06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (2180)

127. mál, framfærslulög

*Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti ! Það stendur í grg. þessa frv., að hér sé um bráðabirgðabreyt. á framfærslul. að ræða, sem á að gilda þangað til alþýðutryggingar eru komnar í það sæmilegt horf, að fátækraframfæri er orðið óþarft. En á því getur orðið löng bið, svo það er vissulega hin fyllsta þörf að endurskoða framfærslul.

Í raun og veru er hér um að ræða mjög nauðsynlega og gagngerða breyt. á framfærslul., og hefir við samningu frv. verið reynt að styðjast við þá reynslu, sem fengizt hefir í þessum efnum bæði hér í Reykjavík og annarsstaðar, bæði till. styrkþega og þeirra, sem kunnugastir eru framfærslumálunum, svo sem mæðrastyrksn., framfærslun. og annað þaulkunnugt fólk. Einnig hefir verið stuðzt við frv., sem flutt var hér á Alþingi 1932 af 10. landsk., og annað fra-. flutt af tveimur Alþflþm. á þinginu í fyrra. Allt það, sem hér hefir verið nefnt, hefir verið haft til hliðsjónar við samningu frv. Allir þessir hlutir hafa verið þaulræddir á undanförnum árum. En jafnvel þó þetta frv. sé allumfangsmikið, þá er mér það ljóst, að það er engan veginn tæmandi; framfærslumálin eru svo umfangsmikil og stöðugt er ný og ný reynsla að koma fram á því sviði, sem hefir í för með sér þörf breytinga.

Auk þeirra aðalbreyt. á framfærslulöggjöfinni, sem felast í frv., eru þar ýmsar smærri breyt., sem sumar eru þó ekki eins smáar og þær sýnast í fljótu bragði. En í þessu máli mínu mun ég hulda mér við aðalatriðin.

Veigamesta breytingin er sú, að gera landið að einu framfærsluhéraði. Um það þarf raunar ekki að fjölyrða, hve mikla þýðingu það hefir fyrir styrkþegana, að allur dulbúinn sveitarflutningur og togstreita milli sveitarfélaga verði útilokuð. Framfærslukostnaði á samkv. þessu frv. að jafna niður á sama hátt og gert var ráð fyrir í frv. 10. landsk. 1932, að hálfu leyti eftir samanlögðu skattmati fasteigna í hverri sveit, samanborið við samanlagt skattmat á öllu landinu, og að hálfu leyti eftir samanlagðri fjárhæð skuldlausra eigna og tekna af eign og atvinnu í hverri sveit.

Það er kunnugt, að aðalútgjaldaliður bæjar- og sveitarfélaga er fátækraframfærið. En vegna mismunandi eigna og tekna hjá bæjar- og sveitarfélögunum hvílir þessi aðalútgjaldaliður mjög mismunandi þungt á hinum ýmsu félögum. Með brtt. þessa frv. er lagt til, að öllum framfærslukostnaði verði jafnað á bæjar- og sveitarfélögin eftir sömu reglu og jafnað er á einstaklingana innan hvers bæjar- eða sveitarfélags, eftir efnum og ástæðum. Með þessari breyt. er þá einnig niður fallin sú nauðsyn, að veita fé úr ríkissjóði til að jafna fátækraframfærið í landinu. Ég held því, að erfitt sé að færa fram rök gegn þessum brtt.

Sem aðalrökum gegn þessu fyrirkomulagi hefir því verið haldið fram, að minni sparnaður yrði í styrkveitingum, ef þetta yrði að l. Þessi rök sýna bezt stéttasamsetningu Alþingis, þar sem á það eitt er litið, hvernig hægt er að klípa styrkina sem mest við neglur. Fyrir mér vakir, að sem mestrar mannúðar sé gætt í sambandi við fátækraframfærið, og sömuleiðis auðvitað, að það hafi sem minnstan kostnað í för með sér, þegar búið er að tryggja góða meðferð styrkþeganna.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að þar til skipuð nefnd semji í byrjun hvers árs skrá um hæfilegan framfærslukostnað í hinum ýmsu héruðum landsins, og skal allur framfærslustyrkur miðaður við gjaldskrá þessa. Þetta tel ég annað höfuðatriði frv. Hér er um að ræða allt annað snið en er á núgildandi framfærslulöggjöf. Hingað til hefir framfærslustyrkur verið skoðaður sem ölmusa, sótt til framfærsluráða eða sveitarstjórna. Slíkt sjónarmið er aðeins til að drepa niður sjálfsvirðingu og sjálfstraust styrkþeganna og hefir gert þeim erfitt að vinna sig aftur upp í efnalegt sjálfstæði. Jafnframt hefir þetta fyrirkomulag skapað misrétti á milli styrkþeganna, þar sem einn hefir verið dreginn niður meðan öðrum tókst að svæla til sín meiri styrk en rétt var. Með þessum till. er ætlazt til, að styrkurinn verði réttur styrkþegans. Það er stefnt í þá átt, að fátækraframfærið verði einn þáttur þjóðfélagstrygginganna.

