20.12.1937
Neðri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (2250)

137. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Pálmi Hannesson):

Herra forseti, háttvirtu þingdeildarmenn og áheyrendur aðrir! Það hefir komið í minn hlut að hafa framsögu um þá till. til þál., sem hér er til umr. í hv. d. — Till. þessi er flutt af meiri hl. hv. menntmn., hv. 2. þm. Árn., hv. þm. V.-Ísf. og mér. Skal það þegar tekið fram, að enda þótt okkur kæmi ásamt um þetta, var skoðanamunur um ýmis atriði málsins, og tala ég því hér fyrst og fremst fyrir hönd okkar framsóknarmannanna.

Til glöggvunar, einkum fyrir hv. hlustendur úti um land, tel ég rétt að reifa málið — þetta svonefnda dósentsmál — í höfuðdráttum, en þeir eru þessir:

Síðastl. vetur var haldið samkeppnispróf meðal umsækjenda um dósentsembætti við. guðfræðideild Háskóla Íslands. Dómnefnd, sem skipuð var af guðfræðideild, felldi þann úrskurð eftir prófið, að úrlausnir eins hinna þriggja umsækjenda, sr. Björns Magnússonar, bæru langt af hinum. Í dómnefndinni áttu sæti fimm menn. og var einn þeirra prófessor í guðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn, Holger Mosbech. Að loknu prófinu setti hæstv. kennslumálaráðh. sr. Björn Magnússon til þess að gegna dósentsembættinu fyrst um sinn, og munn flestir hafa talið víst að þeirri setningu mundi fylgja skipun síðar.

En þann 16. nóv. skipaði þessi hæstv. kennslumálaráðh. sr. Sigurð Einarsson í embættið. Sama dag kom út að tilhlutun hans bók, þar sem gerð er grein fyrir ástæðum þessarar veitingar. Kemur þá í ljós, að hæstv. ráðh. hefir ekki getað unað úrskurði dómnefndar, heldur fengið úrlausnir umsækjendanna og sent þær til umsagnar sérfræðingi einum í Svíþjóð, próf. Anders Nygren í Lundi, með þeim árangri, að þessi prófessor telur úrlausnir sr. Sigurðar Einarssonar bera langt af hinum.

Engu að síður mæltist þessi skipun illa fyrir, einkum fyrst í stað. Veldur margt um, en þó mest þetta:

Í fyrsta lagi: Andúð á sr. Sigurði Einarssyni, sem menn, væntanlega vegna afskipta hans og skoðana á stjórnmálum, telja ekki æskilegan prestakennara.

Í annan stað: Samúð með sr. Birni Magnússyni, sem hefir reynzt vel í starfi sínu, en þykir grátt leikinn af veitingarvaldinu.

Í þriðja lagi: Aðferð hæstv. ráðh. um veitinguna, þar sem margir telja, að honum hafi borið að hlíta úrskurði dómnefndar, en leita ekki síðar álits erlends manns, og kalla þeir þetta „yfirmat“ og „utanstefnur“.

Í fjórða lagi: Barátta háskólans fyrir því, að draga til sín frá ríkisvaldinu yfirráðin yfir sérmálum sínum, meðal annars embættaveitingum.

Og í fimmta og síðasta lagi: Löngun hv. stjórnarandstæðinga til þess að slá sig til riddara í þessu máli, afla sér með því fylgis og nota það til að koma fram pólitískum erfiðleikum.

Menn geta nú leitað þess í eigin barmi, hverjar af þessum ástæðum hafi skapað þeim skoðun á þessu máli. Hjá sumum eru þær sennilega ein eða fáar, en hjá öðrum allar með tölu. Og í umræðum þeim, sem hér verða á eftir, verður vafalaust leikið á alla þessa fimm strengi, eftir því sem heilindi manna og málavextir standa til.

Ég skal nú verða fyrstur til að lýsa að nokkru afstöðu okkar framsóknarmanna. Þess er þá fyrst að geta, að þessi embættisveiting er gerð í fullkominni andstöðu við ráðherra flokksins. Þeir fengu ekki um hana að vita fyrri en degi áður en hún varð. Eftir það reyndu þeir að koma í veg fyrir hana, en með því að svo er skipað málum, samkvæmt stjórnarskránni, að hver ráðh. fer með mál sinnar stjórnardeildar á eigin ábyrgð, og þá einnig veiting embætta, gátu þeir eigi hindrað hana, þegar hæstv. kennslumálaráðh. sat við sinn keip. Þingflokkurinn markaði sér þegar afstöðu til málsins. Í fyrsta lagi taldi hann aðferð hæstv. ráðh. um veitinguna óheppilega, að ekki sé fastar að kveðið. Hann leit svo á, að úr því að samkeppnispróf var haldið og ráðh. ekki mótmælti skipun dómnefndar, hafi honum borið að hlíta úrskurði hennar til fulls, en ekki til hálfs, eins og hann gerði með því að setja sr. Björn Magnússon í embættið. Þá telur flokkurinn og hæpið að hrinda úrskurði fimm manna dómnefndar með áliti eins manns, án þess þó, að hann telji sig þess umkominn að leggja fræðilegan dóm á það mál. Í öðru lagi lítum við svo á, að þar sem trúmál eru mjög viðkvæm, hefði hæstv. ráðh. borið að taka meira tillit til tilfinninga manna í máli þessu en raun varð á.

