20.12.1937
Neðri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (2258)

137. mál, Háskóli Íslands

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. V.-Sk. upplýsti menn um, að ég hefði neitað að láta fara fram samkeppnispróf um skipun prófessorsemhættisins í lögum 1936. Þetta er rangt, eins og hv. þm. hlýtur að vita. Það var aðeins um 2 menn að ræða, sem um embættið sóttu. Annar þeirra neitaði að ganga undir samkeppnispróf, og þá var ekki eftir nema einn. Og samkeppnispróf, sem aðeins einn gengur undir, er vitanlega ekkert samkeppnispróf. Annars var háskóladeildin klofin um þetta. Það voru 2 af prófessorunum, sem vildu hafa samkeppnispróf. en ? lagði til, að þeim yrði veitt embættið, sem hlaut það. Það hefir nú dregið nokkuð niður í þessum hv. þm. veðrið. Ekki kvað hann í sinni síðari ræðu sterkara á en það, að ef einn væri grunaður, þá mætti eins gruna annan. Ég vil taka það fram, að það er engin skynsamleg ástæða til að gruna Nygren um, að neitt hafi blandazt inn í hans dóm, sem hafi getað haft áhrif á hans niðurstöðu. En um hinn verður að segja það, að það er því miður svo, að eins og hv. þm. V.-Sk. gat um, þá dvaldi hann hér um tíma og hafði náin kynni af meðstarfsmönnum sínum, og að hann hefir orðið fyrir áhrifum af þeim í skoðunum á keppinautunum, er bert, sérstaklega af grein, sem hann sá tilefni til að skrifa í sumar í hlað í Danmörku. Í þeirri grein leyfir hann sér að fullyrða, að einn umsækjandinn hafi verið fylgismaður ráðh. og almannarómur hafi sagt, að ráðh. ætlaði að koma honum í embættið. Mig furðar á að s,já þessi ummæli eftir erlendan vísindamann. Það sýnir, hvað hefir verið hjalað í eyru hans hér heima. Annars get ég ekki stillt mig um, í sambandi við margendurtekin ummæli um það, hversu lítt hæfur Sigurður Einarsson sé til þess að kenna guðfræði, að rifja upp ummæli þessa hv. þm. frá 1916. Þá segir þessi hv. þm., að það sé dæmi um mikinn þroska að hafna öllum átrúnaði, og til viðbótar segir hann, að hann telji mikla kirkjusókn ekki vera til neinna bóta fyrir líferni mannanna. Þetta er nú sá maður, sem hefir sótt eftir því að verða kirkjuráðsmaður og hefir náð því takmarki. Og svo gerir þessi hv. þm. sig breiðan yfir Sigurði Einarssyni og ætlar að fordæma hann fyrir hans skoðanir á þessum málum. (GSv: Ég var prívatmaður). Hann var það líka um sínar trúarskoðanir. Það eru nokkur atriði úr fyrri ræðu hv. þm., sem ég get ekki látið ómótmælt. Hann var að tala um orðalag skýrslunnar. Honum ferst. Afkastameiri mann er nú vart hægt að fá en þennan hv. þm. til að hnoða saman stóryrðum. En um orðalag skýrslunnar er það að segja, að orð hennar eru nokkuð þung; það er satt. En sannleikurinn er jafnan sárbeittur, þegar hann kemur við kaun manna. Hvað viðvíkur utanstefnunum, sem hv. þm. varð tíðrætt um, þá er það að segja, að það er helber rökvilla að tala um utanstefnur í sambandi við þetta mál. Utanstefnur var það kallað, þegar mál voru lögð undir úrskurð erlendra manna. Hér hefir slíkt ekki átt sér stað. Hér hefir aðeins verið leitað álits erlendra sérfræðinga, og það á sér oft og tíðum stað um ýms málefni, sem þýðingarmikil eru. Jafnvel rektor háskólans hefir leitað álits erlendra sérfræðinga um mæðiveikina, og þó eru hér margir sérfræðingar til í dýralækningum. Utanstefnur viljum vér engar hafa. segir hv. þm. En hver var það, sem byrjaði á þessum „utanstefnum“? Það var háskólinn sjálfur. Hann sótti erlendan prófessor til að taka þátt í störfum dómnefndarinnar. Og meira að segja öll dómnefndin með tölu skaut sér á bak við þennan erlenda mann. Þá segir þessi hv. þm., að ráðh. beri að hlíta löglegum prófum. Hvaða próf er hér um að ræða? Hér er aðeins um að ræða rökstuðning fyrir áliti guðfræðideildarinnar til ráðh. áður en hann veitir embættið, en ekki úrskurð. Hv. þm. fór um það stórum orðum, að ég sem ráðh. skyldi leyfa mér að tortryggja dóm dómnefndarinnar, að mér skuli geta dottið í hug, að hún geti hér haft önnur sjónarmið en velferð háskólans. Ósjálfrátt dettur mönnum í hug, að það sé eitthvað skrítið við það, að prófessorarnir Árni Pálsson og Bjarni Benediktsson skuli báðir vera sjálfstæðismenn. Hv. þm. segir, að háskólinn viti betur, hvað honum kemur hvað val starfsmanna sinna snertir heldur en pólitískur ráðh. Dettur nokkrum manni í hug, að maður eins og t. d. Magnús Jónsson, sem er hv. 1. þm. Reykv., verði allt í einu ópólitískur þegar hann kemur inn í háskólann? Nei, það er áreiðanlegt, að kennararnir við háskólann eru ekki ópólitískir frekar en aðrir menn.

