02.12.1937
Efri deild: 40. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (2176)

123. mál, síldarverksmiðjan á Húsavík

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég þarf ekki að flytja ýtarlega ræðu um þetta mál, vegna þess að það mun væntanlega fylgja öðru frv. skyldu, sem liggur fyrir hv. deild. Ég ætla aðeins að taka fram nú, að þeir, sem standa að þessari nýbyggðu verksmiðju á Húsavík, hafa fengið vissu fyrir því, að þó að staðhættir þar, sem verksmiðjan stendur, við aðalbryggjuna, séu ekki mjög hentugir, með því að þar er nokkuð þröngt, þá mun samt mega stækka verksmiðjuna töluvert mikið. Og þeir hafa álitið rétt — ekki sízt út af frv. um stækkun verksmiðjunnar á Raufarhöfn — að leggja fyrir deildina tilboð sitt, ef ríkinu sýndist þörf að stækka verksmiðju fyrir Norðurl. Ef þetta frv. nær nú ekki fram að ganga, og þá sennilega ekki önnur frv. af sama lægi, þá hefi ég hugsað mér að bera fram seinna á þinginu þáltill. í þessari hv. deild, þar sem mælzt sé til, að Húsavíkurverksmiðjan fái að njóta samstarfs við ríkisverksm. að einhverju leyti um sölu og mannahald og því um líkt. En það er náttúrlega hjá þeim, sem standa að þessum litlu verksmiðjum, nokkur uggur um það, að þær geti varla notið sín í samkeppni við hinar stærri. Og bæði þetta frv. og eins það, sem ég kynni að flytja síðar á þinginu í þessa átt, er sprottið af ósk eftir samstarfi við stærri verksmiðjurnar. Ég vildi svo óska, að málinu verði að umr. lokinni vísað til sjútvn. og 2. umr.