13.11.1937
Efri deild: 26. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (2159)

83. mál, síldarverksmiðja á Sauðárkróki

*Flm. (Magnús Guðmundsson):

Ástæðan til þess, að ég hefi leyft mér að flytja frv. þetta, er sú, að Sauðárkrókur er orðinn með stærstu kauptúnum landsins, en þar er lítið um atvinnu, og því knýjandi nauðsyn að hrinda þar einhverjum framkvæmdum af stað, sem íbúar kauptúnsins geta haft atvinnu af. Þó er það svo, að ég hefði ekki flutt frv., ef ég hefði ekki jafnframt verið sannfærður um, að síldarverksmiðja gæti vel borið sig þarna. Það er alkunna, að síld er oft mikil á Skagafirði og enda þótt hún sé veidd út af Skaga, sem oft er, þá er ekki langt til Sauðárkróks. Það er því gefinn hlutur, að síldarverksmiðja getur vei borið sig þarna. Þegar nú þetta tvennt fer saman, að hægt er að veita fólkinu atvinnu, samhliða því að fyrirtækið getur borið sig fjárhagslega, þá virðist réttara og betra að fara þessa leið heldur en veita þangað atvinnubótafé, sem mjög lítið er hægt að fá arðberandi fyrir.

Ég hefi tekið það fram í frv., að svo fremi, sem félag einstakra manna hafi ekki fyrir 1. apríl 1938 fengið leyfi til þess að reisa þarna síldarbræðsluverksmiðju, þá reisi ríkið hana.

Hvað stærð verksmiðjunnar snertir, þá hefi ég sett ákvæði um, að hún skuli vinna úr 2000 málum á sólarhring, því að reynslan er búin að sýna það, að litlar verksmiðjur bera sig jafnan verr en þær, sem stærri eru, og eru dýrari í öllum rekstri.