20.12.1937
Neðri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (2254)

137. mál, Háskóli Íslands

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Heiðruðu hlustendur! Ég verð að byrja með því að láta undrun mína í ljós yfir því, að hér skuli vera farið að útvarpa frá Alþingi umr. um þessa till., sem hér liggur fyrir. Formlega felst ekki annað í þessari till. en að kjósa nefnd til að endurskoða ýmislegt viðvíkjandi embættum og veitingarvaldi við háskólann, og það er út af fyrir sig gott og þarft. En hvað innihaldið snertir, þá er hér, eins og auðvitað er, rifizt um dósentsmálið svokallaða, eitt af óþörfustu málum, sem fyrir þinginu liggja, en réttnefnt æsingamál, þar sem þeir, sem andstæðir eru, geta rifizt eins og þeir nú hafa gert, ákallað hver sinn sérfræðinginn í goðafræði sem óskeikulan og lýst hinn sérfræðinginn sem óalandi og óferjandi. Meðan þessu fer fram, bíða þúsundir alþýðumanna og kvenna um land allt með óþreyju eftir endurbótum á hag sínum. Þúsundir verkamanna og sjómanna og bænda, sem berjast hetjulegri baráttu við atvinnuleysi, fátækt og skort. Þetta fólk hefir í harðvitugri áratuga baráttu byggt upp samtök sín, — stéttasamtök, verkalýðssamtök, samvinnusamtök, skapað sér flokka sína, Alþfl. og Kommfl., til að berjast fyrir réttlæti og frelsi þeim til handa. Þetta fólk vann í vor einn stærsta sigur, sem það hefir unnið eftir áeggjan þessara flokka sinna, — með kosningunum 20. júní, — kosningum, sem skópu í fyrsta sinn hreinan vinstri meiri hl. á Íslandi. Þetta vinnandi fólk hefir nú búizt við lausnarorðinu frá þessum flokkum sínum á þessu þingi. Það hefir beðið og beðið eftir ávöxtunum, og það, sem það nú fær, eru þessar umr. um dósentsmálið eins og nokkurskonar rjómafroða út á alla tollasúpuna!

Hér á þinginu hafa verið borin fram stórmál. sem höfðu þýðingu fyrir allar hinar vinnandi stéttir og baráttu þeirra fyrir bættum kjörum og réttindum. Kommfl. hefir borið fram frv. um alþýðutryggingar, sem myndu þýða stórkostlegar endurbætur á þessu velferðarmáli — það var svæft. — Kommfl. hefir borið fram frv. um framfærslulögin, um réttlæti, mannúð — það var líka svæft. Frv. um greiðslu verkkaups í peningum var reynt að þverbrjóta með undanþágufarganinu, og aldrei komið úr n. Hagsmunamál sjómanna, smákaupmanna, — allt svæft og þagað í hel.

Hér hafa ennfremur verið borin fram af öðrum stórmál, sem varða alþjóð, mál eins og tollamálin eða síldarverksmiðjurnar. Umr. um þessi mál er ekki útvarpað. Það fæst nú ekki rætt í útvarpinu frá Alþingi, hvílík hætta vofir yfir öllum fiskimönnum Íslands í sambandi við samsærið um síldarverksmiðjurnar. Hvernig stendur á þessu? munu menn spyrja. Hvað er að gerast í íslenzkum stjórnmálum á bak við tjöldin, sem veldur þessu? Hvaða öfl eru að verki, sem sérstaklega vilja blása þessu dósentsmáli upp í stórmál?

