28.10.1937
Efri deild: 13. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (2144)

51. mál, uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég get byrjað líkt á þessu máli og því næsta á undan (frv. um drykkjumannahæli). Það er ekki í fyrsta skipti sem ég stend hér á Alþingi með frv. þetta. Á síðasta þingi flutti ég frv., sem var samhljóða þessu, svo að það er óþarft að fara mörgum orðum um málið að þessu sinni. En ég veit, að það er mörgum áhyggjuefni, hve tala þeirra barna fer vaxandi, sem talað er um í 1. gr. frv., og barnaverndarnefnd, sem starfar að þessum málum, rekur sig oft á þá vöntun, sem á sér stað á hæfilegum stöðum, þar sem hægt sé að ráðstafa þessum börnum, og þeim Íslendingum, sem fara utan til að kynna sér barnaverndarstarfsemi annara þjóða, finnst æðiömurlegt ástandið í þessum efnum hér heima og erfitt að starfa, þegar starfstækin eru jafnfá og lítil eins og þau eru hér hjá okkur, því að fyrir vangæf börn er hér enginn samastaður til nema heimili einstaklinga, sem eru vitanlega misjöfn, og í mörgum tilfellum er eina ráðið að koma börnunum fyrir á sveitaheimilum. Þetta gefst oft vel, en stundum líka illa. Afleiðingarnar eru og slíkar, að ég tel óhjákvæmilegt að stofna heimili eða verustað, þar sem þessum börnum væri séð fyrir uppeldi undir umsjá sérfróðra manna. Við Íslendingar erum eftirbátar annara þjóða í þessu efni eins og svo mörgum öðrum, og það er býsna sárt fyrir þá, sem áhuga hafa fyrir málefnum barnanna, að verða að játa það fyrir sjálfum sér og öðrum, hve ófullnægjandi sú hjálp er, sem þjóð vor lætur í té börnum þessum til handa, einmitt á sama tíma og allar menntaþjóðir heims keppast við að koma upp fullkomnum uppeldisheimilum fyrir hin vangæfu börn sín. Engin slík stofnun er til hér á landi. Við verðum nú í dag að nota gamla lagið, að koma börnunum fyrir hjá hinum og þessum eftir því sem bezt gengur, stundum með raunalegum afleiðingum, sem ýms dæmi sanna. Vangæf börn hafa alltaf verið til, en meðferðin á þeim hefir oft farið í hreinustu handaskolum, og það mætti benda á menn, sem nú eru komnir til ára sinna, sem myndu vafalaust hafa siglt framhjá mörgu vandræðaskeri, sem þeir strönduðu á, ef þeir hefðu verið teknir réttum tökum, þegar þeir voru börn, og þeim séð fyrir góðu uppeldi. Ég gæti nefnt mörg dæmi um þetta. Í huga mínum er t. d. mynd af ungum dreng, sem var svo efnilegur og gáfaður, að kennari hans sagði, að það væri gaman að kenna honum hvað sem var, þó hann væri sérstaklega hneigður fyrir náttúrufræði og stærðfræði. Allt, sem laut að vélfræði, lá drengnum í augum uppi. En svo var drengurinn baldinn, að á heimili hans réði enginn maður við hann. Hann varð fljótt ofurefli foreldra sinna, faðir hans gat lítil afskipti af honum haft, og móðir hans hafði mörgum innanhússtörfum að sinna, í stórum barnahóp. Faðir hans var mestan ársins hring úti á sjó, og uppeldi drengsins varð mjög ábótavant. Hann ól aldur sinn með jafnöldrum sínum á götunni, og hin góða greind hans kom ekki að verulegum notum, af því að hann hafði ekki hlotið nægilega gott uppeldi á heimili sínu. Kennari hans varð síðar að horfa upp á það, að hann var lokaður inni í fangelsi árum saman vegna síendurtekins þjófnaðar. Kennarinn hefir sagt mér, að ef þessi gáfaði drengur hefði strax verið tekinn föstum tökum og settur á stofnun undir eftirliti sérfróðra manna, þegar fór að bera á óknyttum hans og strákapörum, þá hefði hann aldrei komizt í tölu glæpamanna. Hvað kostar nú annað eins og þetta af fé, af raun og sársauka? Það verður ekki með tölum talið frekar en annað af þessu tægi, en hitt fullyrði ég, að Íslendingar hafa ekki efni á, að efnilegir unglingar fari svona illa, og þó að þeir fari kannske ekki margir alveg svona illa, þá getur ólánið og mæðan orðið nógu átakanlegt fyrir því. Í grg. þessa frv. sjáum við, hvað reynslan í þessu efni segir. Við skulum mæta þessum raunveruleika með djörfung og karlmennsku og mæta þessu á þann heppilegasta hátt, sem hægt er, með því að sjá börnunum fyrir hæfilegri stofnun. Ég hefi átt tal um þetta við marga menn og konur, og ég hefi staðið í bréfaskiptum við ýmsar konur landsins, svo að ég stend ekki ein að þessu málefni, heldur stendur vilji almennings á bak við mig. Áhugasamir menn, sem bezt vita í uppeldismálum og hafa kynnt sér þessi mál erlendis, eru mér samdóma um þetta alvörumál, og ég hygg, að hv. þm. í Ed. gerðu ekki annað réttara en ljá því fylgi sitt og taka það til rækilegrar athugunar og greiða gang þess, eftir því sem unnt er. Aðrar þjóðir horfa ekki í kostnaðinn, þegar þessi mál eru annarsvegar. Ég vil ekki bera okkur saman við aðrar þjóðir að því er snertir þetta eða annað, en í einu vil ég þó bera okkur saman við aðrar þjóðir, og það er það, að við hljótum að viðurkenna, að börnin eru framtíð þjóðanna, þau eru bezta eign hverrar þjóðar, dýrmætasta eignin, og okkur er skylt að gera fyrir þau það, sem mögulegt er. Barnaverndarlög annara þjóða eru miklu eldri en okkar. Ég tek það fram til fróðleiks, að barnaverndarlög Svía voru sett árið 1902 og endurskoðuð 1924, og þá voru einmitt sett í lögin sérstök fyrirmæli um meðferð vangæfra barna. Nú er það tekið fram í lögum Svía, að slíkum börnum skuli ráðstafað á sérstakar stofnanir undir sérstakri stjórn manna, sem eru viðurkenndir að áhuga á uppeldismálum, nákvæmni og dugnaði.

