt er, skipaður jafnaðarmönnum, og meiri hl. niðurjöfnunarnefndar sömuleiðis skipaður jafnaðarmönnum, en þeir láta einmitt þá bera útsvörin, sem breiðust hafa bökin, þeir treystu sér ekki til að leggja útsvörin öðruvísi á en það, að t. d. togarafélagi, sem hefir fengið eftirgefin 80% af skuldum sínum við bæjarsjóð, er ætlað á sama ári og það fær þessa eftirgjöf að bera 7 þúsund kr. útsvar. Þetta sýnir, að niðurjöfnunarnefnd er í vandræðum með, hvernig hún á að jafna niður; hún er búin að setja svo mikið á þá, sem breiðust hafa bökin, að hún verður að leggja afganginn á fátæk fyrirtæki. Enda er svo komið, að ekki er hægt að innheimta útsvörin, og verður að gefa eftir svo mikið af þeim, að stórkostlegur tekjuhalli verður á fjárhagsáætlun bæjarins. Ég álit, að hv. 1. þm. N.-M. geti tekið það sem fullkomin rök fyrir því, að ekki er hægt að leggja meira á bæjarbúa í Hafnarfirði, að bæjarstjórnarmeirihl. hefir ekki treyst sér til að leggja meira á þá, sem breiðust hafa bökin, en verður að leggja svo gífurlega á aðra, sem þarna er frá skýrt. Ég vísa því algerlega frá mér, að frv. fari í þá átt að hjálpa þeim bæjarfélögum, sem bezt eru stæð og þeim, sem efnaðastir eru. Hv. 1. þm. N.-M. veit, að vandræði eru með útsvarsálagningu einmitt í Hafnarfirði.

Þá minntist hann á 3. gr. frv., þar sem talað er um, að tekjur af áfengissölu gangi í bæjarsjóð. Hann áleit, að ef þessi gr. yrði að lögum eins og hún er — reyndar var hann viss um, að svo yrði aldrei, en ég veit ekki, hvernig hv. 1. þm. N.-M. veit, hvaða frv. verða samþ. og hver ekki —, þá myndi þetta ákvæði verða til þess, að önnur bæjar- og sveitarfélög myndu heimta áfengisverzlun hjá sér, og að við flm. værum verkfæri til að veita áfengisflóði yfir landið. Ég ætla ekki að fara að metast við hv. l. þm. N.-M., hvor okkur sé bindindissinnaðri; ég þykist hafa sýnt með framkomu minni, að ég vil vinna á móti áfenginu, en úr því að hvorugur okkar getur ráðið við það, að áfengi er í landinu, eða við áfengisnautn, þá er það ekki nema siðferðisleg skylda ríkissjóðs, að þeir bæir, sem eru svo óhamingjusamir að hafa áfengisútsölu á staðnum, fái einhverjar sárabætur fyrir þau útgjöld, sem eru því samfara. En ég er viss um, að flestir staðir landsins myndu hugsa sig tvisvar um áður en þeir æsktu eftir áfengisútsölu hjá sér, og ég er viss um, að flestir menn myndu afneita því algerlega að fá til sín áfengisútsölu. Þó hreppsfélög fengju lítið eitt af tekjum, mundu þau ekki taka upp þetta ráð til tekjuöflunar. Ég efast ekki um, að hv. 1. þm. N.-M. álítur ríkissjóði nauðsynlegt að hafa þær tekjur, sem eru af áfengissölunni, og að hafa opnar útsölur í stærstu kaupstöðum landsins, þar á meðal Hafnarfirði, en þá eiga bæjarfélögin heimtingu á að fá eitthvað af þessum tekjum. Það er einmitt gerð grein fyrir því í grg. fyrir þessari gr., hvað það skapar þeim mikil bein og óbein útgjöld, bæði hvað lögreglu snertir og fátækraframfæri, ásamt mörgu öðru, sem þar kemur til greina, og ýmiskonar bölvun, sem ekki verður metin til peninga. Það er því ekki vegna þess, að við álítum æskilegt að fjölga útsölustöðum á áfengi, að við berum þetta fram, heldur af því, að við álítum, að Alþ. eða ríkisstj. beri skylda til þess að veita þeim bæjum einhverja uppbót á þeim útgjöldum, sem þau verða fyrir vegna áfengissölunnar, og ég er viss um, að hv. 1. þm. N.-M. sér, þegar hann athugar málið í þessu ljósi, hvað fyrir okkur vakir með því að fara út á þessa braut. Öðru hirði ég ekki um að andmæla af ræðu hv. þm. Hann sagði, að vel stæð bæjarfélög mundu fá á þennan hátt um 33% af þeim tekjum, sem þau þyrftu að fá. Tekjur Hafnarfjarðarbæjar af þessu myndu aldrei verða meiri en ca. 300 þús., eða einn fimmti hluti af nauðsynlegum tekjum, eða um 20%, svo það er útilokað, að Hafnarfjörður fengi þarna 33% af þeim tekjum, sem hann þarf. Annars sé ég ekki ástæðu til að andmæla þessu frekar.

Það eru orðnar miklar umr. um þetta mál. Eins og ég minntist á í frumræðu minni, er það borið fram af nauðsyninni til þess, að Alþ. geri tilraun til að létta undir með kaupstöðum og smákauptúnum landsins vegna þess, hve erfiðlega hefir gengið fyrir þeim að standa straum af ýmsum útgjöldum, sem hafa aukizt mjög við ýms lög, sem hafa verið samþ. undanfarið. Vil ég þar benda á framfærslulögin og minna á, að Hafnarfjörður fékk áður 35 þús. kr. greiddar frá öðrum sveitarfélögum, í stað þess að hann fær ekkert nú; svo eru tryggingalögin, bæði sjúkra- og ellitryggingin, sem hefir skapað Hafnarfirði 40 þús. kr. útgjöld án þess að hægt sé að segja, að nokkrar beinar tekjur hafi komið í staðinn í bæjarsjóð. Þarna eru komnar 75 þús. kr., svo mér finnst ekki til mikils mælzt, þó Hafnarfjörður fengi ca. 65 þús. kr. tekjur í staðinn, og er Alþ. skylt að sinna þessu máli. Öðru, sem komið hefir fram, hafa þeir svarað hv. 1. þm. Reykv. og hv. 9. landsk., og sé ég ekki ástæðu til að fara út í það nánar.