14.12.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (2277)

138. mál, jarðhitarannsókn

*Pálmi Hannesson:

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hv. flm. þáltill., hverskonar rannsókn það er, sem þeir hugsa sér, að framkvæmd verði. Ég hefði hugsað mér, að rannsaka mætti, hve mikið magn hér væri til af heitu vatni á hverjum stað. þyrftu slíkar rannsóknir ekki að kosta mjög mikið fé. þessar rannsóknir myndu þá svara til rannsókna þeirra, er hér fóru fram áður en fossalögin voru samþ. Af lauslegum athugunum tel ég líklegt, að jarðhitaorka hér á landi sé fullt eins mikil og orka sú, er felst í öllum fallvötnum landsins.

Hv. 1. landsk. talaði um boranir í sambandi við þessar rannsóknir, sem ættu að vera gerðar sérstaklega fyrir einstök bæjarfélög og hreppsfélög. Fyrir honum virðist vaka sérstaklega teknisk rannsókn.