30.11.1937
Efri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (2189)

111. mál, stýrimanna- og vélfræðiskóli

*Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Ég hefi ásamt hv. þm. Vestm. leyft mér að flytja þessa till., sem sjá má á þskj. 176.

Eins og till. liggur fyrir, felur hún ekki neitt annað í sér en það, að fela ríkisstj. að undirbúa þá byggingu, sem till. ræðir um. Ég skal geta þess, að fyrir okkur flm. vakir, að ríkisstj. vinnist tími til á næsta ári að undirbúa málið svo, að hægt verði að hefja þessa byggingu á árinu 1939. Ég geri ráð fyrir, að það þurfi m. n. að gera fullkomna teikningu að þessari byggingu og leggja fyrir hlutaðeigandi menn. Ennfremur þarf ríkisstj. að ætla þessum framkvæmdum nokkurt fé á fjárl. — Í sambandi við þetta skal ég geta þess, að þegar hefir verið boðin fram lóð undir þetta hús, vegna þess að menn, sem áhuga hafa á þessu máli, eru farnir að sjá, að svo aðþrengt er í skólahúsinu, að það trufli blátt áfram kennsluna, og ennfremur, að staðurinn sé orðinn svo aðkrepptur með húsabyggingum allt í kring, að ekki sé hægt að koma við ýmsu, sem fram þarf að fara í sambandi við kennsluna, svo sem mælingum o. fl. Þessi staður, sem fram er boðinn ókeypis, er talsvert utanvert við bæinn og mun sennilega vera talinn mjög heppilegur.

Ég skal taka það fram, að þetta mál er ekki alveg nýtt, þótt það sé það fyrir þessari d. Með árinu 1931 var hafin hreyfing fyrir þessu máli af skipstjórum og vélstjórum og ýmsum stéttarfélögum hér í bæ. Sjómannafél. Rvíkur skoraði t. d. á ríkisstj. að hefjast handa um byggingu þessa skólahúss, og virðist þá nokkur undirbúningur vera hafinn af ríkisstj., sem afturkippur kom svo í með fjárkreppunni. Síðan hefir verið ýtt undir málið með skrifum til ráðuneytisins, og eins var borin fram þáltill. í Sþ. 1936, sem aldrei kom til umr. Sjómannastéttinni finnst — og er það að vonum —, að hið háa Alþingi veiti þessu máli nokkuð daufar undirtektir og að meiri gaumur sé gefinn að, þegar um er að ræða skólabús fyrir önnur ungmenni, sem búa sig undir sitt lífsstarf. En tilefnið til þess, að menn leggja svo mikla áherzlu á að fá þetta skólahús, er eins og drepið er á í grg., að húsið er orðið gamalt og litt nothæft, miðað við það, sem nú tíðkast um skólahús; og ekki nóg með það, heldur er húsið orðið allt of lítið, vegna þess að nú er farið að starfrækja þar kennslu fyrir vélfræðinema og rafvirkja, og svo hefir deildaskiptingu í skólanum verið fjölgað frá því, sem áður var, þannig að nú eru þar 3 deildir. Eins og nú er komið, er allt útlit fyrir, að útrýma verði vélfræðiskólanum úr húsinu, eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið frá skólastjóranum. Það má því öllum ljóst vera, að hér er full þörf aðgerða, þar sem húsið er orðið allt of lítið fyrir þá starfsemi, sem þar er rekin.

Samkv. þessari till., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að í hinn fyrirhugaða skólahúsi verði reynt að sameina kennslu fyrir allar þær stéttir, sem á sjónum vinna, eins og skipstjóra, stýrimenn, vélamenn og loftskeytamenn, ennfremur matreiðslumenn, sem enn sem komið er eiga engan fastan skóla til þess að búa sig undir sitt mikilsverða starf. Við flm. teljum heppilegt, að þessi starfsemi öll sé innan sömu veggja, enda þótt okkur sé kunnugt um það, að í nágrannalöndum vorum, t. d. Noregi, þar sem fjölmennið er meira. hafa allar bessar sérgreinar sitt sérstaka skólahús. — Um nauðsynina á kennslu fyrir matsveina er það að segja, að reynslan hefir sýnt manni, að það veltur ekki á litlu, að þeir séu vel undir sitt starf búnir, en á því hefir hingað til þótt nokkur ljóður, og með það fyrir augum er hér gert ráð fyrir, að þetta skólahús verði þannig útbúið, að kennsla fyrir matsveina geti farið þar fram.

Ég held, að ég hafi nú tekið fram allt það, sem mestu skiptir í sambandi við þetta mál, og vænti þess, að hv. d. geti fallizt á að samþ. þessa till., sem ekki fer lengra en það, að fela ríkisstj. að undirbúa málið, svo að þar komist skriður á.