Ég skal reyna að gera nokkra grein fyrir því. Pólitíska ástandið á Íslandi er nú að taka stakkaskiptum. Við stöndum á einhverjum þýðingarmestu tímamótum íslenzkrar sögu. Það dregur upp til úrslitaátaka milli afla afturhalds og auðvalds annarsvegar, en allra krafta framsækni og alþýðu hinsvegar. Fylkingarnar til hægri og til vinstri hafa verið að framkvæma liðskönnun og afla bandamanna undir úrslitahríðina. Það má með nokkrum sanni segja, að sú stj., sem setið hefir undanfarið, hefir verið vinstrifl.stj., en með íhaldsstefnu í veigamiklum málum, þó að hún hafi í nokkrum málum, svo sem í samvinnuhreyfingunni, staðið með vinnandi stéttunum. Þetta Alþingi og samþykktir þess í tollamálunum hafa bezt leitt í ljós, að ólíklegt er, að þetta ástand geti haldið áfram lengur. Annaðhvort verður að skapast hér vinstri stj., sem rekur vinstri pólitík, stjórnar alþýðunni í hag, eða ella er viðbúið, að hér verði sköpuð hægri stj., íhaldsstj., til að reka erindi aðalauðmannaklíkunnar í landinn, reka íhaldspólitík, og það miklu harðvítugri og verri en þá, sem þessi stj. hefir rekið versta.

Kapphlaupið stendur nú á milli beggja fylkinga um, hvorum takist fljótar og betur að skapa ríkisstj., er stjórni eftir hreinum línum.

Kommfl. einbeitir öllum sínum kröftum að sköpun virkilegrar vinstri stjórnar, að myndun fylkingar allra þriggja vinstri flokkanna. Við vitum, að allar hinar vinnandi stéttir óska eftir sterkri þjóðarfykingu, — til þess gáfu þær vinstri flokkunum svo glæsilegan sigur í vor. Í þjóðfélagsfylkingunni sjá þær kórónuna á samtök sín í baráttu sinni fyrir réttlæti og frelsi. En meðan alþýðan vinnur þannig, þá er íhaldið að skipuleggja sína krafta. Miðdepillinn í íhaldsflokknum, dúnkrafturinn í undirbúningi afturhaldsstj., er landsbankavaldið. Þetta vald tengir saman Kveldúlfsvaldið í íhaldsfl. og hina afturhaldssömu foringja Framsfl. Í bankaráði Landsbankans mætast þeir sem í æðra veldi formaður Sjálfstfl. og formaður Framsfl., og út frá samtvinnuðum hagsmunum Kveldúlfs og Landsbankans byrjar þeirra fyrsta sameiginlega ganga. Það hefir lengi verið ósk landsbankavaldsins að geta tengt Framsókn og íhaldið saman til að vernda yfirdrottnun Kveldúlfs og Landsbankans í landinu, því hagsmunir þessara tveggja stofnana eru að því leyti þeir sömu, að hvorttveggja eru fyrirtæki á heljarþröminni, sem hvorugt má láta þjóðina sjá sannleikann um ástand sitt, og hvorttveggja þarf að ná milljónagróða á ári frá fólkinu til að dylja töpin og forðast gjaldþrotið. Það er því aðaliðja hættulegustu afturhaldsaflanna í landinu nú sem stendur að reyna að tengja saman Sjálfstfl. og Framsfl. og undirbúa stjórnarmyndun. þessara flokka. Ólafur Thors lýsti því yfir í eldhúsinu, að um eitt væri hann og Jónas Jónsson orðnir sammála — síldarverksmiðjurnar. Annar svarti punkturinn er vinnulöggjöfin. Bjarga Kveldúlfi á kostnað síldveiðenda, og með því viðhalda gjaldþroti yfirstéttanna á kostnað verkalýðsins. Það má segja, að í eldhúsumræðunum hafi Ó. Th. opinberað þessa trúlofun sína við J. J., — og meiningin hjá íhaldinu var að láta dósentsmálið verða þá kirkjulegu blessun á þessa trúlofun.

Það er engum efa bundið, að ástæðan til þess, að íhaldið hefir gripið dósentsmálið svo fegins hendi er, að það hélt, að það gæti spunnið einn þráðinn enn til að tengja það við Framsókn.