Aftur viðurkennir flokkurinn það, að veitingin er lögleg — og hitt með, að hæstv. ráðh. á sér ýmsar málsbætur í afstöðu háskólans fyrr og síðar. Þess vegna var sú ályktun gerð, að flokkurinn mundi ekki láta þetta mál valda samvinnuslitum milli stjórnarflokkanna og mundi víkja frá vantrausti á hæstv. ráðh., ef fram kæmi.

Hitt var jafnframt fastmælum bundið, að bæta úr þeim misfellum, sem orðið höfðu, og rétta hlut sr. Björns Magnússonar, eftir því sem fært þætti. Þetta er í skemmstu máli afstaða okkar framsóknarmanna, og samkv. henni hefir aðgerðum af flokksins hálfu verið hagað.

Nú víkur sögunni til háskólans, og verður þá fyrst að geta þess, að frá því að Framsfl. og Alþfl. fengu valdaaðstöðu í landinu, hefir verið deilt um yfirráðaréttinn — valdið — yfir málum þessarar stofnunar, og þá einkum embættaveitingum. Áður kom það ekki til. Af hálfu háskólans hefir því verið haldið fram, að hann eigi að hafa fullt og óskorað vald yfir sérmálum sínum, svo sem skipun embætta, en að framkvæmdarvaldið — ráðherra — eigi þar ekki nærri að koma um annað en að staðfesta ákvarðanir háskólaráðs. Slíkan sjálfsákvörðunarrétt eða autonomi, eins og það er kallað, hafa ýmsir erlendir háskólar, einkum þeir, sem ekki er — eða hefir í öndverðu verið — haldið uppi af almannafé, nema þá að nokkru leyti.

Stjórnarvöldin hafa aftur haldið hinu fram, að þau beri ábyrgð á háskólanum, eins og öðrum stofnunum ríkisins, fyrir þjóðinni, og eigi því einnig hið æðsta vald á aðgerðum hans, ekki aðeins á pappírnum, heldur og í raun og veru. Þau geta því ekki fallizt á sjálfsákvörðunarrétt háskólans, að hann skoði sig eða skoðist sem ríki í ríkinu, og á því er enginn efi, að þessi skilningur á sér fulla stoð í lögum háskólans, enda hefir það ekki verið vefengt, svo að ég viti. Jafnskýlaust er hitt, að ráðh. ber að leita álits hlutaðeigandi háskóladeildar um kennaraval, og er eflaust til þess ætlazt, að hann veiti embætti samkv. því, nema hann hafi rökstudda ástæðu til þess að ætla, að álitsgerðin sé ekki rétt.

Segja má, að sjálfsákvörðunarréttur háskólans sé mál fyrir sig, en hann hlýtur að koma hér til álits, því að mér er kunnugt um, að fyrir mörgum er hann höfuðatriði, þó að annað sé haft á oddi, enda er það kunnugt, að tveir stjórnmálaflokkar, sem öndvert standa í þessu máli, hafa áður látið uppi álit um hann: í Sjálfstfl. með, Alþfl. á móti, og hafa orðið átök um þetta þeirra á meðal. Aftur hefir Framsfl. ekki tekið afstöðu til þessa enn sem komið er.

Nú þegar skipunin í dósentsembættið varð heyrinkunnug, mun ýmsum ráðamönnum háskólans hafa þótt sinn hlutur miður góður, og létu það uppskátt, að þeir teldu, að mjög væri sorfið að virðingu stofnunarinnar, þar sem úrskurður dómnefndar var að engu hafður. Um vald eða sjálfsákvörðunarrétt var lítið rætt um sinn. En svo ber við, að kalla má, að innangengt sé milli háskólans og herbúða sjálfstæðismanna, og að um þann laungang er miklu meiri umgangur en ég tel hollt hinni virðulegu stofnun, enda varð sú raunin á.