Símon Ágústsson uppeldisfræðingur hefir sagt við mig út af þessu frv., að honum hefði þótt heppilegra að binda aldurinn við 18 ár, en ekki 16. Því er til að svara, að í öðrum löndum er yfirleitt miðað við 16 ára aldur að því er barnaverndarmálefni snertir, og svo er líka hitt, að ég veit ekki, hversu heppilegt það væri að hafa stálpaða drengi innan um yngri drengi, og ennfremur tel ég, að úr því að 16 ára drengir eru búnir að venjast bæði góðum siðum og læra eitthvað meira en þeir hefðu gert, ef enginn hefði skipt sér af þeim, þá sé hægt að útvega þessum drengjum góðan dvalarstað á góðum heimilum eftir dvöl á uppeldisstofnun, því að sú dvöl ætti að vera trygging fyrir því, að drengirnir væru orðnir það vel uppaldir, að það væri hægt að hafa þá á hvaða heimili sem væri. Ég tel persónulega, að það sé nauðsynlegt að færa aldurstakmarkið upp, þegar um þá unglinga er að ræða, sem barnaverndarnefnd á að hafa afskipti af. Í barnaverndarlögunum er gert ráð fyrir, að nefndin hafi börnin undir hendi til 16 ára aldurs, en ég held, að heppilegast væri, og barnaverndarnefnd hefir látið í ljós það álit, að það veitti ekki af, að þetta eftirlit næði til 18 ára aldurs. Við vitum, að aldurinn frá 16–18 ára eru hættulegustu árin að mörgu leyti, og oft er 16 ára barn að mörgu leyti ekki betur sett en 18 ára unglingur. Hjá frændþjóðum okkar eru slík börn af mjög mismunandi tægi. Ég hefi sjálf átt þess kost að sjá mörg af þeim. Okkur mundi ekki lítast á sum þeirra í verstu hverfum stórborganna, en undir sérstakri og alúðlegri umsjá ágæts fólks er aðdáanlegt að sjá, hversu þessi vesalings börn geta orðið myndarlegar og mætar manneskjur. Af þessu hlýtur vitanlega að leiða kostnað, en við megum ekki horfa í hann. Við höfum sízt af öllu ráð á því að gera ekkert fyrir börnin, sem þurfa mestrar hjálpar við. Þetta mál verður að athuga rækilega áður en verr fer en þegar er orðið. Það er oft talað um fátækt Íslendinga, og satt er það að vísu, að við erum ekki auðug að sama skapi og sumar aðrar þjóðir, en undarlegt má það þó heita, ef við höfum frekar efni á því að drekka áfengi og reykja tóbak fyrir milljónir króna á ári hverju heldur en til þess að búa sæmilega að vangæfum börnum þjóðarinnar, og þann veg forða þjóðinni frá alls kyns eymd og vandræðum. Hin knýjandi neyð barnanna hrópar á hjálp, óumflýjanleg nauðsyn er fyrir hendi. Horfum ekki lengur aðgerðarlaus á það, að æskulýður vor hrynji til grunna.

Ég vil svo leggja til, að málinu verði, að lokinni umr., vísað til menntmn.