09.11.1937
Efri deild: 23. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (2152)

72. mál, mæðiveikin

*Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti! Innihald þessa frv. er í stuttu máli þetta. Í fyrsta lagi: Opinberar lánsstofnanir mega ekki segja upp lánum, þó að veðin fyrir þeim rýrni af völdum mæðiveikinnar, heldur mega þessar lánsstofnanir afskrifa skuldirnar eins og verðrýrnuninni nemur. Í öðru lagi: Andvirði fjár, sem slátrað er vegna mæðiveikinnar, má ekki taka upp í skuldir, heldur skal aðeins hafa eftirlit með því, að það sé notað til þess að endurnýja bústofninn. Í þriðja lagi: Þeir bændur, sem verst eru staddir vegna veikinnar, skulu fá greiðslufrest um óákveðinn tíma og uppgjöf vaxta. Og í fjórða lagi skal ríkisstj. gera þessum lánsstofnunum það kleift að framfylgja ákvæðum þessa frv., ef það verður að lögum.

Ég býst við, að hv. þdm. séu sammála um það, að allt þetta séu nauðsynlegar ráðstafanir og beinlínis óhjákvæmilegar. Og þá er að athuga. hvaða kostnað þær mundu hafa í för með sér fyrir ríkissjóð. Er hægt að gera sér nokkra grein fyrir því með því að athuga skuldir bænda við Búnaðarbankann á mæðiveikisvæðinu, þ. e. í eftirtöldum sýslum: Árnessýslu, Borgarfjarðarsýslu, Dalasýslu, Austur-Húnavatnssýslu, Vestur-Húnavatnssýslu, Mýrasýslu og Strandasýslu. Á þessu svæði eru föst lán í Búnaðarbanka Íslands rúmar 4 millj. 600 þús. kr. Og af þessu verða árgjöld rúmlega 330 þús. kr. og vextir um 230 þús. kr. Af þessu má svo gera sér nokkuð ljóst, hvað kostnaður af þessu gæti farið hæst. Í sumum af þessum sýslum er mæðiveikin aðeins rétt í byrjun, og mundi þess vegna sennilega ekki leggjast mjög mikill kostnaður á ríkissjóð af þessu, nema í nokkrum þessara sýslna, þar sem mæðiveikin fer mest yfir og hefir gert mest tjón.

Þetta frv. er að mér virðist í samræmi við þær till., sem samþ. hafa verið á þeim fundum, sem fulltrúar bænda á þessum svæðum héldu í Fornahvammi 29. okt. Og ég hefi fengið mjög mörg tilmæli frá bændum af þessum svæðum um að gera mitt til þess að sjá um, að vilji bænda kæmi skýrt fram á Alþingi í þessum efnum. Og ég hefi þess vegna talið mér skylt að bera þetta frv. fram. Ég þykist vita, að landbn. sitji á rökstólum um þetta mál og sé að undirbúa löggjöf um þetta efni, ásamt öðrum ráðstöfunum, sem nauðsynlegt er að gera til þess að hjálpa bændum á þessum svæðum. Ég vildi því með þessu frv. leggja þar orð í belg. Og ég vona, að hv. nefnd geri á því þær einar breyt., sem eru til bóta frá sjónarmiði bænda.