Það varð fyrst til, að sjálfstæðismenn og nazistar meðal stúdenta boðuðu til fundar. Átti nú mikið að vinna og binda alla stúdenta á málið glóðvolga. Á fundinum voru samþ. með miklum meiri hluta mótmæli gegn veitingunni, og svo sem til áherzlu þriggja daga verkfall, sem þó átti að kalla „demonstration“, fyrir kurteisis sakir! En þegar út í þetta verkfall eða demonstration kom, skiptust stúdentarnir brátt eftir pólitískum skoðunum, og óx þá fljótt fylgi þeirra, sem andvígir voru verkfallinu, svo að áhöld urðu um fylgið. Jafnframt þessu tóku ýmsir hv. þm. Sjálfstfl. að reyna að fá Framsfl. til samstarfs um lausn málsins. Höfðu þeir það mjög á oddi, að sr. Björn Magnússon væri framsóknarmaður, og mætti því ekki láta það líðast, að honum væri bolað frá háskólanum. Vildu þeir ekki sætta sig við annað en það, að stofnað væri persónulegt embætti handa honum, og skyldi hann kenna sömu greinar og áður. Nú erum við framsóknarmenn óvanir slíkum þyt í þeim skjá, og skildum því vel, að annað vekti fyrir en sönn umhyggja fyrir framtíð sr. Björns, en tókum því ekki af um neitt.

Í þennan mund barst hæstv. forsrh. bréf frá Láskólaráði. Voru þar í eindregin tilmæli sjö nemenda í guðfræðideild um það, að sr. Björn mætti halda þar áfram kennslu, en guðfræðideild og háskólaráð skrifuðu með til trausts og halds sem einskonar ábekingar.

Nú var allt þetta rætt í flokknum. Virtist flestum einn veg um það, að hversu gjarnan sem við vildum, að sr. Björn héldi áfram kennslu við deildina, gætum við þó ekki fallizt á, að svo komnu, að stofna þar nýtt kennaraembætti, og a. m. k. ekki fyrr en aðrar leiðir væru fullreyndar. Ástæðurnar eru þessar:

Í fyrsta lagi, hve fjárhagur ríkisins er þröngur. Í öðru lagi, að í guðfræðideild eru ekki nema einir 16 nemendur, og af þeim sækja 10 kennslu reglulega, en fastir kennarar eru 3, svo að ekki er eðlilegt, að þeim fjórða sé bætt við.

Og í þriðja lagi þótti okkur sýnt, að ýms vandkvæði mundu af hljótast, ef tveir kennarar ættu að kenna sömu námsgreinar, og keppast þannig um nemendurna, enda hefir sú orðið raunin á, siðan guðfræðideild, upp á sitt eindæmi, réð sr. Björn til að taka upp aftur kennsluna. Nú spyrja menn hér í bæ og getast um, líkt og fréttir af íþróttavellinum, hve margir nemendur mæti hjá hvorum hinna keppandi kennara í guðfræðideild Háskóla Íslands, og mega það allir sjá, hver vegsauki er að slíku fyrir æðstu menntastofnun landsins, svo að notuð séu orð, sem sjálfstæðismenn bera sér mjög í munn nú á síðustu tímum.

Aftur þótti rétt að verða við tilmælum þeirra nemenda sr. Björns, sem áttu skammt til prófs og óskuðu kennslu hans, því að vitanlegt er, að kennaraskiptin hlutu að verða óhagstæð fyrir þá. Í samræmi við þetta fluttu þeir hv. 1. þm. Rang. og hv. 1. þm. Árn. frv. um viðauka við 6. gr. háskólalaganna, þar sem háskóladeildum er heimilað, ef sérstaklega stendur á, að veita aukakennurum leyfi til að kenna tilteknar greinar og prófa í þeim við embættispróf. Þessi ákvæði voru vitanlega miðuð við sr. Björn Magnússon, fyrst og fremst, og gátu því aðeins komið til framkvæmda, að fé væri veitt til á fjárlögum. Var því jafnframt ákveðið að bera fram tillögu um það í hv. fjvn. — Framsfl. var ljóst, að frv. þetta fól ekki í sér fullnaðarlausn þessa máls, en með því vannst tími, ef að lögum yrði, til þess að athuga til hlítar, hvernig ráða mætti málinu til hlunns á þann hátt, sem öllum aðiljum mætti bezt gegna.