Íhaldið vonaðist eftir að slá tvær flugur í einu höggi með þessu máli; fá hér mál, sem hægt væri að blása svo upp, að til samvinnuslita leiddi milli Framsfl. og Alþfl., og æsingamál, sem hægt væri að beita gegn Alþfl. og öllum sósíalistum, með því að koma trúarofstæki í spilið, tendra æsingar og hita út af því tilfinningamáli, sem það er. Þetta er aðalatriðið hjá íhaldinu í þessu máli og markar afstöðu þess. Hinsvegar verður því ekki neitað, að frá sjónarmiði sósíalista hefir tekizt óhöndulega í þessu máli. Ég verð að segja það hreinskilnislega, að ég skil ekki þá tilhneigingu hjá einum marxista — eins og Sig. Einarssyni — að kæra sig um og keppa eftir að verða dósent í guðfræði, eins og guðfræðideildin er við háskólann; því það er vitanlegt, að slík deild getur ekki verið nema eitt af tvennu, annaðhvort skóli til að búa menn undir að flytja ákveðnar trúarskoðanir, eða vísindaleg stofnun, sem rannsakar upphaf og eðli trúarbragða og alls ekki tekur afstöðu með einum trúarbrögðum, heldur leitar sannleikans á vísindalegum grundvelli. — Og þá væri hún engin guðfæðideild lengur.

Við kommúnistar álitum, að hér á Íslandi eigi að ríkja fullkomið trúfrelsi, allir eigi að hafa jafnan rétt, og það yndi um leið þýða aðskilnað ríkis og kirkju. Við álítum óréttmætt, að allir, einnig þeir, sem ekki aðhyllast lúterska trú, skuli verða að greiða gjöld, sem varið er til trúarbragðaútbreiðslu. Og af því myndi leiða, ef fullkomið trúfrelsi væri, að guðfræðideildin væri lögð niður, og það álitum við kommúnistar, að ætti að gera. Ég álít, að það hafi og verið pólitískt óviturlegt af hæstv. ráðherra, sem annars sýnir í flestum málum afarmikla gætni, að knýja þetta mál fram með slíkum krafti sem gert var. Þar sem um Björn Magnússon og Sigurð Einarsson var að velja, væri margt gott um báða að segja. En þetta er ódrengileg árás á Sigurð Einarsson hér í útvarpinu, sem ekki getur varið sig hér. Sigurður Einarsson hefði, án þess að fá veitingu dósentsembættisins, getað fengið fulla uppreisn fyrir þá ótvíræðu hlutdrægni, sem prófessoraklíkan í guðfræðideildinni hefir beitt hann, bara með birtingu á dómi prófessors Nygrens, og út á meðal þjóðarinnar hefði það tvímælalaust orðið enn sterkari áfellisdómur á óréttlæti hinna skriftlærðu í prestaskóla Íslands en veitingin. Hinsvegar vil ég lýsa fullri samúð með baráttu hæstv. ráðh. að öðru leyti við þau afturhaldsöfl, sem ráða við Háskóla Íslands. Þau öfl, sem sífellt hafa reynt að halda nýjum, róttækum kröfum frá honum, og jafnframt setja háskólann niður í áliti manna sem vísindastofnun. Það riður á að hefja háskólann á hærra stig, og það verður ekki gert með því að bægja sífellt öllum róttækum, frjálslyndum kröftum frá honum, eins og íhaldið alltaf reynir að gera. Eigi háskólinn að verða virkileg menningarstöð, þá verður hér að verða alger breyting á, og einn liður í þeirri breytingu, a. m. k. eins og hún núna er rekin, hyrfi úr honum, enda lítur helzt út fyrir það, að hún sé nú sjálf að þurrkast út, þ. e. a. s. að nemendurnir séu að hverfa úr henni í sama hlutfalli og prestakennurum fjölgar. Það er svart að sjá nú 4 kennara yfir 9 nemendum í prestaskólanum, á meðan ríkið þykist ekki hafa efni á að hafa nema einn kennara á hver 50 börn og greiðir barnakennurum slík smánarlaun, að meðalárslaun kennara á Íslandi eru 1431 króna.