12.11.1937
Neðri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

45. mál, afkynjanir, vananir o. fl.

Frsm. (Vilmundur Jónsson):

Allshn. hefir haft þetta frv. til meðferðar og orðið ásátt um að leggja til við hv. þd., að það verði samþ. með einni breyt., ef hreyt. skyldi kalla, og er í því fólgin, að kveðið verði á um það, undir hvaða ráðh. framkv. þessara væntanlegu l. skuli heyra. Það er annars talið geta orkað tvímælis, hvort það á að vera ráðh., sem fer með heilbrigðismál, eða ráðh., sem fer með dómsmál. Allshn. hefir orðið ásátt um að leggja til, að það verði dómsmrh., í viðurkenningu þess, að hér er ekki eingöngu um heilbrigðismál að ræða, heldur öllu fremur um félagsleg mál og réttarfarsmál, og sérstaklega að því er snertir þau atriði l., sem mjög miklu varðar að gætilega séu framkvæmd.

Með því að ég geri ráð fyrir, að hér í hv. d. sé ekki fremur en í allshn. ágreiningur um þetta frv., mun ég spara mér að fara um það mörgum orðum. að vísu er mikið undir því komið, að embættismenn þeir, sem eiga að sjá um framkvæmd þessara væntanlegu l., og sú n., sem á að aðstoða þá við framkvæmd þeirra, og einnig allur almenningur, sem á við l. að búa, átti sig vel á því, hver tilgangurinn er með þeim, og þá sérstaklega, hvaða takmörk eru sett framkvæmdum samkvæmt þeim. Jafnvel texti frv. skýrir þetta ekki til fulls. En ég læt nægja að vísa til ritgerðar, sem ég hefi skrifað um þetta efni og fylgdi sem greinargerð með þessu frv. á síðasta Alþ., þar sem þetta er allt eins greinilega fram tekið, skýrt og túlkað og ég ætla, að þörf sé á. Ef ég færi að endurtaka þetta hér með öðrum orðum og miður hnitmiðaðan en unnt er að koma við í rituðu máli í góðu tómi, mundi það aðeins verða til þess að rugla þá, sem síðar kynnu í þetta að skyggnast. Ég vil þó aðeins taka það fram, af því að ég er ekki viss um, að það hafi verið nógu greinilega tekið fram í þessari tilvitnuðu ritgerð, að ekki er ætlazt til, að þessi væntanlegu l. komi að nokkru leyti í bága við l. frá 28. jan. 1935 um fóstureyðingar. Og þó að hér sé einnig um að ræða að heimila fóstureyðingar, þá eru þau ákvæði aðeins ætluð til viðbótar því, sem lögfest er í l. frá 1935, þannig að þessi væntanlega l. eiga ekki á nokkurn hátt að takmarka heimildirnar til þessara aðgerða eftir hinum fyrri 1.

Þá vil ég geta þess, með tilliti til þeirra hv. þdm., sem ekki hafa haft fyrir því að kynna sér þetta frv. og grg. fyrir því, sem er áminnzt ritgerð, að hér er alls ekki um nein nýmæli í löggjöf að ræða. Algerlega tilsvarandi löggjöf hefir nú um skeið verið í gildi í mörgum löndum, þar á meðal á öllum Norðurlöndum, en lengst þó í Danmörku, þar sem tilsvarandi lög hafa verið framkvæmd nú í nokkuð mörg undanfarin ár og þykja gefa góða raun. Þetta frv. er sem sé ekki til líka eins mikið nýmæli og fóstureyðingal. frá 1935, sem ég minntist á, og voru raunar, eftir því sem ég veit bezt, algert nýmæli í löggjöf, þegar þau voru sett. Enda hafa þau vakið athygli viða úti um heim og mikið verið um þau skrifað, sem eftir því að dæma, sem ég hefi átt kost á að sjá, lifir allt verið á eina lund og okkur heldur til sóma.

Þó að það komi ekki þessu máli, sem hér er til umr., beint við, þá stilli ég mig ekki um að skýra frá því í þessu sambandi, sem er meira um vert en þá eftirtekt, sem fóstureyðingarlögin hafa vakið, að eftir því að dæma, sem séð er af framkvæmd þeirra l., hefir reyndin af þeim orðið góð og til mjög mikillar siðbótar um þessi mál. Á hverju ári síðan l. voru sett, hefir verið tryggð heilsa svo og svo margra kvenna, sem annars mundu hafa orðið án allrar hjálpar í þessu efni. Og þó að sumum komi að virðast það mótsögn, er það engu að síður staðreynd, að fyrir það, að þessi lagaákvæði um fóstureyðingar eru í gildi, fæðast nú alls á hverju ári töluvert fleiri börn en annars mundu fá að fæðast. L. hafa sem sé þau áhrif, að miklu minna er um fóstureyðingar heldur en var áður en þau voru sett. Þetta er sérstaklega eftirtektarvert fyrir þá, sem stimpluðu þá sem barnamorðingja, er unnu að setningu þessara l. Við það guðhrædda fólk, sem þannig talaði, vildi ég aðeins segja það, að það er ekki þess hrós, að það ber nú ekki ábyrgð á dauða margra einstaklinga, sem líf hafa fengið vegna áhrifa þessara l., en annars hefðu orðið að láta lífið.

Að endingu vil ég geta þess til leiðbeiningar fyrir þá hv. þm., sem eiga nú að greiða atkv. um þetta frv., sem hér liggur fyrir, án þess að hafa kynnt sér það til hlítar, að málið hefir verið rækilega og gætilega undirbúið og jafnvel betur en mörg þýðingarmikil mál, sem lögð hafa verið fyrir Alþ. Frv. var sent í þrjá staði til athugunar: til Læknafélags Reykjavíkur, sem setti í það sérstaka n. til þess að yfirfara það, þá til læknadeildar háskólans og loks til lagadeildar háskólans, sem fól sinum lærðasta manni að kynna sér það og skrifa um það álit. Á milli mín og allra þessara aðilja var enginn ágreiningur um frv. eins og það varð endanlega, og í raun og veru var því ekki breytt mikið í þessari meðferð frá því formi, sem það hafði fengið í upphafi. Í þessu, sem ég hefi nú tekið fram um rækilegan undirbúning þessa máls, hygg ég, að felist trygging fyrir því, að ekki sé mjög ógætilegt eða háskalegt að samþ. frv.

Vil ég að síðustu óska þessu máli góðrar afgreiðslu til 3. umr. og síðar til hv. Ed.