Við fyrstu umr. frv. hér í hv. d. ber einkum tvennt til tíðinda: Það fyrst, að augljóst varð af ræðum hv. sjálfstæðismanna, enda þótt þeir teldu sig mundu fylgja frv., að þeir vildu nota málið til þess að æsa pólitískan styrr að hæstv. kennslumálaráðh., koma illu af stað milli stjórnarflokkanna og hafa af því framdrátt fyrir sinn flokk og háskólann. En í öðru lagi lýsti hæstv. ráðh. yfir því, að hann féllist á að ráða sr. Björn Magnússon sem aukakennara við guðfræðideildina með réttindum til að prófa kandidata til loka þessa skólaárs. Vafalaust má telja, að frv. hafi átt drýgstan þáttinn í því, að þessi yfirlýsing kom fram, enda er ekki því að leyna, að með henni var náð öðrum höfuðtilgangi þess, a. m. k. til bráðabirgða. Þannig var þá málinu komið, þegar frv. var lagt fyrir hv. menntmn. Sr. Björn Magnússon var tekinn við kennslu sinni, og þar með var fenginn sá frestur, sem við töldum þurfa til að ráða fram úr málinu. Nú var því næst að neyta hans. En með hverjum hætti?

Kjarni þessa máls eða undirrót eru, a. m. k. að öðrum þræði, deilurnar um sjálfsákvörðunarrétt háskólans, deilur milli háskólaráðs og veitingarvalds, sem oftar en í þetta skipti hafa leitt til átaka milli þessara aðilja. Því verður tæplega með sönnu neitað, að ýmsar embættaveitingar, sem háskólinn hefir einn ráðið um, hafa þótt harla vafasamar, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni, og vil ég í því sambandi leyfa mér að vísa til þeirra bóka, sem kennslumálaráðuneytið hefir gefið út, bæði nú og fyrir ári síðan út af veitingu Ísleifs Árnasonar prófessors. vera má, að veitingarvaldið sjálft sé ekki heldur án saka, enda sannast það oftast, að sjaldan veldur einn, þá er tveir deila. En hversu sem því kann að vera farið, þá er hitt víst, að öll þessi mistök, allar þessar deilur, eru til vansæmdar fyrir háskólann og þjóðina í heild. Þetta er sá hnútur, sem leysa þarf - eða höggva. Og það ætti að vera hverjum góðum dreng meira virði að gera út um málið í eitt skipti fyrir öll heldur en hitt, að apast að óheillum, sem orðið hafa, eða halda sig á hnotskógi ettir fylgi við flokk eða stofnun. Og þá fyrst, þegar þetta er komið í rétt horf, er hægt að leiða það mál til farsællegra lykta, hvernig skipa skuli til um kennara við guðfræðideild háskólans í framtíðinni.

Þessu hélt ég fram í hv. n., og lagði á það alla stund að fá einhuga afgreiðslu málsins, sem leiða mætti til lausnar, er allir gætu unað við. Lengi vel var ég vongóður um, að þetta mundi takast, en að síðustu brást þó samvinnan, og þeir hv. þm. Dal. og hv. 4. þm. Reykv. héldu sína leið. Þeir kusu að mæla með frv., og í nál. á þskj. 303 færa þeir til þess ástæður, sem þeir höfðu ekki komið fram með í n. Og mér er spurn: Hvaðan voru þau rök runnin? Við hinir, sem skipum meiri hl., töldum ástæðulaust að láta frv. fara lengra, eftir það, að hæstv. ráðh. hafði gefið yfirlýsingu sína við 1. umr., en berum aftur fram till. þá til þál., sem hér er til umr. Og vegna hlustenda úti um land vil ég leyfa mér að lesa um tillgr., með leyfi hæstv. forseta:

Neðri deild Alþingis ályktar að fela kennslumálaráðherra að skipa þriggja manna nefnd, eftir tilnefningu þriggja stærstu flokka þingsins, til þess að vinna að endurskoðun á lögum og reglum um Háskóla Íslands, með sérstöku tilliti til þess, að sem örugglegast verði um það búið, að jafnan veljist hinir hæfustu menn í fastar kennarastöður við háskólann, og að endurskoðuð verði gildandi ákvæði um aukakennara og réttindi þeirra.

