17.12.1937
Sameinað þing: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (2228)

131. mál, byggðasafn

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég hygg, að flestir, sem fara um landið árlega, taki eftir því, hvaða breytingu sveitirnar hafa tekið. Þar sem áður hafa verið torfbæir, eru risin upp steinhús, og sama er að segja um sveitabýlin að innan. Þar eru húsgögn og annað breytt frá því, sem áður hefir verið. Ennþá eru til ýmsir sveitabæir á landinu, reisulegir í fornum stíl. Þessi þáltill. er flutt í því skyni, eins og hún ber með sér, að athugað verði, hvar hægt sé að finna staði, sem hafa góðar samgöngur og ferðamenn heimsækja, og yrði þeim stöðum svo haldið við og þeir hafðir til sýnis fyrir þá, sem vilja athuga, hvernig sveitamenning okkar hefir verið til þessa tíma, og yrðu býlin jafnframt búin þannig að húsgögnum og öðrum hlutum, að það væri sem bezt. Mér detta í hug í þessu sambandi staðir eins og Víðivellir og Laufás við Eyjafjörð, sem eru mjög myndarlegir bæir og væri vert að halda við, en það kunna við nánari athugun að koma til greina aðrir staðir, sem tækju þessum fram. Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta hefði mikinn kostnað í för með sér; a. m. k. ætti kostnaðurinn við athugunina sjálfa að vera sama sem enginn, og vil ég vænta þess, að till. verði samþ.