Hv. þm. Dal. flutti hér mjög fræðilega ræðu, og mér fannst hann helzt komast að þeirri niðurstöðu, að dómur Nygrens væri vondur fyrir Sigurð Einarsson. Ég skal nú lesa hér upp ummæli prófessors Nygrens um sr. Sigurð. Þau eru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Þar sem athugun á úrlausnum tveggja fyrstu umsækjendanna hafa leitt til svo neikvæðrar niðurstöðu, er mér það ánægjuefni að komast að raun um, að umsækjandinn C (þ. e. Sigurður Einarsson) er rannsóknarmaður af allt annari gerð. Í inngangi ritgerðar sinnar gerir hann í fáum og skýrum orðum grein fyrir þeim mismunandi úrkostum, sem ritgerðarefnið, eins og það er fyrir lagt, hefir í sér fólgna, bæði um efnisval og starfsaðferð, gerir rökstudda grein fyrir þeirri leið, sem hann velur sér, og finnur í því, hvernig atriði efnisins eru lögð honum í hendur, tilefni til að set,ja því takmörk“. Seinna í umsögninni segir prófessorinn: „Að mínu áliti hefir umsækjandinn C þannig á alveg fullnægjandi hátt sannað hæfni sína til kennaraembættis þess, sem um er sótt“. Það er alveg rétt, að hann segir, að Sigurður Einarsson sé greindur, en að það sé galli, á ég bágt með að samþykkja. En um fyrirlestrana, sem Nygren virðist hafa lagt mest upp úr, er það að segja, að prófessor Mosbech, sem ekki kann íslenzku, lét ekki einu sinni þýða þá alla fyrir sig. Hann lét sér nægja lauslega þýðingu á hluta af fyrirlestrunum. Þetta er sannað með vottorði frá þeim, sem þýðinguna önnuðust. Og svo dæmir prófessorinn keppandann harðast fyrir fyrirlesturinn. Hv. þm. bar kvíðboga fyrir því, að ég stæði uppi einn um þetta mál í mínum flokki. Það er þarflaust fyrir hv. þm. að bera kvíðboga fyrir því. Hann þarf engar áhyggjur að hafa af aðstöðu minni í flokki mínum. Hv. þm. ætti heldur að hugsa um sitt eigið bú. Annars veit ég ekki til annars en að það hafi verið bezta samkomulag um þetta í flokknum. En úr því að þessir menn vefengja úrskurð Nygrens, því þá ekki að taka boði Sig. Einarssonar um að skjóta úrlausnunum undir dómstól manna, sem skipaðir væru af háskólum þriggja Norðurlandanna, háskólanum í Osló, Kaupmannahöfn og Lundi, þar sem hvorugur þeirra prófessoranna Nygrens eða Mosbechs yrðu við riðnir að öðru leyti en að þeir gætu gert grein fyrir afstöðu sinni, ef þeir vildu. Sigurður hefir boðizt til, ef dómurinn gengi á móti sér, að standa upp fyrir sr. Birni Magnússyni. Það, að háskólaráðið tekur ekki þessu tilboði, sýnir ekkert annað en að þeir trúa ekki sínum eigin fullyrðingum um það, að Sigurður sé ekki hæfur í starfið.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að ég álít, að það væri réttast fyrir háskólann að þurrka sína fortíð út um embættaveitingar o taka þar upp nýja stefnu í þeim málum. Ég hefi játað það, að ég álít, að það sé óheppilegt að hafa deilur milli ráðh. og háskólans um þessi atriði, og ég hefi boðizt til að láta endurskoða þessar reglur, en þeir hafa ekki sinnt því. — Ég býð svo hlustendum góðar næfur og hlustendum úti á landi gleðileg jól.