Þá er það stórt atriði í þessum till., að ríkið greiði fátækraframfærslustyrkinn. Þetta er gömul krafa og sanngjörn, þar sem ríkið á hinn bóginn losnar við að greiða til jöfnunarsjóðs. Einnig er það þýðingarmikið ákvæði, að styrkurinn skal greiddur í peningum. Er þetta réttarbót á borð við það, að verkamenn fá laun sín greidd þannig. Þegar öllu er á botninn hvolft, mundi þetta beinlínis verða til sparnaðar, því sumir menn hafa gert sér útvegun á vörum hamla styrkþegum að féþúfu. Þegar þeir hinsvegar annast kaup sín sjálfir, eru líkur til, að meiri áherzla verði lögð á hagkvæm kaup.

Þá er í frv. lagt til, að verklýðsfélög eða fulltrúaráð þeirra eigi fulltrúa í framfærslunefndum. Er það gert til þess, að nefndirnar hafi betri skilning á kjörum fólksins en ella.

Þá skal ég ennfremur minnast á nokkrar fleiri kjarabætur. Framfærslustyrkur skal ekki vera endurkræfur, ef hann er veittur vegna veikinda fyrirvinnu heimilis. Sömuleiðis er bæjarstjórnum og hreppsnefndum skylt að ákveða eftir till. framfærslun. innan þriggja mánaða, hvort framfærslustyrkur skuli endurkræfur eða ekki.

Þá eiga sveitarstjórnir og framfærslunefndir að gera sér far um að útvega styrkþegum atvinnu. Styrkþega er þó því aðeins skylt að taka við þeirri atvinnu, að hún sé við hans hæfi og verði honum til virkilegrar hjálpar. Ef heimilisfaðir vanrækir sitt heimili sakir óreglu, er skylt að afhenda konu hans styrkinn. — Þá eru ákvæði um bráðabirgðahjálp samkv. úrskurði. Ennfremur ákvæði um sómasamlegt uppeldi munaðarlausra barna. Loks eru felld niður úr gildandi l. ákvæði um refsingar á styrkþegum, þar sem hér er gengið út frá því, að fátækraframfærslan verði ein tegund þjóðfélagstrygginga, þar sem styrkþegar njóti sama réttar og aðrir menn. Við, sem stöndum að þessu frv., álítum að í framfærslul. eigi engin sérstök refsiákvæði heima. Aftur á móti gæti verið nauðsynlegt að breyta öðrum gildandi l. til samræmis við þessa breyt. á framfærslul., svo sem sifjalögunum.

Eins og ég sagði í byrjun ræðu minnar, stefnir frv. í þá átt, að gera meðferð styrkþeganna mannúðlegri. Ég álít, að allt tal um sparnað í þessu efni, þar sem meint er að klípa framfærslustyrki sem mest við neglur, sé bæði ómannúðlegt og óréttlátt, og vafasamur sparnaður í því fólginn að sökkva mönnum í eymd og vesaldóm með því að láta þá búa við þröngan kost í slæmum húsakynnum. Slík meðferð er til niðurdreps fyrir þjóðfélagið, með því er verið að sóa hinni dýrmætu starfsorku þjóðfélagsins. En verst er, að þar, sem styrkþegar eiga við mjög slæm skilyrði að búa, er eyðslan hvað mest. T. d. er það kunnugt, að styrkþegar í Reykjavík eru ekki öfundsverðir af þeim húsakynnum, er þeir hafa að búa við; samt greiðir bærinn á ári 400 þús. kr. í húsaleigu, sem væri nægileg upphæð til að standa straum af 4 millj. kr. höfuðstól í húsum. Fleiri slík dæmi væri hægt að nefna.

Þar sem frv. þetta er seint fram komið, vil ég mælast til, að því verði hraðað. Óska ég, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.