Nefndin sé ólaunuð, og skal hún leggja fram álit sitt áður en næsta þing kemur saman“. Með þessari tillögu teljum við stefnt að kjarnamálsins, og að því leyti gengur till. því lengra en frv. Hún tekur upp þann annan höfuðtilgang þess, sem ekki er fullnægt með yfirlýsingu hæstv. ráðh., og skapar honum form. Hún stefnir að því að koma á þeirri skipun um embættaveitingar við háskólann, að ekki þurfi að koma til átaka um þær í framtíðinni. Hitt verður að koma síðar, hversu um verði bætt það, sem orðið er. Og það á að geta komið þegar á næsta þingi. Ég geri ekki ráð fyrir því, að neinn hv. þm. muni mæla því í gegn, að nauðsynlegt sé að ráða fram úr þessu. En hinu hafa hv. andstæðingar haldið fram, að samkv. reglugerð háskólans eigi háskólaráðið að vinna að þeirri endurskoðun, sem till. fer fram á. Það er að vísu rétt, það sem það nær. en vitanlega er hitt fjarstæða, að löggjafinn, Alþingi, megi ekki láta slíkt til sín taka, ef því sýnist. Væntanlega mun enginn halda því fram, að háskólinn geti sett sér lög og reglur án þess að ríkisvaldið eigi þar íhlutunarrétt. Nú er það kunnugt, að hæstv. ráðh. hefir falið háskólaráði að gera tillögur um breytingar á lögum og reglum háskólans. Þykir mönnum líklegt, að þessir tveir deiluaðiljar, ráðherra og háskólaráð, geti orðið ásáttir um lausn þessara mála? Skyldi ekki hitt vera sennilegra, að þriðja aðiljann þurfi til að jafna ágreininginn? Og hver á sá aðili að vera, ef ekki Alþingi? Er þá ekki eðlilegast á allan hátt, að það setji þegar nefnd, til þess að starfa að þessum málum fram að næsta þingi? Þessu verður væntanlega svarað hér í kvöld. Vitanlega er til þess ætlazt, að hin þingkjörna nefnd fái tillögur háskólaráðs. Og ennfremur er ætlazt til þess, að hún geri fullkomna skipun um undirbúning embættaveitinga; hver eigi að hafa hið raunverulega veitingarvald, hvort samkeppnispróf skuli halda eða ekki, hversu til þeirra skuli stofnað, ef haldin eru, og hvort niðurstaða dómnefndar sé bindandi fyrir ráðherra eða ekki.

Allt þetta eru atriði, sem hljóta að koma til úrskurðar hv. Alþ. Og fyrst úrslitin eru hjá löggjafanum, á hann þá ekki líka að hafa hönd í bagga með undirbúningnum? því hefir einnig verið haldið fram af hv. andstæðingum, að við framsóknarmenn í nefndinni höfum brugðizt málstað sr. Björns Magnússonar með því að setja frv. aftur. En hvar eru rökin?

Hefir því ekki fengizt framgengt, að hann verði ráðinn til að kenna sömu greinar og áður við háskólann? Og skyldi það vera verra fyrir hann, að hæstv. ráðh. hefir kosið að gera þetta af frjálsum vilja? Nei, í því er einmitt fólgin nokkur viðurkenning á málstað hans. Og þessi skipun stendur fram yfir næsta þing, svo að þangað til er engu að tapa. En á næsta þingi ætlumst við til þess, að málið verði leitt til lykta, og verði hv. andstæðingum það sama í hug þá í garð sr. Björns eins og þeir vilja láta á sér skilja nú, þá verður vel fyrir máli hans séð. því að framsóknarmenn munu aldrei láta á sér standa um það, að gera hlut hans góðan. Vitanlega geta menn haft með sér getraunir um það, hver fyrst muni lúta, ef þeir hafa ánægju af, en tíminn einn sker úr. Þá má líta á tvennt; það fyrst, að gert er ráð fyrir því, að milliþinganefndin verði þann veg skipuð, að hans hlutur verði ekki fyrir borð borinn, að því leyti sem til hennar tekur, og í öðru lagi hefir Framsfl. borið fram og fengið samþ. í dag laun handa honum á fjárlögum fyrir allt næsta ár.

Ég endurtek það að síðustu, að fyrir mér er höfuðatriði málsins þetta: Að girða fyrir þau óvirðulegu mistök og deilur, sem orðið hafa út af embættaveitingum við háskólann. Í því skyni, fyrst og fremst, er þáltill. á þskj. 330 borin fram. Hitt kemur síðar til, að bæta úr þeim misbrestum, sem orðið hafa. Og ég er sannfærður um það, að hvorttveggja næst bezt með friðsamlegu samstarfi allra flokka í fullri einlægni og þegnskap. Ég hefi beitt mér fyrir því, að slík lausn gæti fengizt, en hefi því miður orðið að fara bónleiður til búðar enn sem komið er. Nú vil ég þó leyfa mér að vænta þess, að hv. andstæðingar sjái sig um hönd, viki til hliðar þrasi og þótta og gangi með okkur til alvarlegs samstarfs um þetta mál, því að ég hefi þá bjargföstu trú, að friðurinn sé í öllum hlutum beztur og að góður vilji dragi lengst í hverju máli.